Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:39:29 (1217)

1995-11-22 15:39:29# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:39]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það má segja að það sé rauður þráður í andsvörum þriggja hv. þm. sem talað hafa, hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar og Steingríms Sigfússonar, að þeir amast mjög við því að flugstjórnarbyggingin hafi veri reist á Keflavíkurflugvelli og hafa mörg orð um það að (ÓRG: Flugstöðvarbyggingin.) --- flugstöðvarbyggingin, ég mismælti mig, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, það er út af fyrir sig svolítið merkilegt innlegg í umræðurnar og sýnir auðvitað með hvaða hætti þeirra málflutningur er byggður upp, hversu fátæklegur hann er og raunar út í hött.

Staðreyndin er sú að meðan hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson var utanrrh. hafði hann engin ráð í sinni hendi til þess að leysa úr fjárhagsvanda flugstöðvarinnar og í öðru lagi voru engar þær tillögur lagðar fram sem að gagni gátu komið.