Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 15:26:37 (1360)

1995-11-28 15:26:37# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[15:26]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að ég vogaði mér að biðja um andsvar við ræðu hv. þm. og formanns utanrmn. Ég vil fyrst og fremst segja að ég held í sjálfu sér að það sé enginn misskilningur í gangi í þingsalnum af neinna hálfu um að við erum ekki að ganga með einhverjum tengingum við Schengen-samninginn inn í tollabandalag. Það er ljóst að við höldum okkar óháðu stöðu hvað það snertir.

Menn taka svo til orða að það eigi að afnema persónuftirlit innan svæðisins, en af hálfu Schengen-ríkjanna og á grundvelli þess samnings jafngildir það í reynd að hefðbundið landamæraeftirlit er fellt niður. Það er víðtækara heldur en bara vegabréfaeftirlit og það sem spurt er um hér er að mínu mati fyrst og fremst það hvernig því verður viðkomið af okkar hálfu af því að okkar staða gagnvart samkomulaginu er önnur. Ég held að menn hafi ekki útskýrt það hér hvernig þetta er annars vegar framkvæmt innan Schengen-svæðisins og niður í Evrópu, að þar er í reynd um það að ræða að hefðbundið landamæraeftirlit á landamærum leggst af en í staðinn er eftirlit á ytri mörkum svæðisins hert og enginn veit í raun og veru hversu mikið það kemur til með að kosta. Og svo hitt að við getum staðið einhvern veginn öðruvísi að framkvæmdinni hér, eins og mætti jafnvel ráða af útskýringum hæstv. dómsmrh. og að nokkru leyti lá í orðum hv. síðasta ræðumanns, að við getum eftir sem áður framkvæmt þetta þannig að hér verði eingöngu um að ræða afnám vegabréfaeftirlits. Ég er ekki viss um að þetta verði svo auðvelt þannig. Og hvernig menn ætla annars vegar að fella niður allt eftirlit með einstaklingunum en viðhalda því hins vegar varðandi þann varning sem þeir kunna að hafa með sér án þess að hefðbundið landamæraeftirlit fari fram, það er óútskýrt mál í mínum huga. Það er það sem ég hef fyrst og fremst verið að lýsa eftir og spyrja um. Sem sagt hvernig menn ætla að standa að þessu, tæknilega, kostnaðarlega og pólitískt.