Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 14:07:43 (1343)

1995-11-28 14:07:43# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[14:07]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Samningsmarkmiðið er fyrst og fremst að tryggja viðhald norræna vegabréfafrelsisins með því að útfæra það til Schengen-svæðisins. Það er alveg ljóst að þetta samstarf tekur til eftirlits með persónum en ekki með varningi. Hafi ég ekki talað nógu skýrt í ræðu minni áðan, þá skal ég reyna að bæta úr því með því að segja að með aðild að þessu samstarfi eru okkur engar takmarkanir settar við að hafa eðlilegt eftirlit með varningi fólks sem kemur til landsins.

Hér er um að ræða persónueftirlit en ekki eftirlit með varningi og við getum haldið gildandi lögum um tolla og álög á innflutning eins og okkur sýnst, burt séð frá þessu. Hins vegar er alveg augljóst að samstarf af þessu tagi getur auðveldað okkur mjög baráttuna gegn fíkniefnabrotum vegna þess að það er mjög veigamikill þáttur í þessu samstarfi að þjóðirnar stilla saman strengi sína og sameina krafta sína í þeirri baráttu. Ég er því sannfærður um að með aðild að samkomulaginu á aðstaða okkar til þess að berjast gegn afbrotum af þessu tagi að styrkjast.