Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 17:48:14 (1312)

1995-11-27 17:48:14# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[17:48]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði í fyrsta lagi: Ríkisstjórninni er ekki treystandi og fyrir því er áratuga reynsla. Í öðru lagi er þinginu heldur ekki treystandi og fyrir því er áratuga reynsla. Hverjum er þá treystandi? Það er stjórnlagaþing, það er samnefnari þeirra hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Jóns Baldvins Hannibalssonar. Hvað með stjórnlagaþing? Stjórnlagaþing verður ekki kallað saman öðruvísi en að Alþingi samþykki stjórnarskrárbreytingu til þess. Það þurfa þess vegna að fara fram tvennar kosningar. Fyrst um stjórnarskrárbreytinguna og svo um staðfestingu á stjórnarskrárbreytingunni til Alþingis, síðan fer fram kosning til stjórnlagaþingsins og svo kosningar á grundvelli niðurstöðu stjórnlagaþingsins. Hér eru menn að tala um fernar alþingiskosningar og það er allt of viðamikið mál að mínu mati. Út af fyrir sig útiloka ég ekkert í þessu sambandi en ég tel að stjórnlagaþing sé ekki sá töfralykill sem menn hafa viljað vera láta. Ég held að menn neyðist til þess að fara þá leið að kanna hvort að hægt sé að ná samstöðu um málin í þessari stofnun. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að málið liggi núna þannig að þörf sé á breytingu, það sé samstöðuvilji á Alþingi til að breyta stjórnarskránni og kosningalögum og þá eigi að undirbúa málið núna og byrja á því að kanna hvort þeir sem segja fyrir flokkum vilji reyna að ná einhverri samstöðu í málinu.