Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 14:51:44 (1350)

1995-11-28 14:51:44# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[14:51]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kom mér nokkuð á óvart að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir skyldi í raun ganga lengra en nokkur annar hér í þessari umræðu, jafnvel lengra en hæstv. dómsmrh., að mæla með því að Ísland gerist aðili að Schengen-samstarfinu. Meira að segja sá hv. þm. sem hefur veitt forustu því liði sem vill gerast aðili að Evrópusambandinu og hér talaði áðan, formaður Alþfl. hv., kvað ekki upp úr með það, heldur taldi einmitt að hér vantaði margar upplýsingar. Ég get ekki betur heyrt en formaður þingflokks Framsfl. væri þegar orðinn sannfærður um ágæti þess að gerast aðili að Schengen-samkomulaginu. Sú yfirlýsing forsætisráðherra Norðurlanda 27. febrúar, ef ég man dagsetninguna rétt, var um það að Norðurlöndin mundu bindast samtökum um að ganga ekki í Schengen nema vegabréfamálið væri leyst. Þ.e. verndun norræna vegabréfakerfisins. Það felur auðvitað í sér, ef maður les í það mál, að þeir skuldbinda sig ekki á þeim tíma til þess að ganga í Schengen, heldur að vernda vegabréfafrelsi innan Norðurlandanna. Þannig að ég les svo í málið að ef Ísland kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki skynsamlegt að tengjast Schengen, aðilar verðum við ekki meðan við erum ekki í Evrópusambandinu, þá muni hinir ekki stíga það skref. Auðvitað værum við að leggja talsvert á þau lönd sem teldu sig hafa hagsmuna að gæta en þetta felst í yfirlýsingunni. Að doka við. Sjá hvað gerist. Sjá hverju hægt er að ná. En hér er það bara orðið áhugamál þingflokksformanns Framsfl. að tengjast þessu samstarfi sem slíku. Ég er mjög hissa á niðurstöðu hv. þm. á þessu stigi máls.