Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:47:47 (1332)

1995-11-27 18:47:47# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:47]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil víkja í nokkrum orðum að því fámenni sem nefnt var og sömuleiðis því að þingmenn þurfi að þekkja svo vel til í kjördæmi sínu. Við kvörtum oft undan fámenninu, Íslendingar, en að sjálfsögðu eigum við líka að nýta okkur kosti þess. Ísland er heldur alls ekki stórt land og það eru engin tæknileg rök sem mæla gegn því að það geti verið eitt kjördæmi. Að sjálfsögðu munu þingmenn gæta hagsmuna kjósenda sinna. Að sjálfsögðu töluðu menn ekki fyrir Vestfirði af því þeir þekkja kerfið. Það var vitað að Vestfjarðaþingmenn mundu sjálfir gera það og aðrir voru ekki að blanda sér í það. Þessu mundi að sjálfsögðu vera öðruvísi farið ef landið væri eitt kjördæmi. Við getum tekið samsvarandi dæmi eins og hv. þm. Pétur Blöndal gat um áðan. Við getum fundið ýmiss konar hópa sem eiga örðugt uppdráttar. Við getum sagt að við finnum þá ekki í Reykjavík og enginn gæti hagsmuna þeirra. Þetta er fyllilega sambærilegt og við eigum ekki að setja landsbyggðina í það ölmusuhlutverk að við þurfum að versla með grundvallaratriði lýðræðisins hvað þetta varðar.

Ég tel að við eigum að nýta okkur þetta, rífa okkur upp úr kjördæmaskipuninni og þeirri íhaldssömu mynd sem við höfum af kosningalöggjöfinni. Okkur veitir ekki af því að hefjast handa strax. Við finnum að sjónarmiðin eru mörg og ég hvet eindregið til þess að ríkisstjórn og Alþingi taki undir þau meginsjónarmið sem komu hér fram hjá hv. flm. þessarar þáltill.