Orka fallvatna

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 16:42:46 (1303)

1995-11-27 16:42:46# 120. lþ. 41.6 fundur 11. mál: #A orka fallvatna# frv., 12. mál: #A jarðhitaréttindi# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[16:42]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni þá eru hér á ferðinni þau mál sem margoft hafa verið lögð fyrir Alþingi. Þau hafa fengið talsverða umræðu við 1. umr. málsins og miklar yfirlýsingar hafa oft og tíðum verið hafðar í frammi um að unnið væri hratt og vel að framgangi þeirra mála. Hv. þm. lýsti því síðan nákvæmlega hvað úr hefur orðið og óþarfi að fara mörgum orðum um það. En ég tek undir það með hv. þm. að hér er um mjög mikilvæg mál að ræða og þau eru kannski mikilvægari nú heldur en oft áður, eins og hv. þm. kom hér inn á, ekki síst vegna þess að þær heimildir sem samið var um með EES-samningnum um frestun á ákvæði gildistöku varðandi fjárfestingarnar renna út um næstkomandi áramót, nema hvað fiskveiðar og fiskvinnslu varðar.

Stjórnarsáttmáli leysir ekki svona mál. Ég held að hv. þm. hafi gert nokkuð glögga grein fyrir því að í stjórnarsáttmálum fyrri ríkisstjórna hefur þetta oft verið sett framarlega en lítið hefur orðið úr verkum. Eins og fram kom hjá hv. þm., hafa fyrri iðnrh. verið ósparir á yfirlýsingar. Allt síðan 1987, ef ég tók rétt eftir, hafa málin verið í undirbúningi í iðnrn. En þar hefur að vísu verið unnið ágætis starf til undirbúnings þessara mála. Þessi ríkisstjórn ákvað hins vegar á fundi sínum 17. október að stjórnarflokkarnir tilnefndu tvo fulltrúa í hóp til að undirbúa löggjöf um eignarrétt á auðlindum í jörðu og rétt til virkjunar fallvatna. Í þennan hóp hafa verið skipaðir Stefán Guðmundsson alþm., Sturla Böðvarsson alþm., Páll Gunnar Pálsson lögfræðingur og Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður.

[16:45]

Það er gert ráð fyrir því að vinnuhópurinn byggi starf sitt á tvennum drögum að frumvörpum sem liggja fyrir frá fyrri ríkisstjórn í iðnrn. Þar er tekið er á eignarhaldi á auðlindum í jörðu og virkjunarrétti fallvatna. Eins og fram hefur komið hefur á undanförnum árum verið lögð mikil vinna í þetta og að því hafa komið ýmsir lögfræðingar. Það þekkti ég frá því að ég sat í iðnn. þingsins sem einnig lét þessi mál til sín taka, kallaði m.a. til sérfræðinga á þessu sviði og leitaði upplýsinga, þegar einmitt þessi mál frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni væru þar til umfjöllunar. Það hefur hins vegar skort á að ríkisstjórnir hafi komið nákvæmlega fram með vilja sinn í þessum efnum, hver vilji ríkjandi ríkisstjórnar væri til þess að lögfesta þessi mikilvægu mál. Starfshópurinn á að hafa til umfjöllunar þau frumvarpsdrög sem liggja fyrir fullbúin í iðnrn. og það er óskað eftir því að hann skili tillögum sínum fyrir 15. desember nk., með það fyrir augum að Alþingi geti samþykkt lög um þetta efni á yfirstandandi þingi.

Ég tel að vísu lítlar líkur á því að víðtæk, pólitísk samstaða skapist um málið hér á Alþingi, þótt stjórnarflokkarnir nái þar saman. Og þó svo væri, mun ekki takast að lögfesta málið fyrir áramót. En ég geri mér vonir um að það ætti að takast á yfirstandandi þingi. Eftir að hafa skoðað bæði málin tel ég að þau séu komin býsna langt í vinnslu og vinnuhópurinn er nú kannski fyrst og fremst að samræma sjónarmið stjórnarflokkanna í þessu máli. Þar á ég ekki við að að þau séu svo ólík, en auðvitað kristallast þarna sú afstaða sem stjórnmálaflokkarnir hafa til eignarhaldsins, ekki bara þeir stjórnmálaflokkar sem nú eru í ríkisstjórn, heldur allra stjórnmálaflokka. Um þetta mál geta því orðið mikil pólitísk átök vegna þess að mönnum kann að sýnast sitt hverjum í þessum efnum. Þrátt fyrir það held ég að það sé gríðarlega mikilvægt, ekki síst vegna þess að tímabundnu EES-ákvæðin um fjárfestinguna falla úr gildi núna um áramótin, að hægt verði að leggja fram þessi frumvörp strax eftir áramót og þau fái vandaða umfjöllun á Alþingi.

Ég treysti mér ekki til að fullyrða, eins og mér virðist að fyrrv. iðnaðarráðherrar hafi oft gert úr þessum ræðustóli, að málin séu alveg að koma fram á þingi og muni þá verða afgreidd þar fljótlega. En ég legg hins vegar áherslu á að það er mikilvægt að það verði tekið af skarið í þessum efnum.