Orka fallvatna

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 16:49:02 (1304)

1995-11-27 16:49:02# 120. lþ. 41.6 fundur 11. mál: #A orka fallvatna# frv., 12. mál: #A jarðhitaréttindi# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[16:49]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir þá málafylgju sem hann hefur haft uppi í þessum málum, á líklega einum 11 þingum. Það mætti kannski vera nokkurt rannsóknarefni hvernig á því stendur að frumvörp af þessu tagi skuli ekki hafa fengist rædd alvarlega í þessari virðulegu stofnun og í hv. iðnn. sem um þessi mál hefur auðvitað fjallað.

Satt að segja er það þannig að undir niðri hafa alltaf verið deilur um það hér hvar sleppir þeim eignarrétti sem stjórnarskráin kveður á um að sé í höndum einstaklinga. Hvar hefst hið gráa svæði og hvar er um að ræða það svæði þar sem segja má að þjóðin eigi viðkomandi eign? Í frumvörpunum hefur verið reynt að draga þessu tiltekin mörk og í þeim báðum hefur verið stuðst við mjög vönduð sérfræðiálit, sum að vísu áratuga gömul. En þau eru ekkert verri fyrir það vegna þess að það hafa engin önnur álit komið þarna í staðinn. Í því sambandi má minna á margt, m.a. að því er varðar hugmyndir manna um orku fallvatna og réttinn til nýtingar hennar og umræðu um þetta efni sem sennilega er um hálfrar aldar gömul. Í henni tóku þátt miklir höfðingjar lögspekinnar í þessu landi, Ólafur Lárusson, Bjarni Benediktsson og síðar Ólafur Jóhannesson. Hér var um að ræða mjög merkilega og vandaða umræðu og þessi frumvörp byggjast á henni. Hér hefur hv. flm. ekki verið að hlaupa til og draga fram málefni sem hafa svo að segja verið tekin út úr þokunni, eins og oft gerist með mál sem stundum sjást á þessum borðum, heldur hefur verið hér um að ræða vandaða málafylgju. Við höfum fengið að fljóta með, aðrir þingmenn Alþb., við höfum skrifað upp á þetta mál með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni núna um langt árabil.

Það er rétt sem hann sagði áðan að á síðasta þingi urðu um þessi mál mjög miklar umræður. Það var þannig, ef ég man þetta rétt og reyndar var vitnað til þess áðan, að hv. þm. Björn Bjarnason tók til máls og talaði um að það væri nauðsynlegt að taka af skarið í þessu efni. Og jafnvel hv. þm. Páll Pétursson, sem hefur verið tregastur allra þingmanna og er þá langt til jafnað í þessu efni, ég held að það sé óhætt að segja að hann hafi staðið þessa vakt alveg prýðilega á undanförnum áratugum, sagði á síðasta þingi, ef ég man rétt, að hann teldi koma til greina að skoða málið vegna þess að Íslendingar væru orðnir aðilar að samtökunum um Evrópskt efnahagssvæði, en eins og kunnugt er telur hann það, hv. þm., stjórnarskrárbrot. Engu að síður telur hann ástæðu til að skoða málið með hliðsjón af stjórnarskránni. Og ég man eftir því að við tveir flm., undir forustu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, fögnuðum sinnaskiptum hv. þm. Páls Péturssonar í þessu máli og töldum að þar væri um mikla framför að ræða. Ég ætla ég ekki að orðlengja það frekar af því að hæstv. ráðherra er fjarverandi. En það væri auðvitað gaman að fara í þá sagnfræði hér, svona við tækifæri.

Á síðasta þingi gegndi ég því trúnaðarstarfi að vera formaður í hv. iðnn. og málið var lagt fyrir í upphafi þingsins. Ég tók það fyrir strax í nefndinni þann 20. október og ræddi það við hæstv. iðnrh., eins og eðlilegt er að formenn nefnda geri. Hann sagði að málið væri til skoðunar hjá sér og sínu fólki, það var þá hæstv. iðnrh. Sighvatur Björgvinsson. Ég tók málið síðan fyrir til sérstakrar meðferðar á fundi í iðnn. nokkru eftir áramót og þar sagði lögfræðingur úr ráðuneyti iðnaðarmála, Gunnar Viðar trúi ég að hann heiti, að í ráðuneytinu væri verið að tala um frv. um sama efni. Þetta virtist því vera allt saman heldur að þokast, sama efni og málin væru í raun og veru svo að segja komin. Þetta var 26. janúar 1994 að ég hygg.

Síðan gengum við eftir þessu trekk í trekk og að lokum kom í ljós að ráðuneytið gat ekki staðið við þessi fyrirheit og það var uppi pólitískur ágreiningur. Við spurðum hæstv. iðnrh. og líka hæstv. forsrh. hvað þeir segðu um þessi mál, hvernig þau stæðu að þeirra mati milli þáverandi stjórnarflokka. Hæstv. forsrh. sagði þá að flokkarnir hefðu sett tvo lögvísindamenn, það var orðið sem hann notaði, til að fjalla um þessi mál, einn frá hvorum flokki, einn lögvísindamann frá hvorum flokki. Nú vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. núv. iðnrh. að því hvort það hefur nokkuð til þeirra spurst, þessara lögvísindamanna eða álits þeirra. Það væri fróðleg að fá um það upplýsingar. Alla vega höfum við ekkert frétt af þessu máli. Síðan gerist það að það verður auðvitað aukaþrýstingur á það út af Evrópsku efnahagssvæði og aðild Íslands að því máli. Hv. þm. Hjörleifur Guttormssom dregur það alveg sérstaklega fram máli sínu til stuðnings að Íslendingar þurfi að hrista af sér óvissuna í þessu efni. Svo gerist það núna á þessu hausti að núverandi stjórnarflokkar ákveða enn einu sinni að setja í þetta nefnd eða einhverja menn til að skoða málið og það kemur fram í máli hæstv. iðnrh. að 17. október hafi stjórnarflokkarnir skipað tvo menn hvor til að fara í málið, undirbúa löggjöf og eins og það er orðað í bréfinu. Ég kann ekki að meta að í seinni tíð er oft talað um að undirbúa löggjöf í ráðuneytinu. Ég kannast ekki við að ráðuneytið setji lög. Ég veit ekki betur en ráðuneyti allra náðarsamlegast semji stundum frumvörp sem eru svo lögð fyrir Alþingi og svo verða þau að löggjöf. En ég kannast ekki við að kontórar uppi í Arnarhvoli afgreiði lög, ekki enn þá. A.m.k. er það að nafninu til þannig að við fáum enn að stimpla hérna, þótt þetta sé í örri þróun.

Sem sagt, málið er að 17. október er búið að setja niður nefnd manna til þess að skoða þessi mál og allt gott um það. Hverjir eru þá í þeirri nefnd? Skyldi þá vera kallað í þann þingmann sem veit um þessi mál betur en nokkrir aðrir? Nei, það er auðvitað ekki gert. Er þá kannski stuðst við þingmálin sem hann hefur verið að flytja aftur og aftur? Nei, það er ekki gert. Þau eru a.m.k. nefnd í bréfinu. En það er sagt að það eigi að styðjast við önnur mál eða einhverja pappíra sem liggja fyrir uppi í Stjórnarráði og allt gott um það. En ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ekki mikil reisn yfir því að geta ekki viðurkennt að forustumaður í þessu máli núna um langan tíma, þessu þarfa máli, er hv. 4. þm. Austurl. og enginn annar. En þegar kemur að því að negla saman vinnuhóp um málið, þá má ekki geta þess að það eigi svo mikið sem að styðjast við þá vinnu sem hann hefur lagt fyrir þessa virðulegu stofnun í því sambandi.

Ég tel engu að síður ástæðu til að þakka hæstv. iðnrh. fyrir að málið skuli þó vera komið þetta áleiðis. Ég geri ráð fyrir að það megi segja um okkur flm. að litlu verður Vöggur feginn. Við erum fegnir hverju jákvæðu hljóði sem heyrist ofan úr kastalanum við Arnarhól eða einhvers staðar af þeim slóðum. Ég tel að hæstv. núv. iðnrh. hafi sagt meira í þessu máli en nokkur annar iðnrh. Hann hefur lofað meiru. Þeir hafa alltaf lofað að þetta kæmi að hausti og svo að vori, en nú lofar hann bara nefndaráliti í málinu, fyrir jól, fyrir 15. desember. Ég fagna því að hann skuli vera þetta öflugur í þessu máli, hann tekur forverum sínum fram í loforðum. Efndirnar veit ég ekkert um fyrr en seinna í vetur væntanlega. Síðan segir hæstv. ráðherra að málið verði til umræðu væntanlega í vetur og hann gerir sér vonir um að þetta mál verði að lögum á þessu þingi og víst er það í áttina.

Af hverju liggur þá svona mikið á þessu máli? Hvað er hér á ferðinni? Það sem hér er á ferðinni, hæstv. forseti, er ósköp einfaldlega það að núna eru menn m.a. að fjalla um hvernig eigi að taka á virkjunarmálum, bæði að því er varðar jarðhita og orku fallvatna. Og það verður að segja eins og er að ef við ekki setjum lög í þessu efni í þessu landi sem eru tiltölulega skýr og afdráttarlaus, er hætt við því að við missum forræði þeirra í hendur útlendinga þannig að við ráðum ekki við það með eðlilegum hætti miðað við þær kröfur sem á að gera til þessarar stofnunar, ef hún ætlar að standa sig. Einnig hafa heyrst raddir um að menn séu með hugmyndir um að nýta þessa orku í verulega auknum mæli á komandi árum og þá er eins gott að reyna að ná lendingu í því máli. Staðreyndin er sú, hæstv. forseti, að þau mál sem hér er hreyft hafa strandað fyrst og fremst af einni ástæðu. Hún er sú að um þau hefur verið bullandi pólitískur ágreiningur. Sá ágreiningur hefur hins vegar ótrúlega lítið komið fram á sjónarsviðið núna í seinni tíð. Það er nokkuð merkilegt að hugsa um það hvernig á því stendur að menn hafa ekki dregið fram þennan ágreining um eignarhald á landinu. Hver á landið? ,,Hver á Ísland?`` sagði maður forðum. Hver á fallvötnin og hver á hitann niðri í jörðinni? Hv. 4. þm. Austurl. er að leggja það til að það verði ákvæði um það hver eigi hitann niðri í jörðinni. Hann vill taka af skarið um það og telur að hitinn niðri í jörðinni tilheyri ekki endilega þeim sem yfirleitt hefur verið talinn eiga hann.

[17:00]

Um þetta hefur verið mikill pólitískur ágreiningur og hv. þm. Alþb. hafa reyndar fjallað um þetta mál mjög lengi og flutt ekki aðeins þessi frumvörp því hv. þm. Ragnar Arnalds hefur áður lagt fram frumvörp eða a.m.k. þáltill. um almannaeign á landi. Ég hygg að það hafi verið frv. Sömuleiðis man ég ekki betur en þingmenn Alþb. hafi lagt fram tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem tóku á því hvernig á að fara með land eða réttindi af þessu tagi til almannanota og ég hygg að þessar setningar hafi birst í skýrslu stjórnarskrárnefndar sem þáv. hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen lagði fyrir þessa stofnun árið 1983 þannig að um þessi mál verið rætt og um þau hefur verið deilt.

Það segir sína sögu að það skuli taka allan þennan tíma að ná lendingu í þessu máli ef það tekst þá núna í vetur. Einhver ótrúleg afturhaldslögmál virðast stundum ráða í þessu þjóðfélagi og þau eru neðan jarðar eins og jarðhitinn, þau sjást ekki svo glatt. Og þeir sem tala fyrir þessum afturhaldssjónarmiðum láta helst ekki kræla mjög mikið á sér. Þeir eru ofan í jörðinni líkt og hitinn eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti. Þessum dularfullu neðanjarðaröflum hefur tekist að hanga á þessum málum núna í áratugi þó það hafi legið fyrir hjá öllum landsmönnum sem um þessi mál fjalla, t.d. virkjunaraðilum að núverandi óvissa og ástand í þessum efnum væri algerlega óþolandi. Og ég hygg að það hafi einnig legið fyrir hjá öllum hæstv. iðnaðarráðherrum, sama í hvaða flokki þeir hafa verið, að þeir hafi talið ástandið í þessum efnum algerlega óþolandi. Ég verð að segja eins og er að þó að hæstv. iðnrh. komi saman máli sem að standi fulltrúar stjórnarflokkanna sem hér eiga hlut að máli, á ég eftir að sjá að stjórnarþingmennirnir láti þetta yfir sig ganga. En vonandi verður það. Það eru þá kaflaskil í viðhorfum í þessum flokkum. Það hefur ekki verið mikill áhugi á þeim málum.

Það er líka nokkurt umhugsunarefni, hæstv. forseti, að þessi grundvallaratriði sem hér er hreyft og eru í raun og veru ein af undirstöðum félagslegra sjónarmiða hér á landi skuli ekki hafa verið tekin upp á borðið í umræðum um samstarf félagshyggjuflokka og vinstri flokka. Ég veit ekki um betri samnefnara í þeim efnum heldur en mál af þessum toga. En af einhverjum undarlegum ástæðum hafa menn ekki áttað sig á því og þess vegna hafa þau ekki fengið þá meðferð og umfjöllun sem þau eiga skilið og okkur er skylt að sýna þeim.

Ég á sæti í hv. iðnn. Alþingis, hæstv. forseti, og mun þar beita áhrifum mínum eins og ég get til þess að reyna að knýja á um að málið verði tekið til efnislegrar meðferðar á yfirstandandi þingi. Um leið þakka ég hæstv. iðnrh. fyrir yfirlýsinguna og vona að hann nái betur að koma henni framkvæmd en fyrirrennarar hans, svo ég segi ekki meira.