Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 14:57:18 (1353)

1995-11-28 14:57:18# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[14:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að þetta mál komi hér til umræðu þannig að menn geti áttað sig á því hvað hér er um að ræða og það geti orðið umræða um það í þjóðfélaginu, því hér er um mjög stórt og mikilvægt mál að ræða. Það fyrsta sem við hljótum að velta fyrir okkur er sú stóra spurning hvort við eigum að verða samferða öðrum Norðurlöndum í þessu máli. Höfum við það mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við norræna samstarfið að það sé okkur nauðsynlegt? Ég svara því hiklaust játandi. Ef við verðum skilin að frá öðrum Norðurlöndum í þessu máli held ég að það muni ekki eingöngu hafa áhrif á þetta samstarf heldur muni það hafa mjög mikil áhrif á margvíslegt annað samstarf. Það að þurfa ekki að sýna vegabréf og geta farið frjálst á milli Norðurlandanna er mjög ríkt í íslensku þjóðinni. Þetta hefur varað í 40 ár og það mundi skipta miklu máli ef við stígum það skref til baka og færum 40 ár aftur í tímann. Það er líka staðreynd að við höfum lögleitt samstarfið á hinu Evrópska efnahagssvæði og þar er gert ráð fyrir frjálsum flutningi fólks á svæðinu og við undirgengumst þær skuldbindingar að greiða sem mest fyrir því að fólk gæti farið á milli innan svæðisins. Mér er sagt að það hafi í reynd litlu munað að Schengen-málið yrði hluti af því samningaferli og hefði það verið komið lengra, hefði verið líklegt að þetta mál hefði verið tekið inn í það. Það skiptir í sjálfu sér ekki neinu meginmáli í þessu sambandi en þessi tvö atriði skipta miklu máli.

[15:00]

Nú er það að sjálfsögðu ekki vitað hver verður niðurstaða þeirra samninga sem eru að fara af stað. Við höfum ákveðið að vera þar samferða hinum Norðurlöndunum sem hafa bundið sig samtökum í þessu samningaferli. En að treysta því eða halda það að eitt landanna geti ráðið þar algjörlega ferðinni, t.d. ef við Íslendingar viljum alls ekki vera með, og að það komi í veg fyrir það að hin Norðurlöndin taki þátt í samstarfinu held ég að sé mikil óskhyggja sem ekki sé hægt að byggja á. Það er alveg ljóst að hin Norðurlöndin munu fara inn ef þau telja það þjóna sínum hagsmunum. Það er áreiðanlegt að þau eru tilbúin að taka tillit til allra sanngjarna krafna sem koma frá öðrum Norðurlöndum, Íslandi, Noregi, Svíþjóð eða öðrum. En ég tel rangt að reikna með því að þau muni algerlega halda hópinn sama hvað upp komi. Þess vegna er mikilvægt að fara í þetta mál af fullri alvöru og heilindum með það að markmiði að Norðurlöndin verði ekki skilin að. Í sjálfu sér er verið að fara út á braut sem Norðurlöndin hafa ástundað mjög lengi, þ.e. að stækka það svæði sem við Íslendingar höfum vanist á undanförnum áratugum.

Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að ýmis ljón eru á veginum. Að því er varðar samningana sjálfa þá er þar margt sem er ekki enn þá orðið ljóst, t.d. með stofnanaþáttinn og áhrif Íslands og Noregs og þeirra sem ekki eru aðilar að Evrópusambandinu á hann. Þetta er mjög mikilvægt því það er erfitt og útilokað fyrir okkur að ganga inn í samstarf sem við höfum lítil sem engin áhrif á.

Það líka ljóst að Noregur og Ísland standa utan við tollabandalagið og þar af leiðandi munu ýmsar reglur sem gilda um eftirlit með vörum ekki eiga við í sambandi við Noreg og Ísland. Ýmislegt er líka enn þá óljóst hvað varðar kostnaðarþáttinn og það er nauðsynlegt að skilja í milli að því er varðar Keflavíkurflugvöll hvort um er að ræða kostnað vegna Schengen-samstarfsins eða kostnað vegna annarra samstarfssamninga og aukinnar umferðar um flugvöllinn. Allt eru þetta atriði sem munu kalla á aukinn kostnað í framtíðinni og það er misskilningur þegar því er haldið fram að allur kostnaður sem kann að falla á Keflavíkurflugvöll og önnur mannvirki þar sem fólk kemur inn til landsins, en ansi margir koma t.d. til landsins á Seyðisfirði yfir sumartímann, sé eingöngu vegna þessa samstarfs. Það er ekki rétt og það er fyrirsjáanlegt að það þarf að ráðast í ýmsar framkvæmdir án tillits til þess hvort Ísland verður aðili að þessu samstarfi.

Það er gert mikið úr því að þetta geti tafið flugvélar sem hér millilenda. Ég held að það ætti ekki að fullyrða neitt fyrir fram í því sambandi því að sannleikurinn er sá að hver sá sem flýgur frá Bandaríkjunum og Norður-Ameríku þarf að afhenda vegabréf sitt áður en hann stígur um borð í flugvélina. Það liggja fyrir listar yfir þetta fólk um leið og flugvélin er farin af stað og jafnvel nokkru áður þannig að ýmislegt getur flýtt fyrir. Það er svo að einhvers staðar þurfa farþegarnir að ganga í gegnum eftirlit. Farþegi sem er t.d. að fara til Þýskalands gæti þurft að ganga í gegnum slíkt eftirlit á Kastrup-flugvelli í staðinn fyrir Keflavíkurflugvelli þannig að þeir komast ekki hjá því á einhverju stigi áður en þeir koma inn á svæðið.

Það er líka rétt að hafa það í huga af því að því er haldið fram að eftirlit með fíkniefnum verði miklu erfiðara eftir að við höfum gerst aðilar að slíku samstarfi og líklegra að þá muni streyma meira af fíkniefnum inn til landsins. Ég held að ekkert sé jafnverðmætt í eftirlitinu með fíkniefnum og samstarf yfirvalda þjóðanna. Þetta er alþjóðlegt vandamál og samstarf lögreglu og upplýsingaaðila skiptir langmestu máli í þessu sambandi. Það finnst vissulega töluvert af fíkniefnum þegar leitað er í farangri og á fólki. En mikilvægast í sambandi við það eftirlit er að fá upplýsingar frá öðrum löndum um það sem er að gerast. Menn nefna oft Holland í þessu sambandi en eitt af því jákvæða sem er að gerast þar um þessar mundir er að þeir eru að taka upp mun strangari reglur í sambandi við fíkniefni vegna þrýstings frá hinum Schengen-löndunum þannig að því leytinu til getur þetta að ýmsu leyti verið til bóta. Menn mega ekki líta eingöngu á gallana heldur verður jafnframt að líta á kostina.

Sama má segja um sameiginlega stefnu að því er varðar vegabréfsáritanir, flóttamenn og margvísleg upplýsingakerfi í sambandi við þetta samstarf því að baráttan gegn fíkniefnum er alþjóðleg, flóttamannavandamálið er alþjóðlegt og flutningur flóttamanna á milli svæða er alþjóðlegt mál þannig að ég vildi vara við því að alhæfa allt of mikið fyrir fram. Þetta er okkur mikið hagsmunamál og með því að ganga til samninga hlýtur það að vera markmið númer eitt að fylgja Norðurlöndunum og ná fram sem hagstæðustum samningum fyrir Ísland, íslenska hagsmuni og Norðurlöndin í heild. Ef við ætlum að skilja okkur algerlega frá Norðurlöndunum í þessum tilraunum erum við óneitanlega að skilja okkur frá Norðurlandasamstarfinu í hugsun að ýmsu leyti og það getur haft víðtækari afleiðingar en menn gera sér grein fyrir.