Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 19:00:25 (1279)

1995-11-23 19:00:25# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[19:00]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég ætla að nota minn rétt til að tala öðru sinni við þessa umræðu, fyrst og fremst til að ræða mál sem hæstv. umhvrh. kom að í sínu máli og ég vænti þess að hæstv. ráðherra sé hér ...

(Forseti (ÓE): Hann er í húsinu.)

hið næsta og bið um að honum sé gert viðvart. Út af fyrir sig á ég ekki margt vantalað í bili við hæstv. iðnrh. þó að af nógu væri að taka ef út í það væri farið. Við eigum þess kannski kost að skoða þessi mál í eitthvað fyllri vitneskju við 2. umr. málsins, en ég ætla sem sagt ekki að fara út í þau efni í löngu máli hér í annarri ræðu minni.

Ég vil þó nefna það fyrst að hlé gefst og hæstv. umhvrh. er ekki kominn í þingsal að ég held að mjög stór þáttur í þessu máli sé það fordæmisgildi sem þessi samningur getur gefið og hlýtur í rauninni að gefa öðrum fyrirtækjum sem hér kunna að leita hófanna um raforkukaup. Það fer auðvitað ekkert hjá því að slík fyrirtæki munu vísa til þess sem hér er á döfinni og mér þætti nú ekkert ólíklegt þó að þau væru þegar komin með vitneskju um það nokkurn veginn hvers eðlis þessi samningur er sem hæstv. ráðherra hefur undirritað fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands án þess að ég viti nokkuð um það. En ég held að menn séu í rauninni í feluleik sem ekki gengur upp í sambandi við raforkuverðssamninginn. Það þykir mér mjög ósennilegt og ég segi það við hæstv. ráðherra, með leyfi forseta, að ég held að þessi stefna að ætla sér að halda leynd yfir raforkusamningi af þessum toga sé í rauninni barátta við vindmyllur. Aðstæður eru þannig, a.m.k. eins og ég þekkti þær fyrir ekki mörgum árum síðan að samningar af þessum toga liggja á lausu víða um heim og við drógum á sínum tíma í iðnrn. þegar ég kom þar við sögu fram allnákvæmar upplýsingar og kortlögðum hvert söluverðið á raforkunni væri í öllum heimshlutum þar sem um er að ræða einhvern orkufrekan iðnað. Því óttast ég satt að segja að það sé meira af tilliti til innanlandsumræðunnar sem stjórn Landsvirkjunar er að biðja um að það sé ekki verið að nefna þau afsláttarkjör sem verið er að bjóða til að laða þessa stækkun fram og þessi viðskipti við Ísal sem um er að ræða frekar heldur en hitt því að það mun áreiðanlega liggja fyrir fljótlega á borðum þeirra sem eru að spá í þessa hluti. Satt að segja er þessi stóriðjuheimur miklu smærri almennt séð á veraldarvísu heldur en svarar til stærðar fyrirtækjanna og það er ekkert erfitt að fylgjast með í þeim heimi ef menn leggja sig eftir því og þar eru auðvitað upplýsingabankar sem veita allnákvæmar upplýsingar um þau efni.

Af því að það er tækifæri til þess, þá vil ég nefna eitt atriði sem hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson kom að í sínu máli þar sem þingmaðurinn staðhæfði að það hefði legið nánast á borðinu árið 1980 eða þar um bil að hægt væri að fá samning við Íslenska álfélagið um stækkun. Þessu sló hv. þm., fyrrv. ráðherra iðnaðarmála, fram í umræðunni. Mér þætti mjög gaman að sjá hv. þm. standa fyrir máli sínu að þessu leyti. Mér er ekki kunnugt um að á þessum tíma hafi legið fyrir einhver tilboð eða óskir af hálfu Alusuisse sem eiganda Ísals um að stækka. Það er algerlega fyrir utan mína vitneskju um málin og ég taldi mig þó vera nokkuð nálægt þessu. En þetta hefur komið fram til þess að reyna að setja stoðir undir þær staðhæfingar sem lesa má í leiðurum dagblaða þessi missirin að þess gæti enn að sá voðamaður sem var að verki við gæslu iðnaðarmála fyrir 15 árum hafi gert stóriðjurisana svo felmtri slegna að þeir væru ekki búnir að jafna sig enn í dag, virðulegi forseti, og það væri skýringin á því að þá hefði ekki borið hér að landi á þeim tíma sem síðan er liðinn. Þessu geta menn auðvitað reynt að trúa sem vilja leggja hlustir við slíkum fullyrðingum.

Virðulegi forseti. Nú er hæstv. umhvrh. kominn í salinn og ég sé mig knúinn til þess að gera athugasemdir við málflutning hæstv. ráðherra þar sem hann var að réttlæta starfsleyfið sem við höfum rætt um fyrr við umræðuna og þá í fyrsta lagi það að hér sé um að ræða stækkun á fyrirtæki en ekki nýtt álver. Mér finnst þetta afar hæpin röksemdafærsla sem er þarna á ferðinni. Hér er um að ræða algerlega nýjan kerskála í fyrirtæki sem vissulega var fyrir. Hver er munurinn á því hvort raðað er upp kubbum með þessum hætti eða hvort verið er að stofna til fyrirtækis af nýjum aðila upp á 60 þúsund tonna álframleiðslu? Röksemdafærsla af þessum toga gengur ekki upp. Að sjálfsögðu er fyrirtækið sem er þarna að bæta við sig ekki að breyta því framleiðsluferli sem fyrir er. Það er ekki það sem verið er að semja um. Það er verið að semja um þriðjungsstækkun fyrirtækisins eða þar um bil, í sérstakri einingu og þá er auðvitað í lófa lagið að taka upp nýja búskaparhætti í þessari nýju einingu. Þetta er það sem kalla mætti, virðulegur forseti, ég vona að mér leyfist að nefna orðið hundalógík. Það er orð sem stundum er borið fram þegar menn eru á tæpu vaði í röksemdafærslunni og ég geri ekki ráð fyrir því að forseti sem nú situr hafi á móti því að þessi dýrategund sé nefnd jafnkær og hún er forsetadæminu að mér best er kunnugt, sérstaklega hinn íslenski.

Ég vísa sem sagt röksemdafærslu hæstv. ráðherra á bug sem réttlætingu fyrir þessu starfsleyfi.

Hæstv. ráðherra sagðist telja að notuð sé besta fáanleg tækni að frágengnum vothreinsibúnaði. Ég held að ég hafi skrifað það nokkurn vegin orðrétt upp eftir hæstv. ráðherra. Hugtakið ,,besta fáanleg tækni`` er ekki eitthvað sem menn bara búa til eftir hentugleikum. Það er það besta sem hægt er að fá til mengunarvarna. Það kemur vothreinsibúnaðinum út af fyrir sig ekki við. Það er spurningin um tilteknar mengunarvarnir að uppfylltu hinu skilyrðinu, bestu fáanlegri tækni sem varðar framleiðslutæknina við framleiðslu álsins svo að ég hélt að um það væri ekki deilt og þess vegna er í starfsleyfi hæstv. ráðherra talað um Ísal-tækni en ekki bestu fáanlega tækni.

Svo telur hæstv. ráðherra þetta vera í besta lagi vegna þess að það sleppi undir staðla mengunarvarnareglugerðar. Ég mundi, virðulegur forseti, í sporum ráðherrans ekki vera viss um að þetta séu fullgild rök. Mengunarvarnareglugerðin frá 1994 er ekki fullkomin smíð. Á það var bent þegar til skoðunar var starfsleyfi fyrir álbræðslu á Keilisnesi að það skorti mikið á að okkar mengunarvarnareglugerð væri eins og eðlilegt mætti teljast í sambandi við kröfur til stóriðjufyrirtækja og því miður var ekki orðið við því sem fram kom í nefndaráliti fjögurra fulltrúa í umhvn. 1992. Þar stóð m.a. að máli núv. þingflokksformaður Framsfl. sem undirritaði allítarlegt minnihlutaálit þar sem stjórnvöld voru hvött til þess að endurskoða mengunarvarnareglugerðina. Um þetta geta menn lesið í skýrslu til Alþingis. Ég held að til einföldunar í þessu efni sé hæstv. ráðherra að tala um þynningarmörk eins og menn módelreikna þau varðandi andrúmsloftið að gefnum ákveðnum forsendum. Það sem ég tel vera meginatriði í þessu er það sem kveðið er á um í starfsleyfinu sem hæstv. ráðherra hefur gefið út og er miklu höndlanlegra gagnvart tilteknu fyrirtæki heldur en þessi mengunarblanda í andrúmsloftinu sem hæstv. ráðherra var að vitna til í míkrógrömmum á rúmmetra og menn námu sem á hlýddu væntanlega hvað þar var verið að segja. En ákvæði í grein 2.1.7 í mengunarvarnareglugerð er það sem skiptir máli gagnvart tilteknu fyrirtæki. Andrúmsloftið er pottur sem hægt er að bæta í. Þar getur komið til mengun frá öðrum fyrirtækjum. Þar kemur til mengun frá bifreiðum o.s.frv. Og menn geta lengi leikið sér að því að segja að þetta valdi ekki svo miklum búsifjum í þessum potti að gefnum ákveðnum forsendum. Aðalatriðið er að gera fyrirtækjunum að standast ákveðnar kröfur eins og ráðherrann hefur verið að gera fyrir sitt leyti í 2.1.7 í reglugerðinni og þar skortir verulega á að staðið sé að verki eins og eðlilegt væri.

Hæstv. ráðherra gleymdi því í sínu máli, ég geri ráð fyrir að það sé frekar gleymska en viljandi gert, að í mengunarvarnareglugerð er ekki kveðið á um mengun af völdum flúors.

Síðan er spurningin um Parísarsáttmálann varðandi mengunargildi. Það er ljóslega gengið gegn ákvæðum hans og ekki er um að ræða sértæk ákvæði gagnvart nýja kerskálnum heldur er allt sett undir eitt. Ég nefndi aldrei töluna 1,4 sem hæstv. ráðherra var að víkja að. Ég nefndi töluna 1,2 því að mér er fullljóst að það er ársmeðaltalið sem um er að ræða. Þetta geta menn lesið í þingtíðindunum og það er það gildi sem þarna er best sem heildargildið en ekki 0,65 sem er bara viðmiðunargildi, óskuldbindandi gagnvart hinum nýja kerskála sett fram til að hugga þá sem voru réttilega að gera athugasemdir við það að ekki skuli vera sjálfstæð mörk að því er varðar nýja kerskálann.

Síðan ætla ég að lokum, virðulegur forseti, aðeins að nefna það sem hæstv. ráðherra var að bera fram í sambandi við koltvísýringinn. Það voru ljótu fræðin. Það var ekki viðleitni til þess að standa fyrir máli sínu sem íslenskt stjórnvald. Það var bara farið út á víðan völl með málið. Menn áttu að hugga sig við það að þetta væri nú víða verra og verra ef menn væru hér að framleiða orkuna með kolum. En það eru íslensk stjórnvöld og Alþingi Íslendinga sem hafa staðfest markmið loftlagssamningsins í Ríó sem um hefur verið spurt í umræðunni og það verður ekkert gert með því að flýja út í heim til að smjúga frá því að standa við þau ákvæði, nema menn ætli sér að brjóta þau.