Samgöngumál á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:53:22 (1220)

1995-11-22 15:53:22# 120. lþ. 39.91 fundur 99#B samgöngumál á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), AnnJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:53]

Anna Jensdóttir:

Hæstv. forseti. Samgöngur á Vestfjörðum eru sérkapítuli í samgöngusögu landsins. Þeim verður seint komið í það horf að það geti allir verið sáttir eða að öruggt vegasamband komist á við aðalakvegakerfi landsins. Á undanförnum árum hafa að vísu verið stigin stór skref til að bæta samgöngur á Vestfjörðum og það ber að þakka. En miklu er ólokið á meðan ekki er búið að tengja saman norður- og suðursvæði Vestfjarða og tryggja samgöngur um Barðaströnd í Gilsfjörð, og þar með Gilsfjarðarbrú. Búið er að tryggja nokkuð öruggar samgöngur innan svæða með tilkomu jarðganga á norðanverðum Vesfjörðum ásamt brú yfir Önundarfjörð og Dýrafjörð. Á suðurhlutanum eru orðnir nokkuð góðir vegir frá Patreksfirði yfir Kjöl til Tálknafjarðar, og Hálfdán til Bíldudals. En það er ekki nóg að hafa góða vegi ef þeir eru ekki mokaðir daglega. Breiðafjarðarferjan Baldur er þjóðvegur suðurhluta Vestfjarða stóran hluta ársins. En þar fylgir sá böggull skammrifi að það er búið að ákveða fyrir fram að íbúar þessa svæðis eigi ekkert erindi akandi út af svæðinu á fimmtudögum og laugardögum, því þá eru engar ferðir yfir vetrartímann. Þar með er þjóðvegurinn lokaður tvo daga í viku fyrir utan þá daga sem samgöngur falla niður vegna veðurs, og við það ræður auðvitað enginn. En það væri hægt að hafa samræmi í mokstri og ferðum ferjunnar. Á þriðjudögum er ferð með Baldri, en þá er ekki mokstursdagur. Einnig má nefna að ítrekað hefur verið bent á að eðlilegt sé að ferja sé gerð út frá þeim stað sem hún þjónar mest, samanber Akraborg og Herjólfur, og þar með ætti Brjánslækur að vera heimahöfn Baldurs, en ekki Stykkishólmur. Á þetta hefur ekki verið hlustað.

En aðalmál samgangna á Vestfjörðum í dag, hvað varðar íbúa Vestfjarða, er það að rekstrargrundvelli skuli hafa verið kippt undan rekstri flugfélagsins Ernis á Ísafirði með þeim afleiðingum að Hörður Guðmundsson skuli vera að flytja starfsemi sína af svæðinu. Hörður og flugmenn hans hafa haldið uppi reglulegum samgöngum milli norður- og suðursvæða Vestfjarða við ótrúlega erfiðar aðstæður. Það má segja að þeir hafi stóran hluta ársins haldið uppi því samstarfi sem verið hefur t.d. í sveitarstjórna- og skólamálum á Vestfjörðum. Og ég verð að segja að mér líst ekki á þróun þeirra mála í framtíðinni, ef svo fer fram sem horfir.

Síðast en ekki síst má nefna hlut Harðar Guðmundssonar og hans manna í sjúkraflugi á Vestfjörðum. Það má segja að þeir hafi verið lífakkeri fólksins á þessu strjálbýla og samgöngulega erfiða svæði. Og ég leyfi mér að fullyrða að ófáir Vestfirðingar eiga þessum mönnum líf að launa og það kemur til með að valda miklu óöryggi íbúa á Vestfjörðum ef Hörður flytur starfsemi sína burtu. Við megum ekki við því, ofan á allt annað sem á okkur hefur dunið á þessu ári.