Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 11:31:25 (1240)

1995-11-23 11:31:25# 120. lþ. 40.4 fundur 97#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994# (munnl. skýrsla), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[11:31]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er alltaf viðburður þegar skýrsla umboðsmanns Alþingis er rædd á hinu háa Alþingi vegna þess að í henni er yfirleitt að finna margt mjög athyglisvert. Mig langaði aðeins af þessu tilefni og vegna þess að nú er að hefjast nýtt kjörtímabil og hér eru margir nýir þingmenn að rifja það upp að fyrir nokkrum árum gafst mér kostur á því að hlusta á umboðsmanns fólksins á Spáni, eins og hann heitir þar. Það vakti athygli mína hvað hann naut gífurlegrar virðingar á Spáni og það var ekki bara vegna þess að hann var gamall andófsmaður sem hafði orðið að flýja land undan einræðisstjórn Francós heldur hafði hann látið verulega til sín taka í sínu embætti. En það sem ekki síst vakti athygli mína var það að þingið á Spáni sýnir þessu mikilvæga embætti þá einstöku virðingu að umboðsmaðurinn fær að ávarpa þingið. Hann gerir grein fyrir skýrslu síns embættis í sölum þingsins á Spáni. Slíkt tíðkast ekki í okkar kerfi. Það fær enginn að koma í þessa sali nema forseti Íslands og svo kjörnir þingmenn á einhverjum formlegum fundum. En mér þótti þetta afar athyglisvert og sýna hvað þetta embætti þótti mikilvægt enda kom það fram í þeirri greinargerð sem þarna var flutt, þetta var á nefndarfundi einnar nefndar Evrópuráðsins, að hans úrskurðir höfðu haft veruleg áhrif á þróun stjórnkerfisins á Spáni enda þurfti mjög að taka þar til.

Mig langar aðeins að vekja athygli á því þegar að þingmenn eru að velta því fyrir sér hvers vegna svo miklu fleiri mál komi hlutfallslega hér til okkar umboðsmanns en á hinum Norðurlöndunum þá er það nú einu sinni svo að þessi embætti eru miklu eldri á Norðurlöndunum en hér. Ég held ég muni það rétt að embætti umboðsmanns í Svíþjóð hafi verið stofnað einhvern tímann á þriðja áratugnum, milli 1920 og 1930. Þetta er mjög gamalt fyrirbæri þar en kom reyndar seinna til á hinum Norðurlöndunum og þar af leiðandi hafa áhrifin á stjórnkerfið varað miklu lengur.

Það vakti líka athygli mína sem fram kom í ágætri ræðu framsögumanns að þingmenn í allshn. hefðu verið að spyrja um það hvort ekki mætti leita álits umboðsmanns á lagasetningu sem hér var á ferð. Það mætti stundum taka þingmenn svolítið í kennslustund hvað varðar aðskilnað valds á Íslandi og hver hefur hvaða stöðu. Og að umboðsmaður Alþingis er fyrst og fremst til þess að verja rétt einstaklinganna, fólksins í landinu, gagnvart stjórnvöldum. Þó hann heyri undir Alþingi þá er Alþingi hluti af því stjórnvaldi.

En að lokum, hæstv. forseti, af því hér var verið að ræða um viðbrögð stjórnvalda þá var það aðalástæðan fyrir því að ég ákvað að fara upp í ræðustólinn að á okkar borðum liggur einmitt frv. sem flutt er af hæstv. fjmrh. vegna athugasemdar sem fram kom hjá umboðsmanni Alþingis árið 1993. Ég vona svo sannarlega og held að stjórnvöld séu farin að taka miklu betur við sér hvað varðar ábendingar umboðsmanns Alþingis. Það hefur komið fram að það ríkti nokkur tregða fyrst til að byrja með, menn voru ekkert mjög hressir með að fá þetta vald yfir sig. En sem betur fer hefur það breyst og hér er einmitt dæmi um tiltölulega skjót viðbrögð stjórnkerfisins við sjálfsögðum ábendingum þar sem einstaklingar hafa leitað réttar síns og fengið úrskurð. Það kemur ábending til stjórnvalda og hér er það komið í frumvarpsformi á okkar borð.