Samgöngumál á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 16:03:53 (1224)

1995-11-22 16:03:53# 120. lþ. 39.91 fundur 99#B samgöngumál á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[16:03]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og þær upplýsingar sem fram hafa komið, sem í fyrsta lagi hafa leitt það í ljós að nú hefur verið tekin ákvörðun um að þverbrautin á Patreksfjarðarflugvelli verður opin eins og undanfarin ár og það er auðvitað það sem mestu máli skiptir. Menn hafa litið þannig á að þetta væri neyðarbraut sem hægt væri að grípa til og þyrfti að vera hægt að grípa til þegar þannig hefur staðið á og það hefur auðvitað ekkert breyst í sambandi við þessa braut sem gaf tilefni til þess að fara að loka henni. Það er því mjög þýðingarmikið að þessi niðurstaða er fengin sem fram hefur komið í umræðunni. Í öðru lagi hefur það áður komið fram hjá hæstv. samgrh. að það er hans vilji og ætlun að standa við útboðin varðandi Gilsfjarðarbrú. Það er rétt að útboðið sjálft hefur tafist, en vilji hæstv. ráðherra er ótvíræður og yfirlýsing hans er alveg ótvíræð og það er ekkert sem gefur okkur tilefni til þess að ætla annað en að við hana verði staðið.

Það sem er alvarlegast og stendur upp úr þessari umræðu er óvissan í sambandi við rekstur sjúkraflugsins í landinu. Ég harma það mjög að hæstv. heilbrrh. skuli ekki vera hér viðstaddur til að ræða þessi mál því auðvitað snúa þessi mál alveg sérstaklega að hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans. Málið er auðvitað það að Flugfélagið Ernir hefur gegnt ómetanlegu hlutverki sem öryggistæki fyrir Vestfirðinga og sem hluti og liður í heilbrigðisþjónustunni á Vestfjörðum og þegar nú er svo komið, sem var auðvitað fyrirsjáanlegt, að aðstæður hlytu að breytast með opnun jarðganganna, að rekstur flugfélagsins er í mikilli óvissu, þá er mikilvægt að beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh. hvernig ráðherrann hyggst bregðast við þessum vanda. Vegna þess að vandinn snýr sérstaklega að okkur Vestfirðingum sem heilbrigðismál og sem liður í því að tryggja ákveðið öryggi og þjónustu við íbúana.

Nú er það þannig að á vegum heilbrrn. hafa starfað að minnsta kosti tvær nefndir, eins og fram kom í máli hv. málshefjanda hér áðan. Mér er ekki kunnugt um að niðurstaða í þeim nefndum sé enn þá fengin. En það er auðvitað aðalatriði þessa máls að óvissunni varðandi sjúkraflugið sé eytt og það sé tryggt að sjúkraflugið og sú öryggisþjónusta sem því fylgir sé til staðar á Vestfjörðum. Þá verður auðvelt mál að leysa mál eins og póstflug milli suðurhluta Vestfjarða og norðurhlutans. Það gefur auga leið ef grundvöllurinn er tryggður með sjúkrafluginu eins og vera ber.