Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 15:07:42 (1354)

1995-11-28 15:07:42# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[15:07]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Margt athyglisvert kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. Vissulega er rétt að það eru ekki okkar óskir að það verði einhver grundvallarbreyting á norrænu samstarfi. En hluti Norðurlanda hefur séð fyrir því með þeim ákvörðunum að gerast aðilar að Evrópusambandinu, að það er komið upp allt annað landslag í þeim efnum en ríkt hefur og það er ekki hægt að bera það saman við það sem hefur verið í fortíðinni. Þau lönd sem hafa kosið að standa utan við Evrópusambandið eru í mörgum greinum á allt annarri slóð þrátt fyrir EES-samninginn en þau sem eru komin inn fyrir, þannig að menn verða að skoða þetta út frá þeirri stöðu sem þarna er uppi. Það er athyglisvert m.a. að í Noregi þar sem er allt önnur aðstaða í sambandi við landamæri en hér er á eylandinu Íslandi, hafa margir flokkar í Stórþinginu, þrátt fyrir erfiðar aðstæður sem koma með hinum löngu sameiginlegu landamærum Svíþjóðar og Noregs, lýst andstöðu við Schengen-samkomulagið eins og hugmyndir norsku ríkisstjórnarinnar hafa verið um að tengja Noreg því. Þeirra á meðal er norski miðflokkurinn og fleiri þar á þinginu. Kristilegi þjóðarflokkurinn hefur miklar efasemdir fyrir utan Sosialistisk Venstreparti sem hefur lýst sínum skoðunum. Þetta skulum við hafa í huga þegar við lítum á þessi mál hérna. Ekki það að þeir eigi að taka ákvarðanir fyrir okkur. Ég vildi hins vegar inna hæstv. utanrrh. eftir því hvaða heimildir hann hefur fyrir því að það hafi legið við borð að inn í samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði hefðu komið ákvæði Schengen-sáttmálans eins og hann lá fyrir 1990 þá væntanlega. Hvað hefur hæstv. utanrrh. fyrir sér í þeim efnum? Mér þætti fróðlegt að fá svolítið nánari upplýsingar um það.