Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:15:52 (1322)

1995-11-27 18:15:52# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:15]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér hefur farið fram gagnleg umræða um lýðræði og fleiri mál því tengt og ég vil þakka flm. fyrir frumkvæðið að þessu máli.

Herra forseti. Eitt sinn var það svo að kóngur réð öllu og hafði einn manna atkvæði og það þótti honum ljúft. Síðan komu aðalsmenn og fengu sömuleiðis atkvæði og það kostaði átök. Síðan var mikil barátta í frammi höfð og eignamenn fengu atkvæðisrétt. Það kostaði líka átök. Löngu seinna fengu konur atkvæðisrétt og nú eru sem sagt allir komnir með atkvæðisrétt nema börn. Ég held að það standi ekki til að þau fái atkvæðisrétt.

Hér á landi hefur það gerst svona sögulega séð að fjöll og dalir hafa atkvæðisrétt og það finnst mér ekki nógu sniðugt. Þessar breytingar sem hér eru lagðar til, kosta átök. Þær kosta átök við þá sem hafa forréttindin. Því skulum við gera okkur grein fyrir og það er eðlilegt. Rökin sem menn hafa fært, herra forseti, eru þau að það sé mismunun á landbyggðarfólki og fólki sem býr í Reykjavík eða á Reykjavíkursvæðinu. Hér í Reykjavík eru allar stofnanir ríkisins eða flestar. Menntunina er að fá í Reykjavík. Skemmtunina er að fá í Reykjavík. Meira að segja hefur guð almáttugur verið svo örlátur að hann hefur látið okkur fá ódýra hitaveitu líka. Það er því margt sem mælir með því að jafna þennan aðstöðumun. En almáttugur, ef við ætlum að fara þá leið að jafna aðstöðumuninn með atkvæðisrétti, þá skyldum við líka huga að því að margir eru fatlaðir og aðrir fátækir og eiga þeir að fá meiri atkvæðisrétt heldur en hinir? Með sömu rökum ættu þeir að gera það. Mér finnst, herra forseti, ekki hægt að breyta út frá því að einn maður eigi að hafa eitt atkvæði nema ef vera skyldi vegna vanþekkingar eða vanþroska. Eða þá börn, ég er ekki á því að börn eigi að fá atkvæðisrétt. En hver fulltíða maður á að hafa eitt atkvæði, þar kemur ekkert annað til greina.

Afleiðingar af því sem við sjáum í dag, þessu mismunandi atkvæðamagni, er kjördæmapot. Það er verið að pota, það er verið að kaupa atkvæði fyrir fjárfestingar sem eru þjóðhagslega rangar og þjóðhagslega óhagkvæmar. Þær eru hættulegar fyrir þjóðarhag og það er því mjög brýnt að við tökum á þessu vandamáli.

Herra forseti. Við erum að ræða hér um óréttlæti og misrétti sem ekki má viðgangast mikið lengur. Við verðum að horfast í augu við að mannréttindi byggjast á þessu: Einn maður eitt atkvæði.