Orka fallvatna

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 17:04:55 (1305)

1995-11-27 17:04:55# 120. lþ. 41.6 fundur 11. mál: #A orka fallvatna# frv., 12. mál: #A jarðhitaréttindi# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[17:04]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég að hv. þm. Svavar Gestsson er ekki vísvitandi að reyna að fara rangt með það sem ég sagði úr þessum ræðustól áðan. Ég sagði að það væri von mín og ósk að vinnuhópurinn sem er að vinna að málinu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar skilaði af sér fyrir 15. desember. Ég sagði hins vegar um leið að ég treysti mér ekki til þess að fullyrða hvort okkur tækist á þessu þingi að ljúka málinu. Því er það rangt að hafa það eftir að ég hafi lofað að þetta frv., sem við skulum vona að hægt verði að leggja fram um þessi mikilvægu mál, verði samþykkt á yfirstandandi þingi. Ég teldi það vera mikilvægt ef það tækist en geri mér hins vegar grein fyrir því, eins og hv. þm. fór ágætlega yfir áðan að um þetta mál verða örugglega miklar pólitískar deilur. Það er dálítið merkilegt og ég tek undir það með hv. þm. að pólitíkin, stjórnmálaumræðan skuli ekki snúast miklu meira um þessi grundvallarmál því hér er um grundvallarmál að ræða að því leyti til að stjórnmálaflokkunum getur sýnst og á að sýnast sitt hvað um það hvert sé eignarhaldið á þessum grundvallarauðlindum landsins.

En ég ítreka það að ég teldi mikilvægt að þessi mál gætu komist til umræðu á Alþingi og fengju farsæla afgreiðslu, því fyrr því betra því það er mikilvægt að óvissunni sem um þetta er verði eytt.