Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:45:42 (1330)

1995-11-27 18:45:42# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., Flm. VK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:45]

Flm. (Viktor B. Kjartansson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er það stefna Sjálfstfl. að atkvæðavægi skuli vera algjörlega jafnt. Það kom greinilega fram á síðasta landsfundi flokksins þar sem samþykkt var ályktun um það efni og ég get vitnað til hennar ef menn óska eftir því. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir spyr hvort ég hafi ekki stutt stjórnarsáttmálann. Vissulega geri ég það. Ég styð þessa ríkisstjórn og styð ríkisstjórnarsáttmálann en ég tel að í þessu máli hafi menn ekki gengið nógu langt. Og ég tel ástæðu til að brýna fyrir þinginu að ganga enn lengra en þar er lagt til og óska eftir stuðningi við það. Mér heyrist að það muni vera stuðningur við að ganga lengra. Fyrst menn hafa nefnt hér að ekki væri ástæða til að treysta ríkisstjórninni fyrir því að vinna að þessu máli, þá held ég að það sé eðlilegt að fela ríkisstjórninni að koma með tillögur vegna þess að hún hefur vissulega þingmeirihluta á bak við sig. Og ef ríkisstjórnin á að ná fram einhverjum málum en nær ekki fram slíkum grundvallarmálum eins og jöfnun atkvæðisréttar, þá held ég að menn séu komnir í vandræði með það ríkisstjórnarsamstarf.