Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1994

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 11:03:28 (1232)

1995-11-23 11:03:28# 120. lþ. 40.3 fundur 98#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1994# (munnl. skýrsla), KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[11:03]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. síðasta ræðumanns að það þarf að koma þessum málum í ákveðinn farveg hér innan þingsins hvað varðar meðferð á skýrslum sem Ríkisendurskoðun er að vinna, yfirleitt að beiðni opinberra aðila. Í því samhengi langar mig að minna á það að félmn. tók að eigin frumkvæði upp eina af skýrslum Ríkisendurskoðunar um Brunamálastofnun eftir umræðu hér í þinginu. Það var nokkuð ný reynsla hvernig þar var að málum staðið. Þar sem þing var ekki starfandi varð að vísa því til forseta þingsins og forsætisnefndar hvernig með málið skyldi farið. Úrskurður forsætisnefndar var sá, að það væri á valdi nefndarinnar að ákveða hvernig farið yrði með niðurstöðurnar og hverjum ætti að senda skýrslu nefndarinnar. Svo fór að þeirri skýrslu var dreift í hólf allra þingmanna og jafnframt var hún send til viðkomandi ráðuneytis. Það er því aðeins komin reynsla á að að nefndir taki skýrslur upp sjálfar, en auðvitað ætti þetta að vera í ákveðnum farvegi. Það ætti að vísa skýslunum alveg markvisst til viðkomandi fagnefnda, þær ættu að gefa sitt álit og koma jafnframt með ábendingar um það hvernig eigi að fylgja málunum eftir, ef ástæða er til.

Mér fannst ástæða til að minna á þetta hér í þessu samhengi, hæstv. forseti.