Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 14:11:08 (1346)

1995-11-28 14:11:08# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), HG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[14:11]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Sú skýrsla sem hæstv. dómsmrh. hefur flutt er góðra gjalda verð. Það er verið að bregðast þó seint sé, má segja, við þörfinni á að umræður um þessi mál verði á Alþingi Íslendinga. Ég nefndi það við forseta þingsins fyrir fáum vikum að það væri æskilegt að fá umræður um þessi efni og það varð niðurstaðan að eðlilegt væri að hæstv. dómsmrh. flytti skýrslu um málið sem grunn fyrir slíka umræðu. Ég tel að það sé gott og alveg nauðsynlegt að þessi mál séu rædd áður en þau eru lengra komin.

Það efni sem hér er til umræðu á sér langan aðdraganda og er býsna flókið mál fyrir þá sem ekki hafa sökkt sér niður í það, geri ég ráð fyrir. Upplýsingar um þetta efni hafa ekki legið á lausu eða verið mikið gert af því af hálfu íslenskra stjórnvalda að reiða þær fram. Ég hef á vettvangi Norðurlandaráðs á undanförnum árum, m.a á þingunum 1994, 44. þingi ráðsins, og tveimur þingum síðar eða í febrúar 1995, lagt fram spurningar til ráðherraráðsins norræna um þetta efni og áhrif þeirrar þróunar sem í gangi hefur verið innan Evrópusambandsins í sambandi við þessi efni og síðan alveg sérstaklega í sambandi við Schengen-málefnin. Það hefur verið dómsmálaráðherra Dana, ef ég man rétt, sem svaraði í bæði skiptin, enda málinu sérstaklega beint til dönsku ríkisstjórnarinnar, auk almennrar skírskotunar til norrænu dómsmálaráðherranna, vegna aðstöðu Dana sem gæta landtengdu landamæranna við Evrópusambandið gagnvart Norðurlöndum, þ.e. á Jótlandi. Og það er þar sem menn hafa fyrst fengið að finna fyrir hvað í vændum væri ef Schengen-samstarfið yrði útfært. Síðan hefur margt verið að gerast í þessum efnum, m.a. aðild fleiri ríkja norrænna að Evrópusambandinu og þá komið auðvitað upp nýr þáttur í málinu, ný aðstaða í málinu, þegar þrjú ríki Norðurlanda eru orðinn formlegur aðili og landamæri t.d. Svíþjóðar og Noregs eru orðin landamæri milli tollabandalags Evrópusambandsins annars vegar og hins vegar Norðurlanda utan þess.

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að nefna það í þessari umræðu að þetta er ekkert sjálfsagt mál sem slíkt, síst af öllu fyrir okkur Íslendinga sem stóðu frammi fyrir spurningunni í umræðunni um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma, hvort aðild að því fæli í sér að hefðbundin samvinna Norðurlanda breyttist. Meðal hefðbundinnar samvinnu Norðurlanda er að sjálfsögðu norræni vegabréfasamningurinn og samstarfið frá 6. áratugnum, sem menn þekkja. Og kannski hefur það verið hvað táknrænast fyrir það hversu langt Norðurlöndin hafa náð í sínu samstarfi. Í samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði var byggð inn sérstök grein, kölluð norræna greinin, sem tók þetta skýrt fram og því var mjög á lofti haldið af talsmönnum samningsins að þessi hefðbundna samvinna fengi að haldast á meðan hún ekki rækist á önnur ákvæði samningsins.

[14:15]

Eins og meðferð mála í Evrópusambandinu hefur verið að því er varðar landamæraeftirlit, vegabréfaskoðun og þá hluti, þá hefur ekki verið þörf á því að breyta þessu vegna þeirrar útfærslu innan Evrópusambandsins þó svo ljóst hafi verið að með innri markaðnum sé stefnt að því að leggja niður landamæri innan ríkjanna en slíkt er ekki komið í gagnið. Það sem hefur verið að gerast þarna og hæstv. ráðherra dró vissulega fram í máli sínu er að ákveðinn kjarni Evrópusambandsríkja tekur sig til fyrst 1985, síðan með yfirlýsingu og síðan með þessum Schengen-sáttmála 1990 sem gengur í gildi í mars sl. en fellur úr gildi í svipinn, nánast þá þegar vegna þess að Frakkland beitir bráðabirgðaákvæði sem heimilar að mig minnir í sex mánuði að undanþiggja sig vegna öryggis ríkisins þeim reglum og sá tími er ekki liðinn að því er Frakkland varðar. Þessi kjarni sem er nú orðinn 10 ríki af Evrópusambandsríkjunum er búinn að undirgangast það að beita ákvæðum Schengen-samkomulagsins og þar erum við með alveg nýjan þátt í málinu. Það kemur auðvitað algerlega aftan að Íslendingum sem hafa fyrir skömmu fengið aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði að þessi staða er komin upp. Hæstv. dómsmrh. sagði að Norðurlöndunum hefði strax verið það ljóst en hæstv. ráðherra sagði ekki hvenær þeim varð það ljóst. Ég held að það sé ekki mjög langt síðan þeim varð það ljóst hver staðan yrði. Það lá auðvitað strax fyrir gagnvart Danmörku að hún gæti komið upp en síðan tekur hún breytingum með því að það fjölgar um tvö ríki sem verða aðilar að Evrópusambandinu og hafa nú ásamt Dönum óskað eftir að verða áheyrnaraðilar að Schengen-samkomulaginu með það fyrir augum að gerast fullnaðaraðilar því að ekki er til neitt sem heitir áheyrnaraðild að Schengen-samstarfinu. Menn geta stigið skrefið áleiðis en með það að markmiði að verða fullgildir aðilar að samstarfinu.

Staðan sem er uppi ógnar norræna vegabréfasamstarfinu og nú erum við Íslendingar í þeirri stöðu vegna áhuga þriggja Norðurlanda að gerast aðili að þessu Schengen-samkomulagi að verða að taka inn á okkur alveg ný svið í sambandi við samskipti okkar við Vestur-Evrópuríki, þ.e. þessi Schengen-lönd. Málið snýst ekki aðeins um spurninguna um það hvort menn sýni vegabréf á ferðum milli landa heldur eru fjölmargir þættir aðrir sem því tengjast sem hæstv. dómsmrh. kom að í skýrslu sinni þó að það væri ekki tæmandi.

Menn þurfa auðvitað m.a. að skoða þennan Schengen-samning upp á ekki færri en 142 greinar til að ganga úr skugga um það að hér hangir býsna margt á spýtunni. Það er með ólíkindum að nefna það að mál af þessu toga verði gert upp af Íslands hálfu fyrir jól ef ég hef tekið rétt eftir. Ég held að hæstv. ráðherra hafi nefnt að málið þyrfti að liggja fyrir einhvern fund 18. des. en var svo framsýnn, að segja að það væri ekki alveg víst að þetta gengi eftir því að ég held að í máli af þessari stærð verði Alþingi Íslendinga að gæta sín, að fara vel yfir efnið áður en stórar slíkar ákvarðanir eru nefndar. Það vill svo til að Belgía er formennskuland eins og stendur í Evrópusambandinu en sér jafnframt um Schengen-sáttmálann. Það eru einu tengslin þar á milli. Þegar ég spurði á fundi með forsætisráðherrum Norðurlanda á dögunum úti í Kuopio hvaða hraði væri á þessu máli voru svörin þau: Helst vildum við ná landi á meðan Belgía er formennskuland. Ég spyr hæstv. dómsmrh. að því hvað tengist Belgíu sérstaklega að þessu leyti.

Ingvar Carlsson, forsætisráðherra Svíþjóðar, svaraði spurningu minni á þá leið að segja að helst vilji menn að þetta sé allt klappað og klárt og gengið frá þessu endanlega áður en ríkjaráðstefnan hefst. Í ljósi þeirra viðvarana sem hafa komið fram, m.a. frá hæstv. forsrh. nú alveg nýlega varðandi tengslin við Evrópusambandið, held ég að þar þyrftu menn að fara að með mikilli gát og yfirvegun. Menn ættu ekki að flýta sér að taka bindandi ákvarðanir um hlutina á næstunni, m.a. vegna ríkjaráðstefnunnar sem er fram undan og sem mun auðvitað skýra hvert horfir og hvert stefnir í sambandi við Evrópusambandið og það samstarf. Þess vegna held ég að menn eigi ekki að flýta sér um of í þessu máli heldur gæta sín vel áður en ákvarðanir eru teknar.

Ég fagna því að í orðum hæstv. dómsmrh. er allt annar tónn en var í máli Grete Knudsen, norska ráðherrans sem mælti fyrir málum í norska þinginu viku af nóvembermánuði, og var mjög eindregið þeirrar skoðunar að við ættum að fara þarna inn. Þetta væri eini möguleikinn til að bjarga okkur, þessi biðröð þeirra milljóna sem fara um veginn um Svinesund á landamærum Noregs og Svíþjóðar, 6 millj. á ári. Auðvitað er staða þeirra allt önnur en okkar að þessu leyti vegna hinna löngu landamæra þarna á milli. Hún er það vissulega. En hitt hangir jafnframt á spýtunni að þar greinir á með íslenskum og norskum stjórnvöldum, þau vilja komast eins langt og mögulegt er inn í kerfi Evrópusambandsins. Það var meginmarkmið norsku ríkisstjórnarinnar að þetta gengi upp, það var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eftir á vilja þau hefna harma sinna svo mögulega sem þau geta með því að tengjast sem allra nánast Evrópusambandinu. En það er ólíku saman að jafna með okkur Íslendinga eins og menn tala núna þessi missirin.

Virðulegi forseti. Margir þættir snúa að þessu. Auðvitað er út af fyrir sig æskilegt markmið að geta viðhaldið þokkalegu ferðafrelsi milli landa og sérstaklega er okkur mikilvægt vegabréfasamstarf Norðurlanda af táknrænum ástæðum og auðvitað í reynd líka. Ég get vel hugsað mér að það sé eftirsóknarvert að geta útfært það frekar ef það kostar menn ekki of mikið á öðrum sviðum. Það verða menn að vega og meta hversu langt er gengið.

Varðandi spurninguna um vöruflutninginn í þessu samhengi er auðvitað ljóst að við erum ekki að stíga neitt skref inn í tollabandalag með þessu, ekki með beinum hætti. Hins vegar getur verið þar ýmislegt á leiðinni sem gerir mun erfiðara fyrir. Hv. þm. Ragnar Arnalds ræddi áðan að mun erfiðara sé að fylgjast með ferðamönnum og varningi ferðamanna þegar ekki er heimilt að hafa vegabréfaeftirlit og ekki er einu sinni heimilt að taka prufu eins og er þó í norræna vegabréfasamstarfinu. Þar mega menn taka prufur. Þetta er óheimilt. Allir þeir sem ég hef heyrt í sem hafa áhyggjur af fíkniefnamálum hafa miklar áhyggjur út af Schengen-reglunum vegna þessa, vegna dreifingar fíkniefnanna, vegna þess að erfiðara er að fylgjast með fólki. Ekki er einu sinni hægt að taka þarna stikkprufur af ferðamönnum í sambandi við vegabréfaskoðunina.

Síðan kemur SIS-kerfið, þ.e. Schengen Information System, sem hefur aðsetur sitt í Strassborg þar sem eru skráðar upplýsingar og það var mjög fróðlegur lestur hjá hæstv. dómsmrh. hvað væri gert, hvað mætti skrá og hvað væri verið að leita eftir í sambandi við þetta upplýsingakerfi. Ég vil endilega hvetja hæstv. ráðherra til þess að fara vel ofan í þessa sauma og láta þá aðila sem fylgjast með tölvuskráningu og réttindum almennings í því sambandi að fara yfir þetta efni. Inn í þetta kerfi í Strassborg eru komnar um það bil tvær millj. færslna nú þegar. Í þessu kerfi í Strassborg störfuðu fyrir fáum mánuðum 27 manns í fimm einingum að söfnun upplýsinga. Megnið af upplýsingasöfnuninni er komið frá Þýskalandi eða vegna kröfu Þjóðverja og afgangurinn að heita má frá Frökkum. Það eru þessi tvö möndulveldi þarna, fyrirgefið að ég nota þetta, þessi samstarfsríki. Ég ætla ekki að hafa neina frekari merkingu í því. Þessi öxull í Evrópusambandinu stendur fyrir upplýsingasöfnuninni, í reynd eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið um skráningu í þessu kerfi.

Þá er spurning um lögreglusamstarf og annað af þeim toga. Það er um að ræða vegabréfaeftirlit, frelsi frá vegabréfaskoðun, það er gott markmið sem slíkt. En við erum að ræða spurninguna um það hvort við ætlum að flytja verulega þætti varðandi réttarfar, varðandi mál sem eru á sviði innanríkismála núna og tengjast því sem kölluð er þriðja súla innan Evrópusambandsins. Ætlum við að taka inn á okkur mál sem er þannig vaxið að það getur verið breytingum háð hvenær sem er og að setja okkur undir ákvarðanavald Schengen sem hefur sitt framkvæmdarvald og tekur sínar ákvarðanir, ákvarðanavald sem ég fæ ekki séð að við fáum að vera þátttakendur í vegna þess að Schengen-samningurinn gerir það að skilyrði að menn séu aðilar að Evrópusambandinu til að vera þar fullgildir þátttakendur með þátttöku í ákvarðanatöku og þess háttar?

Virðulegi forseti. Þetta mál er víðtækt og verður ekki rætt í botn á 15 mínútum. Við skulum skoða þetta mál af gaumgæfni áður en ákvarðanir eru teknar. Við skulum ekki láta reka á eftir okkur í þessu. Hagsmunir Íslendinga í þessu máli eru verulega aðrir en t.d. Norðmanna svo að dæmi sé tekið þó að við viljum auðvitað halda sem mestu úr því sem hefur verið gott í norrænu samstarfi og því sem við höfum náð á þeim vettvangi og tryggja það. Málið er orðið flókið eftir það sem gerst hefur á undanförnum missirum eftir þátttöku Norðurlanda í Evrópusambandinu, Svíþjóðar og Finnlands til viðbótar við Dani.