Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 15:30:32 (1362)

1995-11-28 15:30:32# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[15:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ef samningsmarkmið Íslands í þessum viðræðum yrði það að ná vegabréfasambandi og fella niður vegabréfaeftirlit innan svæðisins en halda að öllu öðru leyti virku landamæraeftirliti þá erum við hv. þm. í fyrsta lagi sammála og í öðru lagi held ég að málið mundi leysast prýðilega ef það yrði svo og um þetta semdist. Þess vegna var ég m.a. að lýsa eftir samningsmarkmiðum hæstv. ríkisstjórnar. Eru hæstv. ráðherra og ríkisstjórn tilbúin til að lýsa því yfir að þannig vilji hún reyna að ná samningum, að í því felist eingöngu að ná vegabréfasambandi og semja um að við þurfum ekki að viðhafa vegabréfaskoðun og verðum að því leyti hluti af þessu stóra svæði en að öllu öðru leyti getum við haldið virku landamæraeftirliti? Þetta er auðvitað mergurinn málsins og lykilatriði hvort um víðtækari aðild okkar að þessu verður að ræða eða ekki vegna þess að Schengen-samningurinn er viðleitni þeirra ESB-ríkja sem þar eiga í hlut, og þeim fer fjölgandi, til að hrinda í framkvæmd ákvæðum Rómarsáttmálans um afnám landamæraeftirlits en um það er sérstök grein í Rómarsáttmálanum. Það hefur bara verið valin sú leið af ýmsum ástæðum, aðallega pólitískum, og pólitískum vandamálum sem eru uppi í samskiptum einstakra Evrópusambandsríkja að gera þetta í formi sjálfstæðs sáttmála sem aðeins fá þeirra voru aðilar að í byrjun. Ég spurði aðallega um þetta. Ef menn verða svo gæfusamir, vil ég leyfa mér að segja, að ná samstöðu um það að samningsmarkmið Íslands eigi fyrst og fremst að vera þau að ná vegabréfasamningi þá held ég að það væri verulega stórt skref í rétta átt.