Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 14:33:54 (1348)

1995-11-28 14:33:54# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[14:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að þetta mál skuli vera komið á dagskrá og til umræðu á þingi og ég held að ég hljóti að leyfa mér að segja, þó fyrr hefði verið, því það er auðvitað búið að vera til umfjöllunar og mikillar umræðu víða í kringum okkur, bæði á þjóðþingum hinna Norðurlandanna, á vettvangi Norðurlandaráðs og víðar. En nú fara í raun og veru fram fyrstu umtalsverðu umræðurnar um þetta hér og það hljómar óneitanlega harla sérkennilega að heyra í greinargerð hæstv. ráðherra jafnvel látið að því liggja að innan fárra vikna verði meira og minna endanlegar ákvarðanir teknar af Íslands hálfu í málinu. Ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt að til þess gefist meiri tími að skoða þetta mál.

Ég minni á að þegar samningurinn var gerður um Evrópska efnahagssvæðið og aðild okkar að því var einmitt sérstaklega haldið til haga og flaggað þeim kostum að þetta hefði ekki á neinn hátt áhrif á norrænt samstarf og sérstök grein sett inn af hálfu Norðurlandanna til að tryggja það. Þar með talið, og auðvitað ekki síst, voru Norðurlöndin að hugsa um sitt nána samstarf á sviði tryggingamála, vegabréfasambandið og fleira því um líkt þar sem Norðurlöndin hafa að mörgu leyti verið í fararbroddi og á undan öðrum ríkjum sem hópur að semja um gagnkvæm réttindi þegnanna. Ég held að það sé jafnframt þannig að almennt ríki jákvæð viðhorf gagnvart því að ferðamenn geti sem allra greiðast ferðast milli landa og þurfi ekki að sæta miklu eftirliti eða sækja um heimildir o.s.frv. Ég leyfi mér því að fullyrða að menn væru almennt velviljaðir í þeim efnum að vegabréfasamband af einhverju tagi, sambærilegt við það sem ríkt hefur innan Norðurlandanna, kæmist á um alla Evrópu.

Það er eitt og landamæraeftirlit sem slíkt er svo annað. Því eru menn kannski í nokkrum mæli að rugla saman í þessu máli að Schengen-samkomulagið og hugsanleg aðild okkar að því er auðvitað allt annað og meira heldur en aðildin að norræna vegabréfasambandinu var. Fyrst og fremst fól það í sér að menn væru ekki skyldir til þess að framvísa vegabréfi þótt landamæraeftirlit færi eftir sem áður fram milli Norðurlandanna. Ég held að það sé einnig nauðsynlegt að hæstv. ráðherra útskýri betur eða menn átti sig betur á því áður en það er keypt að málið liggi einfaldlega þannig að verið sé að fella niður persónueftirlit, en eftir sem áður sé hægt að hafa fullt eftirlit með þeim varningi sem viðkomandi persónur hafa með sér. Ég fæ ekki alveg séð hvernig það fer auðveldlega saman, þótt fræðilega séð liggi það þannig. Ég rengi ekki að hæstv. ráðherra greinir þar rétt í sundur, við erum hvorki aðilar að Evrópusambandinu né tollabandalagi og ættum því ekki að afsala okkur rétti til að hafa tollalandamæri gagnvart ferðamönnum. Þá hlýtur að liggja í hlutarins eðli að það verður nokkuð snúið að koma við eftirliti með varningi ferðamanna þegar landamæraeftirlit gagnvart þeim sjálfum verður fellt niður en út á það gengur Schengen-samkomulagið ekki síst.

Það koma líka upp ýmsar tæknilegar og pólitískar spurningar sem nauðsynlegt er að fara yfir og ég held að menn verði að taka sér meiri tíma í að ræða heldur en gefist hefur hér. Hvað kostnað snertir hlýtur auðvitað að þurfa að fara mjög vandlega yfir það hvað í því fælist fyrir okkur Íslendinga að taka á okkur þá kvöð að verða ytri landamæri Evrópusambandsins í þessu sambandi og útvörður þess í vestri, eða Schengen-svæðisins. Ég held að það gæti snúist um stærri hluti en bara þá að flugstöðin blessuð í Keflavík, og enn einu sinni kemur hún til tals hér, er þá heldur álappalega hönnuð svo að ekki sé meira sagt. Ég vænti þess að það gangi jafnilla að aðgreina transit-umferð og innansvæðisumferð þar eins og til að mynda það hefur reynst að aðskilja umferð vegna innanlandsflugs og millilandaflugs í Keflavík. Á það hefur reynt og gengið satt best að segja afar illa að sjá fram úr því hvernig þessi bygging gæti yfirleitt boðið upp á slíkt.

Ég leyfi mér að lýsa áhyggjum yfir því að verulegur hluti af rekstri Flugleiða geti lent í vandræðum út af þessu máli ef við tökum þessar kvaðir á okkur. Flugleiðir byggja í umtalsverðum mæli á flutningi þriðju landa farþega sem fara í gegn og sá rekstur er þannig upp byggður að Keflavík er tengistöð þessa flugs. Þar er mikið annríki aðallega tvisvar á sólarhring, en þá ríður líka á að sú umferð geti á mjög skömmum tíma greinst og farþegarnir farið hver í sína áttina, skipt um flugvél o.s.frv. Og ég er hræddur um að það verði að vera allmikil afköst í þessu ytra landamæraeftirliti til þess að taka við öllum þeim sem eru að koma af Schengen-svæðinu og fara út fyrir það eða öðrum sem eru að koma utan að og inn á svæðið og þurfa þá að fara í gegnum landamæraeftirlit Schengen-svæðisins í Keflavík ef við undirgöngumst þá kvöð að taka það að okkur. Svona virðist málið liggja í grófum dráttum og þá hlýtur að vera alveg augljóst mál að það geta komið upp mörg bæði tæknileg og kostnaðarleg álitamál og þau býsna stór í sniðum. Að mínu mati verður einfaldlega að fara yfir þetta og kortleggja það. Pólitískt hlýtur það svo líka að vera mikið álitamál hvort við, sem ekki erum í Evrópusambandinu og erum ekki á leiðinni þangað ef marka má m.a. nýlegar og nokkuð skorinorðar yfirlýsingar hæstv. forsrh., eigum yfirleitt að hugsa hlutina þannig að það sé eðlilegt að við séum aðilar að þessu vegna þess að Schengen-samkomulagið er samkvæmt sáttmálanum sjálfum eingöngu fyrir aðildarríki Evrópusambandsins. Það liggur því í hlutarins eðli að um aðild okkar sem slíka getur ekki orðið að ræða, heldur eins konar samninga við svæðið og um samskipti okkar við það. Eftir hverju erum við þá að leita, hvað er okkur hagfellt? Er það endilega hagfellt að taka á okkur byrðarnar af því að annast þarna ytri landamæravörslu fyrir Evrópusambandið eða Schengen-svæðið? Er það það sem við erum að leita eftir í sjálfu sér? Nei, það held ég ekki. Það sem við viljum varðveita er fyrst og fremst góða og greiða för okkar og þeirra sem okkur eru að heimsækja til og frá þessa svæðis og til Íslands. Og það gerum við best með því að ná vegabréfasambandi, samningum um að umferð um landamærin verði sem greiðust að því leyti til og sleppa hinu. Ég tel þess vegna að það hljóti að vera eðlilegustu samningsmarkmið Íslands í málin að reyna að beina þessu í þann farveg að Norðurlöndin, eða a.m.k. við hvað sem um aðra verður, séum fyrst og fremst að leita eftir því að ná vegabréfasambandi sem feli það m.a. í sér að norræna vegabréfasambandið eða það fyrirkomulag sem gilt hefur um ferðalög íbúa Norðurlandanna innbyrðis geti líka haldist. Ég segi fyrir mitt leyti að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það útfærist eða útvíkki þá þannig að það gildi jafnframt um Schengen-svæðið, að íslenskir ríkisborgarar geti ferðast þangað og borgarar þess svæðis hingað án vegabréfaeftirlits eða án þess að vegabréfaframvísun sé skylda, þótt eftir sem áður verði heimilt að framfylgja landamæraeftirliti og ganga úr skugga um það ef eftir því verður óskað að vegabréf séu fyrir hendi.

Ég held líka að menn þurfi aðeins að staldra við í hvaða samhengi þetta afnám landamæraeftirlits á meginlandi Evrópu er. Það er auðvitað hluti af ákveðinni pólitík og ákveðinni stefnu sem þar er rekin sem ég hélt að menn a.m.k. hér uppi á Íslandi settu spurningarmerki við hvort hentaði okkur. Við erum ekki landfræðilega hluti af þessari heild. Við erum eyja úti í miðju Atlantshafi og eigum ekkert síður að horfa í aðrar áttir til vesturs og austurs en til Evrópu. Þetta afnám landamæraeftirlits er auðvitað hluti af samrunaferlinu í Evrópusambandinu, það er hluti af federalismanum. Það er náskylt hugmyndum um sameiginlega mynt og annað þar fram eftir götunum. Ég held því að málið sé í miklu stærra samhengi heldur en bara því einu að ræða um að hvernig til að mynda verði varðveitt þetta norræna vegabréfasamband, jafnágætt og skínandi og það er. Eigum við þá ekki líka að svara í leiðinni mörgum öðrum stórum spurningum sem tengjast framtíðarstöðu Íslands og tengsl inn í þetta samhengi? Sjáum við það fyrir okkur að við, sem erum utan Evrópusambandsins, tökum eftir sem áður upp og á okkur einhliða ýmsar kvaðir sem tengjast samrunaferlinu niðri í Evrópu? Og ef við afleggjum landamæraeftirlitið, hvað þá með gjaldmiðilinn þegar hann kemur til sögunnar o.s.frv.? Eigum við ekki að staldra aðeins við, gefa okkur tíma til að skoða málin og spyrja okkur fyrst og fremst hvað þjóni okkar hagsmunum best og láta svörin ráðast af því?

Ég held að það væri að lokum, herra forseti, ákaflega fróðlegt að heyra aðeins frá hæstv. forsrh. í þessu sambandi og þá er ég frekar að lýsa eftir umfjöllun um hina pólitísku hlið málsins, sem ég hef leyft mér að taka aðeins með. Og að sjálfsögðu þurfum við að heyra hvaða sjónarmið hæstv. utanrrh. hefur fram að færa í þessu sambandi.