Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 16:03:04 (1300)

1995-11-27 16:03:04# 120. lþ. 41.5 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[16:03]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þessa till. til þál. en vil lýsa andstöu við hana, þá hugmynd að hið opinbera dragi sig út úr öllum tollfrjálsum rekstri á Keflavíkurflugvelli.

Ég vil byrja á því að gera að umræðuefni orð hv. þm. Kristjáns Pálssonar í umræðunni fyrr í dag þar sem hann vitnaði til ferðar sem fulltrúar þingsins fóru nýlega til Norðurlanda að kynna sér rekstur póst- og símstöðva þar, sérstaklega með tilliti til einkavæðingar, en þessum stofnunum hefur víða verið breytt í hlutafélög. Hann sagði réttilega að þeir starfsmenn sem við höfðum rætt við, í Noregi held ég að hann hafi tiltekið, hafi talið að þær breytingar sem gerðar hefðu verið hefðu almennt vakið ánægju meðal starfsmanna og allur rekstur orðið auðveldari og liprari. Þetta kann að vera rétt hjá hv. þm. En ég vil vekja athygli á því að starfsmennirnir sem við ræddum við voru forstjórinn og tveir eða þrír aðrir æðstu aðstoðarmenn hans í fyrirtækinu.

Ég hef átt þess kost að ræða einnig við aðra starfsmenn sem hafa bent okkur, sem störfum á vettvangi launafólks, á hve erfiðlega gekk að semja við nýja stjórn hlutafélagsins og hvernig allt launamynstur hefði breyst í þessari stofnun við hlutafélagavæðinguna, hve dregið hefði úr starfsöryggi, hve launamunur hefði breikkað á milli þeirra sem voru lágir og þeirra sem voru háir. Reyndar staðfesti forstjórinn í máli sínu við okkur að þessi breyting hefði orðið á launamynstrinu. Þetta vildi ég að kæmi fram í umræðunni þar sem sérstaklega var vikið að þessum þætti.

Annað er mér minnisstætt úr þessari för og þessari viðræðu við yfirmenn símafyrirtækisins í Noregi. Þeir sögðu að það væru litlar líkur á því að þeirra mati að fyrirtækið yrði selt líkt og hefði gerst víða annars staðar, t.d. í Danmörku. Ástæðan var tilgreind sú að Norðmenn væru svo ríkir að það væri ólíklegt að þeir vildu fara út á þá braut að selja hlutaféð. Það er hins vegar að gerast núna.

En hvers vegna vildu menn ekki selja hlutabréfin? Ástæðan var sú að þá mundi gróðinn sem að öðrum kosti nýttist samfélaginu, renna annað, jafnvel til útlanda. Við fengum að kynnast því í Danmörku hvernig símafyrirtækið þar skilaði á síðasta ári einum milljarði kr. íslenskum. Og hlutaféð þar er að hluta komið í erlendar hendur, til Bandaríkjanna. Þannig fara 300--400 millj. af þessum milljarði til Bandaríkjanna. Og hér víkur að flugstöðinni í Keflavík. Hvað er það sem á að einkavæða? Er það ekki einmitt þetta? Á ekki einmitt að einkavæða hagnaðinn?

Við erum að tala um verslun sem veltir tæpum 2 milljörðum kr. Hún skilar almenningi í þessu landi mörg hundruð milljónum kr. á hverju ári. Ég spyr hvort talsmenn markaðskerfis séu ekki komnir út á nokkuð hálan ís, hvort við séum í raun að fjalla um fyrirkomulag þar sem við nýtum kosti markaðarins þegar um er að ræða svo sérstæða aðstöðu sem tollfrjáls verslun í milliríkjaflugstöð eins og raunin er á hér. Mig minnir að það hafi verið í Mið-Afríkulýðveldinu, fremur en Zaire, að valdhafinn hafði þann hátt á gagnvart skjólstæðingum sínum og vinum að þegar hann vildi gera sérstaklega vel við þá, stofnaði hann nýtt tollhlið í milliríkjaflughöfninni þar sem þeir gátu tekið sinn skatt af þeim sem þar fóru um. Þess vegna spyr ég: Hvað er það eiginlega sem vakir fyrir mönnum? Er það þetta? Er það að koma einhverjum á þennan spena sem gefur svo vel? Við sem höfum farið um þessa flughöfn höfum ekki orðið vör við að það sé kvartað þar yfir slæmri þjónustu eða slæmri aðstöðu yfirleitt. Og reyndar kemur hver maðurinn á fætur öðrum sem hefur talað fyrir þessu máli og segir að þeir séu ekki að kvarta yfir þjónustunni og ekki yfir starfsmönnunum. Hvað er það þá sem vakir fyrir mönnum? Mig langar til að skilja þessa spurningu eftir, hvort það kunni að vera þetta, að það eigi að fara að raða einhverjum gæðingum á spenann. Og því andmæli ég mjög harðlega.