Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 18:51:09 (1274)

1995-11-23 18:51:09# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[18:51]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég var að lýsa skoðun minni áðan, hv. þm., á því að ég teldi eðlilegt að iðnn. þingsins fengi allar upplýsingar um málið. Ég hef rætt það við forstjóra fyrirtækisins. Ég hef rætt það við einstaka stjórnarmenn í Landsvirkjun. Því hefur verið vel tekið af stjórn fyrirtækisins og af forstjóra fyrirtækisins. Hins vegar er eftir að ákveða af hálfu stjórnar fyrirtækisins vegna þess, hv. þm., að stjórn fyrirtækisins fer með valdið í þessu efni. Hún er kjörin af Alþingi. Hún er kjörin af borgarstjórn Reykjavíkur og af eigendum fyrirtækisins. Hvort sem okkur líkar betur eða verr í þessum efnum þá er það stjórnarinnar að ákveða, hv. þm., hvort þetta skuli gert og með hvaða hætti.

Varðandi síðari spurningu hv. þm. er það svo að ef ekki hefði komið til þessi samningur um stækkun álversins hefði umframorkan sem ég kalla svo dugað okkur sennilega miðað við eðlilega aukningu á þeim markaði sem við vorum með til staðar til ársins 2010. Við hefðum ekki þurft að fara út í alvöruvirkjanir fyrr en árið 2010. Nú þurfa menn hins vegar að stilla upp nýjum kostum með það fyrir augum hvernig menn ætla að sinna aukningunni á almenna markaðnum sem mun verða á næstu árum og hvaða virkjunarkostir verða þá teknir inn.

Ég treysti mér ekki til á þessari stundu að segja nákvæmlega til um það með hvaða hætti það muni gerast. Það er hins vegar nefnd á vegum iðnrn. í samvinnu við markaðsskrifstofuna og Landsvirkjun að vinna að því að stilla þessum virkjunarkostum upp og hugsanlegum iðjukostum á móti. Þetta verk er að verða tilbúið og það verður afhent hv. iðnn. einnig til umfjöllunar þannig að nefndin geti enn betur áttað sig á því hvað er fram undan í virkjunum og í sölumálum Landsvirkjunar.