Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 18:46:46 (1271)

1995-11-23 18:46:46# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[18:46]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra ræddi um orkuverðssamninginn og kom þar með ákveðnar staðhæfingar, m.a. miðað við tímann fram að 2004 og eftir 2004. Finnst hæstv. ráðherra það frambærilegt gagnvart Alþingi að verið sé að ræða málið með þessum hætti þegar ekki er upplýst gagnvart þinginu hver er orkuverðsformúlan? Hér stendur ráðherrann með staðhæfingu sem er ekki hægt að leggja mat á af þingheimi. Mér finnst gersamlega óviðunandi að svona sé haldið á málum. Mér finnst furðulegt að hæstv. ráðherra skuli leggja málið fyrir þingið með þessum hætti. Hvað veldur því að þinginu er ekki gerð full grein fyrir þessu í heild sinni við upphaf málsins? Þetta er gersamlega óviðunandi og ég mótmæli, virðulegi forseti, að þannig sé á málum haldið.

Hæstv. ráðherra ræddi svo um umframorku, nú væri verið að selja þessa miklu umframorku í kerfinu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra til viðbótar við það sem fram kom hjá mér áðan um aðstöðuna sem við erum í. Er það hugmynd ráðherra að hér verði ekki virkjað í framtíðinni þannig að það sé umframnotkun hverju sinni? Ég held að þetta tal um umframorku sé á mjög hálli braut nema menn ætli að taka upp smávirkjanaleið og ráðast í virkjanir í framtíðinni að gerðum orkusölusamningum en ekki þannig að það sé eitthvert borð fyrir báru eins og full rök geta verið fyrir vegna hins almenna markaðar að virkja umfram ef það eru metnir hagkvæmir kostir í samanburði við minni virkjanir.