Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 15:38:22 (1294)

1995-11-27 15:38:22# 120. lþ. 41.5 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[15:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það kom nú rækilega í ljós í umræðum um þetta mál hér á dögunum að vandinn sem við er að glíma í Keflavík er ekki fyrst og fremst fyrirkomulag eða tilhögun á fríhafnarverslun þar. Það er fjarri öllu lagi. Og það merkilega er að þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um það hversu dásamlegt þetta verði ef hf. kæmi aftan við batteríið þá hafa í umræðunni engar upplýsingar komið fram um einhver sérstök vandamál eða ágalla eða eitthvað sem fari aflaga hvað varðar verslunareksturinn sjálfan í fríhöfninni. Þvert á móti hníga flest rök fyrir því að þarna sé tiltölulega vel að málum staðið. Þessi verslun er rekin með miklum hagnaði sem rennur lóðbeint í ríkissjóð og ég kannast ekki við að um þennan þátt þjónustu hafi verið miklar kvartanir. Satt að segja ekki. Ég held að það sé frekar um ýmislegt annað í þessari blessuðu flugstöð eins og það að menn komist illa inn í hana, enn verr gangi mönnum að fá að bóka sig inn í flugvélarnar en eftir að þeir eru sloppnir upp og inn í fríhöfnina sé þeim yfirleitt heldur vel borgið þannig að þetta snúi eiginlega alveg öfugt. Það er hins vegar ágætt að fá þessa tillögu fram, sérkennileg sem hún er að ýmsu leyti svo sem það að hún skuli snúa að fjmrh. um mál sem alfarið er á verksviði hæstv. utanrrh. En það er eins og kunnugt er þannig að sú sérkennilega réttarstaða gildir á svonefndum varnarsvæðum að þar fara utanríkisráðherrar á grundvelli sögulegrar forneskju með alræðisvald. Deila þar og drottna í öllum málaflokkum, eru í raun og veru allir ráðherrar frá hinum minnsta til hins smæsta. Þetta er mjög sérkennileg og annarleg réttarskipan sem ræðumaður hefur oft gagnrýnt og alveg sérstaklega hvað varðar þetta samgöngumannvirki sem er í jaðri svonefnds varnarsvæðis og ætti að sjálfsögðu að heyra undir samgrh. eins og önnur samgöngumannvirki. Ef eitthvað er og ástæða væri til að víkja að þessu máli af einhverjum öðrum en hæstv. utanrrh. þá væri það frekar samgrh. sem ætti að fela að beita sér í þessu málum en fjmrh. Tillagan er auðvitað nokkuð sérkennileg að þessu leyti.

Ég vil líka upplýsa það, hæstv. forseti, vegna þeirra umræðna sem orðið hafa um verslunarreksturinn sem slíkan að á fundi í efh.- og viðskn. nú á dögunum kom flugvallarstjóri til viðræðna við nefndina út af lántökuheimildum flugstöðvarinnar til að lengja í skuldasúpunni því það er árlegur viðburður að það þarf að fá heimildir til að velta boltanum á undan sér sem ekkert er tekið á. Þar kom fram að þeir sem ráða fyrir málum í Keflavík, þ.e. flugvallarstjóri og hans manna, líta þeir svo á að verslunin Íslenskur markaður hafi einkarétt til að versla með innlendar vörur í flugstöðinni. Það er hlutur sem hv. tillögumenn hafa væntanlega ekki áttað sig á út frá umræðum eins og þær hnigu hér um daginn. Sú gagnrýni sem menn hafa beint að fríhöfninni er enn síður réttmæt í ljósi þess að það er ekki við hana að sakast varðandi það að öðrum aðilum sé ekki kleift að bjóða fram þjónustu sína. Ef þar er við einhverja að sakast þá er það það einkaleyfi sem Íslenskum markaði hefur verið falið til að versla með annað en fríhafnarvörur á svæðinu. Og séu þetta réttar upplýsingar, sem ég út af fyrir sig efa ekki að yfirmönnum á þessum stað séu fullkunnugt um og með réttu að þannig sé í pottinn búið, þá liggur til grundvallar væntanlega einhver pólitísk ákvörðun utanrrn. að fela versluninni Íslenskum markaði einkaleyfi til þess að stunda almennan verslunarrekstur í flugstöðinni, þ.e. versla með annað en fríhafnarvörur. Þá er miklu frekar sökudólgurinn fundinn í þessari ákvörðun utanrrn. og/eða því einkaleyfi sem Íslenskum markaði hefur verið fengið. Og þá er enn síður ástæða til þess að vera að lemja á fríhöfninni út af því máli. Enn síður. Standi mönnum ekki til boða að koma sínum vörum þarna á framfæri þá er það væntanlega vegna þess að einni verslun hefur verið falið einkaleyfi og hún getur valið úr hvaða vörur hún tekur til sölu og hvað ekki. Ég er alveg tilbúinn til að styðja við bakið á tillögumönnum í að breyta þessu, að þetta verði opnað upp. Það er algjörlega óháð stöðu fríhafnarverslunarinnar. Algjörlega. Ég vara mjög við því og mér finnst satt best að segja harla barnalegar hástemmdar yfirlýsingar um að það breyti öllu að koma einhverju hf. aftan við fríhöfnina sem slíka. Þá er málið bara allt annars eðlis. Þá er þetta bara kreddumál. Frjálshyggjueinkavæðingarkreddumál. Og ekkert annað í því og nauðaómerkilegt sem slíkt eins og heyra mátti undir lokin hjá hv. síðasta ræðumanni að í raun og veru snerist þetta bara um það að koma hf. þarna aftan við þegar hv. 10. þm. Reykn. Kristján Pálsson var hér að tala síðast.

Það finnst mér satt best að segja ekki tillöguvirði að vera að flytja ef ekkert á að gera annað í málefnum flugstöðvarinnar en bara þetta eitt og þá eru tillögumenn á miklum villugötum. Ég minni í því sambandi á það tilboð sem ég gaf hér og tekið var undir af fleirum að menn sameinist um að breyta þessari tillögu og/eða flytja nýja sem feli í sér að skipuð verði þingkjörin nefnd til þess að gera ítarlega úttekt á stöðu mála á þessum stað, fara rækilega í gegnum málið í heild sinni, þar með talið fjárhagsvanda stöðvarinnar og hvernig megi taka á honum og hvernig megi nýta þetta mannvirki betur og hafa meira út úr þessum rekstri o.s.frv. Það hafa komið fram átakanlegar lýsingar á máttleysi bæði núv. og fyrrv. ríkisstjórna til þess að taka á málinu og það er þess vegna ekki mjög trúverðugt að vera að álykta um að vísa því til ráðherra, sem reyndar fer ekki með málið, að gera eitthvað í því. Það er nánast eiginlega alveg út í loftið svo ekki sé fastara að orði kveðið. Sökum vinsemdar í garð tillögumanna vil ég ekki orða það sterkara. Það er afar hógvært að segja það þannig.

Ég hvet þess vegna eindregið til að þetta verði skoðað í hvaða nefnd sem um málið fjallar nú. Mér skilst að af því leiði að fela fjmrh. málið að tillögumenn hafi lagt til að vísa þessu til efh.- og viðskn. og ætla ég ekki sérstaklega að kvarta undan því, fæ þá tækifæri til að vinna að málinu þar. En það væri nú kannski ekki óeðlilegt að hafa um það eitthvað samráð við t.d. utanrmn. og samgn. og langbest væri að menn næðu sem sagt samstöðu um að taka nú einu sinni á þessum málum af hálfu þingsins. Það er margreynt og fullreynt að ríkisstjórnir eru algerlega máttlausar í því sökum innbyrðis togstreitu.