Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:31:53 (1325)

1995-11-27 18:31:53# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., VS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:31]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð inn í þessa umræðu sem hér fer fram um þáltill. frá hv. þm. Viktori B. Kjartanssyni.

Hér hafa fyrst og fremst talað hv. þm. Reykjavíkur og Reykjaness og hafa verið býsna sammála eftir því sem mér hefur heyrst um það að hér sé um mjög mikið mannréttindamál að ræða. Nú kem ég frá Norðurl. e. þar sem hlutirnir eru í nokkuð góðu jafnvægi ef við lítum á heildina en ég skal ekki fara í neina launkofa með það og ég get þá bara verið vonda kerlingin í umræðunni að ég styð það ekki að hlutum verði þannig fyrir komið að t.d. Vestfirðir fái tvo þingmenn og Reykjavík 26. Ég held að það sé eitthvað í þeim dúr sem þetta kæmi til með að líta út ef það yrði jafnt vægi á bak við alla þingmenn. Það finnst mér bara ekki rétt og ég vil ekki vera að leyna því. Þetta er ekki í samræmi við lífsskoðanir mínar. Nú þykir mér óskaplega vænt um höfuðborgina mína og hér dveljumst við þingmenn landsbyggðarinnar meiri hluta ársins en þetta er þó skoðun mín og hún á kannski eftir að breytast. Ég hlýt að hafa rétt til þess að skipta um skoðun eins og aðrir en á þessari stundu tel ég ekki rétt að ganga svona langt. Hins vegar er eins og hér hefur komið fram í stjórnarsáttmála ákvæði þess efnis að á þessu kjörtímabili verði atkvæðisrétturinn jafnaður. Það er ekki talað um að gera það að fullu og það er full alvara á bak við þetta ákvæði. Það er vilji fyrir því í ríkisstjórninni, það veit ég, að taka á þessum málum og ég hef enga trú á öðru en að það verði gert. Þess vegna leyfi ég mér að segja við hv. þm. sem flytur tillöguna að mér finnst hún eiginlega vera óþörf og þá get ég vitnað til þess að þegar ég var tiltölulega nýkomin inn á Alþingi og við tvær framsóknarkonur fluttum þáltill. um að auka atvinnu kvenna á landsbyggðinni, höfðum ekki skoðað stjórnarsáttmálann alveg nægilega vel sem þá ríkti og var í gildi en þetta ákvæði kom nákvæmlega fyrir í þeim stjórnarsáttmála. Þá kom hv. þm. þáv. formaður þingflokks Alþfl. í ræðustól, Eiður Guðnason, og gerði heldur lítið úr okkur að hafa verið að flytja þarna tillögur um mál sem kveðið væri á um í stjórnarsáttmála og stjórnin ætlaði sér að taka á. En þetta rifjast upp fyrir mér núna. (Gripið fram í: Gerði hún það?) Það er hins vegar annað mál hvort hún gerði það og tillaga okkar framsóknarkvenna var því miður ekki til þess að þarna væri tekið virkilega á málum.

Það hefur verið talað um það að Ísland ætti að vera eitt kjördæmi, um kosti þess og galla, og reyndar var á síðasta kjörtímabili flutt þáltill. af tveimur hv. þm. Framsfl. um að kostir og gallar þess væru skoðaðir. Það er ekkert á móti því að það sé gert en þó hallast ég frekar að hinu að við höldum áfram með að skipta landinu upp í kjördæmi og hugsanlega mætti stækka þau, ég ætla ekki að fullyrða neitt um það.

Nú er það þannig í Framsfl. að það er sérstaklega mikið jafnrétti hvað það snertir að tveir þingmenn eru frá öllum kjördæmum í þingflokki okkar nema Vestfjörðum. Það er kannski ekki hægt að tala um það sem jafnrétti á alla vegu en þegar hv. þm. Svavar Gestsson nefndi það áðan í framhaldi af máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að verið væri að kjósa einhverja inn á þing sem menn ætluðu sér alls ekki að kjósa getur það alla vega ekki átt við um Framsfl. þar sem við höfum ekki átt mjög mikla möguleika á því að fá uppbótarþingmenn. Reyndar var það mjög nærri lagi í síðustu kosningum að svo yrði.

Hæstv. forseti. Ég kom fyrst og fremst upp til þess að segja skoðun mína á þessu. Ég tel að við eigum að stíga þarna ákveðið skref og ég hef mikla trú á að það verði gert á þessu kjörtímabili en ég tel ekki rétt á þessu stigi málsins að stíga það til fulls. Af því að mannréttindi hafa verið mikið nefnd þá get ég líka sagt frá því og sérstaklega þegar hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson er í þingsalnum að ég hef ekki farið nema eina ferð til Brussel og þá fór ég með hópi úr Norðurlandaráði og við hittum þar forstjóra mannréttindaskrifstofu Evrópusambandsins. Ég spurði hann að því hvort það væri hægt að tala um það sem skerðingu á mannréttindum að það fyrirkomulag ríkti hér á landi að ekki sé jafnt vægi á bak við alla þingmenn. Hann hugsaði sig um smástund og sagði síðan að hann teldi svo ekki vera. Ég gerði nokkuð mikið með orð þessa háttsetta manns innan Evrópusambandsins.