Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 15:38:56 (1257)

1995-11-23 15:38:56# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[15:38]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Í mjög athyglisverðri grein í Morgunblaðinu í morgun rekur Sigurður B. Stefánsson hagfræðingur hvernig framleiðni á Íslandi allt frá árinu 1987 hefur ýmist staðið í stað eða hrakað. Þetta helst í hendur við það að sjálfsögðu að hagvexti á Íslandi hefur á þessum sömu árum ýmist hrakað eða hann staðið í stað. Það er líka athyglisvert að hugleiða það að ef við skoðum okkur í samanburði við önnur Evrópulönd þá erum við eina Evrópulandið þar sem engin erlend fjárfesting hefur átt sér stað á þessum tíma. Hvað er orsök og hvað er afleiðing í þessu sambandi treysti ég mér ekki til að fullyrða, þ.e. hvort skortur á erlendri fjárfestingu er orsökin að því að hér hefur enginn hagvöxtur verið og framleiðni hrakað eða hvort efnahagsástandið á Íslandi er orsökin fyrir því að erlendir fjárfestar hafa ekki hingað til haft áhuga á að fjárfesta hér.

Það er umhugsunarvert að á árunum 1990--1993, á aðeins fjórum árum hefur eigið fé útlendinga, þ.e. erlent eigið fé í atvinnulífi á Íslandi minnkað úr 7.418 millj. kr. í 5.857 millj. kr. Með öðrum orðum hefur orðið neikvæð erlend fjárfesting á Íslandi af ýmsum ástæðum, m.a. vegna tapreksturs hefur eigið fé útlendinga minnkað á Íslandi sl. fjögur ár. Ef við berum okkur saman, til þess að skoða hreyfingar á þessum árum en því miður eru ekki til tölur frá eldri tíma en 1990 sem sambærilegar eru við þjóðir sem nota sömu uppgjörsaðferðir og við þá má segja að erlend fjárfesting hjá þeim sé á þessu sama tímabili u.þ.b. 20-falt meiri í hlutfalli af vergri landsframleiðslu en hjá okkur. Hvernig stendur á þessu? Hver er ástæðan fyrir því að útlendingar hafa ekki viljað fjárfesta á Íslandi? Ég held að við getum rakið skýringarnar allt aftur til áranna 1964, 1965 og 1966 eins og hv. þm. Svavar Gestsson sagði hér áðan. Það vildi þá svo til að ég fylgdist nokkuð með störfum Alþingis þó ég væri ekki orðinn alþingismaður á þeim tíma og mér eru þær umræður enn í fersku minni. Það voru umræðurnar um það þegar álver var reist í Straumsvík. Og við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að sú ákvörðun sem var svo stór í huga Íslendinga þá að um hana ríkti nánast stríðsástand hér innan veggja Alþingis mánuðum saman var aðeins um að reisa einn kerskála, jafnstórt álver og nú er verið að tala um þegar rætt er um stækkunina á Ísal í Straumsvík. Framkvæmdin var álíka stór þá eins og nú. En mér er enn í minni hverju var haldið fram, m.a. í þingsal á þeim tíma. Því var haldið fram að mengunin af álbræðslunni yrði svo mikil að það yrði ekki búandi í Hafnarfirði og barnadauði í Hafnarfirði yrði svo skelfilegur vegna áhrifa mengunarinnar að fólk mundi flytjast þaðan á brott þar til auðnin ein blasti við. Þessu var haldið fram héðan úr þessum ræðustól. Það var fjöldinn allur af fólki, herra forseti, sem trúði þessu. Því var líka haldið fram að ef þessi erlendi fjárfestir kæmi til Íslands þá mundi hann svo að segja á einni nóttu breyta Íslandi í varanlegt láglaunasvæði, þ.e. tilkoma álvers í Straumsvík yrði til þess að Ísland yrði varanlegt láglaunasvæði. Nú eru vissulega lág laun borguð á Íslandi en eiga þau fyrirmynd sína í launagreiðslum álversins í Straumsvík? Því var líka haldið fram úr þessum ræðustóli að ef til þess kæmi að erlendur fjárfestir eins og Alusuisse settist að hér á Íslandi þá gætu menn hætt að hugsa um að kjósa hér alþingismenn eða velja sér ríkisstjórn á Íslandi því bæði þingi og þjóð yrði eftir það stjórnað frá Sviss. Þessu var líka haldið fram héðan úr þessum ræðustól og fjöldinn allur af fólki trúði þessu. (ÓRG: Það var nú annar ræðustóll.)

[15:45]

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að það má rekja sögu deilnanna um erlenda fjárfestingu á Íslandi og ástæðurnar fyrir því að hún hefur ekki orðið meiri aftur til þessa tíma. Deilurnar hafa verið af þessum toga alveg fram á síðustu ár. Hræðslan hefur annars vegar ráðið ferðinni, þessi íslenska minnimáttarkennd sem brýst gjarnan fram í þjóðrembingi, hræðsla Íslendinga við að eiga samskipti við þegna annarra þjóða. Þessi hræðsla er ekki gleymd. Menn urðu síðast varir við hana þegar umræðan um Evrópska efnahagssvæðið var hér á dagskrá. Þá var því haldið fram af málsmetandi mönnum, m.a. formanni eins stjórnmálaflokksins, næststærsta þingflokksins, að ef við gengjum í EES þá mundi það taka við að útlendingar mundu kaupa upp allar helstu hlunnindajarðir og fegurstu jarðir Íslands og var Laxárdalurinn sérstaklega nefndur í því sambandi. Hann yrði nú fljótt kominn í hendurnar á útlendingum. Því var líka haldið fram af sömu aðilum, að ef að þetta gerðist, mundi Ísland fyllast af fólki frá suðrænum löndum sem mundi undirbjóða íslenskt vinnuafl og taka af því atvinnuna ellegar leggjast upp á félagslega velferðarkerfið á Íslandi. Og enn voru margir sem trúðu þessu. Þannig að hræðslan við útlendingana, íslenska minnimáttarkenndin sem kemur oft fram sem þjóðrembingur, tilheyrir ekki bara árunum 1964-1965 og 1966. Hún tilheyrði líka árinu 1993. En það voru líka aðrar ástæður sem komu til. Ástæður sem ekki tengdust hræðslunni við samskipti við útlendinga, heldur viljanum til þess að velja þá útlendinga sem samskiptin átti að hafa við. Þ.e. vilji þeirra manna sem ekki vildu horfa á þá þróun að Ísland tengdist viðskiptaumhverfinu í Vestur-Evrópu þar sem þeir töldu að aukin tengsl Íslands við viðskiptaumhverfið í Vestur-Evrópu festi í sessi það þjóðskipulag sem við Íslendingar höfum búið við og búum við enn og þeir vildu breyta.

Þetta var hin ástæðan fyrir því að deilurnar hafa staðið hér um hvort Ísland hefði áhuga á því að fá erlenda fjárfesta til liðs við sig eða ekki. Það er vissulega, og hefur alltaf verið, pólitísk ástæða, ekki þjóðrembingsástæða. Ekki minnimáttarkennd heldur pólitísk ástæða. Eins og hv. þm. Svavar Gestsson tók hér fram, spratt afstaða þeirra manna, sem hafa verið á móti öllum tengslum Íslands við viðskiptaumhverfi Vestur-Evrópu, af því að þeir vildu ekki festa í sessi það þjóðskipulag hér á Íslandi sem ríkir og ríkti í löndum Vestur-Evrópu og ríkti hér. Það er líka skiljanlegt miðað við afstöðu þeirra manna til stjórnmála almennt að þeir skyldu hafa haft þá skoðun en á því kann að hafa orðið breyting síðan.

Þessar deilur hafa vissulega haft af okkur Íslendingum lífskjör. Ég er t.d. sannfærður um, þótt ég geti ekki sannað það, að á árunum í kringum 1980, þegar deilur voru milli þáv. stjórnarherra og Alusuisse, voru þeir Alusuisse-menn alvarlega að hugsa um að stækka álverið úr þeirri afkastagetu sem það náði árið 1976 með þeirri viðbótarafkastagetu sem hefur orðið síðan upp á rúmlega 100 þús. tonna framleiðslugetu á ári. Ef þær deilur hefðu ekki komið til í kringum árið 1980 er ég sannfærður um að álverið við Straum hefði verið stækkað á þeim árum. Þegar samkomulag náðist hins vegar á milli stjórnvalda og fyrirtækisins árið 1983 eða 1984, að því að mig minnir, höfðu orðið breytingar á vegna fjárhagserfiðleika Alusuisse. Þá hafði stjórn fyrirtækisins og stefnu þess verið breytt þannig að fyrirtækið dró saman seglin á sviði áliðnaðar, einkum í sambandi við framleiðslu á hrááli, t.d. með sölu dótturfyrirtækja. Í staðinn var ákveðið að efla aðra þætti í rekstri fyrirtækisins, svo sem efnaiðnað og umbúðaframleiðslu. Það varð því ekki af þeim ráðagerðum sem uppi voru hjá stjórnendum fyrirtækisins um þetta leyti að auka álframleiðslu við Straum.

Sama má segja um stjórnarárin fram til 1991. Þá tel ég í tíð þeirra stjórnar að það hefði náðst samkomulag um auknar fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi ef þau mál hefðu getað gengið eðlilega fyrir sig, sem ekki varð. Og þar á Sjálfstfl. nokkra sök. Hann lýsti því þá yfir, m.a. í blöðum og hér á Alþingi, að hann mundi ekki greiða fyrir þeim málum vegna þess að hann hafði meiri áhuga á að sú ríkisstjórn sem þá sat endaði sinn feril, heldur en að standa með þeim sem vildu koma á auknum fjárfestingum erlendra aðila hér á Íslandi.

Það má segja að næsti kapítuli hafi hafist í mars 1992 þegar vísbendingar komu frá Alusuisse um að það væri fýsilegt að stækka álbræðsluna í Straumsvík ef viðunandi samningar næðust. En sá áhugi var fyrst og fremst hjá yfirmönnum þeirrar deildar fyrirtækisins sem fór með álframleiðslu. Þá voru haldnir nokkrir fundir seint á árinu 1992 og m.a. rætt við bæði þáv. forsrh. og þáv. iðnrh. En málið strandaði á því að forsvarsmenn Alusuisse töldu ekki hyggilegt að fara út í stækkun álversins í Straumsvík á sama tíma og þeir voru að loka álverksmiðjum annars staðar í heiminum, t.d. í Noregi, sem voru í eign þessa fyrirtækis. En það lá þegar fyrir í nóvember 1992 að stækkun álversins í Straumsvík væri einhver hagkvæmasti kostur sem hægt væri að sjá, ef stæði til að auka álframleiðslu í heiminum með einhverjum hætti.

Áður en ég kem að síðasta þætti málsins sem nú er farsællega til enda rakinn, þá vil þá drepa niður í nokkrum atriðum sem fram komu á þessum árum um afstöðu einstaklinga, stjórnmálamanna og flokka. Fyrir aðeins fimm árum var gerð svofelld samþykkt af framkvæmdastjórn Sambands ungra framsóknarmanna sem birtist í Tímanum undir fyrirsögninni: ,,Ekkert álver verði reist``. Framkvæmdastjórn Sambands ungra framsóknarmanna ályktaði orðrétt m.a. með þessum hætti, með leyfi forseta: (Gripið fram í: Finnur var í stjórninni.) Já, það er rétt. Eða minnsta kosti mjög tengdur henni.

,,Framkvæmdastjórn ungra framsóknarmanna ítrekar þá skoðun stjórnar Sambands ungra framsóknarmanna að stóriðja eigi ekki að rísa á suðvesturhorni Íslands vegna þeirrar gífulegu byggðaröskunar sem slík staðsetning veldur.`` Og áfram. ,,Réttlætanlegt hefði verið að reisa álver utan suðvesturhornsins til að hamla gegn þeirri óæskilegu byggðaþróun sem orðið hefur undanfarin ár, ef slíkt bryti ekki í bága við umhverfissjónarmið. Nú er komið í ljós að umhverfisspjöll vegna álvers eru töluverð. Glæpurinn er því tvöfaldur verði álverið reist.``

Virðulegi forseti, þetta stendur í ályktuninni. ,,Glæpurinn er því tvöfaldur verði álverið reist.`` Ég vildi biðja hæstv. forseta um að koma þessari ábendingu áleiðis til hæstv. iðnrh. því hæstv. forseti hefur bannað mér að ávarpa hann beint. Svo ef að hæstv. forseti vildi vekja athygli hæstv. iðnrh. á þessari ályktun, þá væri það mér mjög kærkomið.

Hæstv. forseti. Það var sagt meira í þessari ályktun. Með leyfi hæstv. forseta, segir svo:

,,Nær væri að veita því fjármagni sem Íslendingar leggja til álvers, beint eða óbeint, til að byggja upp atvinnustarfsemi á landsbyggðinni og stuðla þannig að jafnvægi í byggðaþróun á Íslandi. Samband ungra framsóknarmanna vekur einnig athygli á að með byggingu álvers veikjum við hina hreinu ímynd Íslands. Sú ímynd, hin hreina ímynd Íslands, er forsenda uppbyggingar Íslands sem ferðamannalands og framleiðslulands ómengaðra afurða.``

Þar með lauk þessari ályktun, virðulegi forseti. Það er bara fimm ár síðan þetta var gert. Það eru bara fimm ár síðan Samband ungra framsóknarmanna lýsir einróma þessari afstöðu sinni til byggingar álvers. Þá var hæstv. iðnrh. a.m.k. í mjög nánum tengslum við framkvæmdastjórn SUF, í stjórn SUF eftir því sem ég best veit. Og nú spyr ég: Hver skyldi vera afstaða Sambands ungra framsóknarmanna í dag? Hefur sambandið miklar áhyggjur af þeirri gífurlegu byggðaröskun sem staðsetningin veldur? Hvernig er með glæpinn? Er hann einfaldur, tvöfaldur eða þrefaldur að þessu sinni? Og hvað um hina hreinu ímynd landsins, virðulegi forseti?

En þeir voru fleiri, virðulegi forseti, sem höfðu nú heldur betur skoðanir á málunum, fyrir aðeins fimm árum. Hv. þáv. þm., Guðmundur Bjarnason, var hvorki meira né minna en heilbrrh. í stjórninni sem fjallaði um nauðsyn þess að auka fjárfestingar útlendra aðila á Íslandi. Hvað bað hann um, sá virðulegi þingmaður og þáv. og núv. ráðherra? Hann sagði að hér væri að eiga sér stað þenslusprenging og byggðaröskun. Hvað vildi hæstv. þáv. ráðherra að yrði gert? Hann vildi að ríkisstjórnin setti fram einhvers konar áætlun og mat á því óhagræði sem hlytist af því að efna til þenslusprengingar og byggðaröskunar. Ég spyr hæstv. forseta og bið hann að koma þeirri spurningu áleiðis til virðulegra ráðherra: Hvenær er þess að vænta að slík áætlun verði lögð fram, þá væntanlega af félmrh. sem er framsóknarmaður? Varla er það verkefni hæstv. umhvrh. að gera það.

En það voru fleiri, virðulegi forseti. Hæstv. núv. félmrh. lét svo ummælt (Gripið fram í: Hver er það?) Hann heitir Páll Pétursson. Ég er nýbúinn að óska honum til hamingju með stækkun Blöndulóns sem er ein af þeim ákvörðunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið vegna þessa álverssamnings. Ég ætla að gera það aftur til að það fáist skráð í þingtíðindin að ég óska hæstv. félmrh. sérstaklega til hamingju með stækkun Blöndulóns. En hann sagði, að sjálfsögðu í Þjóðviljanum, 5. okt. 1990, með leyfi forseta:

,,Páll telur að til verði að koma ákvæði um endurskoðunarrétt vegna harðræðissjónarmiða því ef spár um verðþróun ganga ekki eftir og álverð verði lægra um árabil, hljóti Landsvirkjun að verða að hækka verð til almenningsveitna. Þess vegna vill hann að gólf verði sett í samninginn því annars sé áhættan óbærileg.``

Hann vill sem sagt gólf. Nú er ekkert gólf. Hann sagði þá að áhættan væri ella óbærileg. Allsendis óbærileg. Ég mundi biðja hæstv. forseta að koma því á framfæri við hæstv. iðnrh. að þeir, hann og hæstv. félmrh., spjölluðu nú saman um þessa óbærilegu áhættu. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um það hvað getur gerst á litlum fimm árum. Og umræður um þessi mál eins og hefur komið fram hér, m.a. í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar, sem er aðili að málinu sem stjórnarmaður í Landsvirkjun og hefur greitt atkvæði, eftir því sem ég best veit, í stjórn Landsvirkjunar með þeim orkusamningi sem liggur að baki. Hann hefur a.m.k. lýst yfir samþykki sínu við þann orkusamning, hann telur hann hagstæðan, hagstæðari en ekki og málflutningur hans allur hér í þessu máli áðan ber líka vitni um það hvað afstaða manna hefur breyst á skömmum tíma.

[16:00]

Er það ekki rétt munað að fyrrv. alþm. Kristín Einarsdóttir sitji í stjórn Landsvirkjunar? Er ekki rétt að stjórn Landsvirkjunar hafi einróma fallist á og verið sammála um að þessi samningur um orkusölu sé skynsamlegur? (Gripið fram í: Jú, jú.) Þarna eiga allir stjórnmálaflokkar þá sinn fulltrúa nema Þjóðvaki. Ég held að Þjóðvaki --- jú, Þjóðvaki á líka fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar. (Gripið fram í: Fulltrúi Reykjavíkurborgar.) Fulltrúi Reykjavíkurborgar. Það er mjög athyglisvert til þess að vita hve mikil samstaða er þarna og mætti þá geta sér til að það yrði góð samstaða um málið á hinu háa Alþingi þar sem fulltrúi Kvennalistans og Alþb. hafa báðir lýst jákvæðum viðhorfum til landsins. (ÓRG: Við höfum ekki heyrt í Páli Péturssyni enn þá.) Við höfum ekki heyrt í Páli Péturssyni, hv. þm., það er rétt. Við höfum ekki heldur heyrt í Hjörleifi Guttormssyni, en við eigum eftir að heyra í honum hér á eftir.

Það má segja að lokakafli málsins hafi verið farsællega til lykta leiddur og ég vil óska hæstv. ráðherra til hamingju með það. Það er gott að ljúka því máli með þeim hætti sem hann hefur gert. Það má segja að síðasta lotan hafi hafist í ágústmánuði 1994 og það var ekki síst vegna tilkomu þess möguleika að Íslendingar hefðu sjálfir milligöngu um að byggja þriðja kerskálann við álverið í Straumsvík með því að kaupa kerskála sem boðinn var til sölu frá fyrirtækinu VAW Aluminium Technology frá Þýskalandi í samræmi við það mat sem áður hafði farið fram um hagkvæmni þess að reisa þriðja kerskálann. Það má eiginlega segja að sá atburður hafi valdið nokkrum breytingum í málinu, ekki síst þegar viðsemjendur Íslendinga gerðu sér ljóst að Íslendingar voru reiðubúnir til þess sjálfir að hafa frumkvæði að því með öðrum fjárfestum að kaupa þennan skála, reisa hann sem þriðja kerskála við álverið í Straumsvík og hefja þar starfrækslu. Það lá á borðinu að það var fjárhagslega hagkvæmt og skynsamlegt að gera þetta. Ég held að það hafi orðið til þess að sannfæra fulltrúa Alusuisse-Lonza um að það væri rétt af þeim að taka frumkvæði í málinu sem þeir og gerðu nokkru seinna, eða í byrjun árs 1995, með því að tilkynna að þeir væru reiðubúnir til þess að hefja samningaviðræður við Íslendinga um að byggja þriðja kerskálann. Þeir tilkynntu skömmu síðar að þeir væru reiðubúnir til þess að fjármagna það sjálfir, eftir að þeim var orðið ljóst að Íslendingar voru tilbúnir til þess að leysa það verkefni af hendi í samvinnu við aðra aðila, ef Alusuisse-Lonza vildi ekki taka frumkvæði í málinu, sem það svo gerði. Hæstv. iðnrh. hefur síðan fylgt málinu eftir og gert það skynsamlega að mínu mati og niðurstaðan liggur nú fyrir.

Menn hafa rætt um ýmsa þætti þessara mála, svo sem orkuverð, skattamál og fleira. Menn hafa gert lítið úr áhrifum á atvinnustig vegna þessara framkvæmda o.s.frv. Ég vil í lokin víkja nokkrum orðum að þeirri gagnrýni. Í fyrsta lagi langar mig til að vekja athygli á því, hvað búið er að gerbreyta rekstrarumhverfi fyrirtækis eins og þessa, sem við erum að ræða um hér. Það var gert af hálfu fyrri ríkisstjórnar, ekki síst með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði sem tryggir þessum aðilum tollfrjálsan aðgang að öllu markaðssvæði hins Evrópska efnahagssvæðis og er, eins og fram kemur í greinargerðinni, ein af forsendum þess að þessi ákvörðun er tekin.

Í öðru lagi var það verk fyrrv. ríkisstjórnar að gerbreyta bæði banka- og gjaldeyrismálum á Íslandi. Við gerðum gjaldeyrisviðskiptin algerlega frjáls, við komum á sambærilegri skipan bankamála eins og gerist og gengur í ríkjunum í kringum okkur, þannig að þessi viðskiptalegu atriði eru orðin þau sömu og í okkar helstu markaðslöndum. Það er annar stór þáttur í þeirri ákvörðun erlendra fjárfesta að koma hingað með fé sitt.

Í þriðja lagi voru gerðar algerar breytingar á skattalegu umhverfi atvinnurekstrarins á Íslandi. Áður fyrr var það fyrsta krafa erlendra fjárfesta sem höfðu áhuga á því að koma hingað, fyrir utan kröfu um hagstætt orkuverð o.s.frv., að fá sett um sig sérstök skattalög vegna þess að þeir gátu ekki fellt sig við það skattalega umhverfi í atvinnulífi sem var á Íslandi og var gerólíkt skattalegu umhverfi í atvinnulífi í löndunum í kringum okkur. Þessu var gerbreytt á síðasta kjörtímabili, þannig að þeir aðilar sem rætt er við og hafa áhuga á að fjárfesta á Íslandi, eða við Íslendingar höfum áhuga á að fjárfesti hér, orða það ekki einu sinni þegar þeir hafa fengið upplýsingar um skattalegt umhverfi atvinnurekstrar á Íslandi. Þeir orða það ekki að þeir þurfi á því að halda að fá einhverjar sérstakar skattalegar afgreiðslur eins og menn gerðu áður. Eitt af megintriðum þessa samnings er að gera þá breytingu á skattalegri meðferð Ísals að það lúti sömu skattalegum aðstæðum í öllum meginatriðum og íslensk fyrirtæki gera. Þetta er gerbylting á því umhverfi sem atvinnulífið á Íslandi þarf að búa við og í mínum huga vafalaust eitt af sterkustu atriðum þess að gera Ísland að eftirsóknarverðari kosti fyrir erlenda fjárfesta en það hefur verið.

Menn hafa gagnrýnt orkuverð. Ég veit ekkert um það annað en það sem fram hefur komið. En ég hlýt að leggja áherslu á að benda mönnum á að það er ekki um það deilt í stjórn Landsvirkjunar að þetta sé hagstæður samningur fyrir fyrirtækið, og það skiptir auðvitað meginmáli. Það er hins vegar mjög eðlilegt að fyrirtæki vilji ekki láta koma fram hvert verðið er á þessari umframorku, vegna þess að það hefur það eitt í för með sér að gera samningsaðstöðu Íslendinga gagnvart hugsanlegum orkukaupendum í framtíðinni verri. En í því sambandi vildi ég aðeins taka eitt efnisatriði fram og vildi gjarnan að hæstv. iðnrh. væri viðstaddur, ef það væri hægt, virðulegi forseti, að biðja hæstv. ráðherra að ganga í salinn.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma. Það var eitt atriði sem mig langaði til þess að nefna í hans áheyrn. Ég var, virðulegi forseti, að tala um að mér fyndist mjög eðlilegt af hálfu stjórnar Landsvirkjunar að gefa ekki nákvæmlega upp það orkuverð sem hún hefur samið um vegna stækkunar álversins í Straumsvík, þar sem verið er að ráðstafa umframorku sem engar tekjur hafa ella komið fyrir. Það setti íslenska aðila einfaldlega í erfiðari stöðu í samningum við hugsanlega orkukaupendur erlendis frá sem síðar kæmu. En í því sambandi vildi ég aðeins drepa á eitt atriði sem ég vildi gjarnan að hæstv. iðnrh. hlustaði á. Ég varð þess áskynja undir lok veru minnar í iðnrn. að erlendir áhugamenn um viðræður við Íslendinga um orkukaup áttu greiðan aðgang að öllum upplýsingum um kostnaðarverð hjá Landsvirkjun við framleiðslu raforku eftir ýmsum virkjunarkostum. Þeir virtust geta keypt þessar upplýsingar hjá aðilum sem hafa unnið að slíku mati fyrir Landsvirkjun sem verktakar. Þeir aðilar sem ég komst í tæri við voru sumir kannski ekki af A-flokki í viðskiptum og ekki líklegir til stórræða. Það eina sem þeir vissu var allt um þetta. Þeir höfðu fengið nákvæmar upplýsingar um framleiðslukostnað Landsvirkjunar á raforku miðað við ýmsar leiðir sem Landsvirkjunarmenn höfðu látið kanna. Þetta vissu þeir upp á sína tíu fingur. Þetta er mjög óeðlilegt og gerir samningsaðstöðu Íslendinga gagnvart orkukaupendum mjög erfiða. Ég vildi því beina því til hæstv. ráðherra og spyrja hann að því hvort hann hafi orðið þess sama áskynja og ég, að svo virtist vera sem útlendir áhugamenn um virkjanasamninga við Íslendinga gætu keypt slíkar upplýsingar af verktökum sem unnið hafa fyrir Landsvirkjun. Sé svo, hvernig hyggst hæstv. ráðherra þá taka á málinu?

Að lokum vil ég segja að mér finnst ósköp lítið til um þá röksemd að þessar framkvæmdir, sem nú standa fyrir dyrum, skapi ekki fleiri atvinnutækifæri en lýst hefur verið. Stóriðjuframkvæmdir og rekstur stóriðjuvera, allir vita að þar er ekki verið að gera út á rekstur sem er mjög vinnuaflsfrekur. Það sem við erum að selja með þessum hætti er ekki fyrst og fremst íslenskt vinnuafl. Við erum að selja íslenska orku. Menn verða að líta á tekjumöguleikana sem þetta skapar okkur, þjóðarbúinu í heild, því að tekjumöguleikarnir á bak við hvern einstakling sem stundar atvinnu hjá viðkomandi fyrirtæki eru að sjálfsögðu mjög miklir. Þótt þessi framkvæmd skapi ekki mörg atvinnutækifæri út af fyrir sig, skapar hún íslenska þjóðarbúinu feikilega miklar tekjur og það er mergurinn málsins.

Ég vona svo að ákvörðun þessa erlenda aðila sem hefur langa reynslu af samskiptum við íslensk stjórnvöld sem fjárfestir verði til þess að vekja meiri áhuga annarra erlendra fjárfesta á möguleikum þess að fjárfesta á Íslandi í orkukaupum og geti þannig velt þyngra hlassi þegar fram í sækir en bara því sem við erum að ræða um nú, þ.e. að auka álframleiðsluna í Straumsvík um þriðjung. Auðvitað er sjálfsagt að skoða mjög vandlega öll þau gögn sem fram verða lögð í málinu, en við alþýðuflokksmenn munum gera það með jákvæðum hætti. Við teljum þetta þarft spor, en auðvitað getur verið að það séu kannski einhver atriði í samningnum sem ástæða er til að skoða betur. Og það verður að sjálfsögðu gert.