Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 15:47:19 (1364)

1995-11-28 15:47:19# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[15:47]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þessar umræður hafa verið um margt gagnlegar og auðvitað er það brýnt að Alþingi fjalli um svo mikilvægt mál sem þetta. Það hefur komið fram í umræðunum að vissulega er margt enn óljóst. Þær viðræður sem fram hafa farið eru fyrst og fremst könnunarviðræður og það ræðst af fundi Schengen-ráðherranna núna 20. desember hvort þeir fá pólitískt umboð til þess að hefja formlegar samningaviðræður. Þegar þær fara af stað má vænta að fram komi með skýrari hætti hver staða málsins verður í raunverulegum samningum. Ekki hafa verið settar neinar ákveðnar tímasetningar í þessu efni, en menn hafa rætt möguleikana á því að fullgildingarferli yrði lokið fyrir 1. janúar 1998.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. varpaði fram þremur spurningum og reyndar komu sumar þeirra fram frá fleiri hv. þm. Í fyrsta lagi hver kostnaðurinn yrði sem af þessu hlýst og hvenær líklegt er að við fáum fullnægjandi vitneskju um það. Það er ljóst að á þessu stigi vitum við ekki hver kostnaðurinn er og þess vegna verðum við að gera þann fyrirvara að hann getur breytt okkar áformum. Við stefnum að því að í megintriðum liggi þessar upplýsingar fyrir fjótlega. Ég get ekki sagt hversu fljótt, en það er lögð á það rík áhersla að hraða upplýsingaöflun þar um.

Í öðru lagi spurði hv. þm. að því hvort Noregur fengi aðra meðferð eða meiri völd en Íslendingar. Svo er ekki. Norðurlandaþjóðirnar eru í samfloti, einnig Ísland og Noregur sem hafa aðra stöðu en þau ríki sem eiga aðild að Evrópusambandinu.

Loks spurði hv. þm. hvort Ísland fengi meiri áhrif en innan EES. Að hluta til kemur sú spurning inn á það sem hv. 4. þm. Austurl. spurði að í lokin um það hversu miklar líkur væru á því að Ísland og Noregur hefðu áhrif á ákvarðanatöku innan Schengen-ráðsins.

Í þeim undirbúningsviðræðum sem fram hafa farið höfum við lagt á það mjög ríka áherslu að við yrðum að fá rétt til þátttöku í undirbúningi ákvarðana og umræðum um ákvarðanir. Það er hins vegar svo að við getum ekki orðið fullgildir aðilar að Schengen vegna þess að það fá aðeins aðildarríki Evrópusambandsins. Við höfum velt upp þeirri hugmynd að aðild okkar gæti að formi til orðið svipuð og aðild Finnlands að Fríverslunarsamtökunum á sínum tíma þar sem Finnar höfðu seturétt og málfrelsi á fundum ráðherraráðsins og tóku þátt í nefndarstörfum í undirnefndum. Síðan yrði að finna sérstakt form fyrir ákvarðanir sem yrðu bindandi fyrir Ísland og Noreg. Það er auðvitað ljóst að hvorki Ísland né Noregur geta hindrað framgang samhljóða ákvarðana Schengen-ríkjanna. Þetta er ekki ljóst enn þá, en skýrist væntanlega þegar Schengen-ríkin taka ákvörðun um með hvaða hætti og á hvaða grundvelli þau eru tilbúin til að ganga til formlegra samningaviðræðna við Norðurlöndin og þar á meðal Ísland og Noreg, en á þetta hefur verið lögð mjög rík áhersla af okkar hálfu.

Það hefur komið fram að Ísland og Noregur hafa mjög nýlega fengið spurningalista sambærilegan þeim sem Norðurlandaþjóðirnar sem eiga aðild að ESB og hafa sótt um aðild að Schengen hafa fengið. Við stefnum að því að svara þessum spurningum fljótlega í næsta mánuði og ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu kynna svör Íslands fyrir hv. utanrmn. áður en þau verða send. Og öll gögn sem fyrir liggja verða vitaskuld kynnt hv. utanrmn., af því að um það var spurt og ég veit ekki betur en að nokkur hafi þegar í morgun verið send til nefndarinnar. En að sjálfsögðu verður öllum gögnum til skila haldið í þeirri umfjöllun.

Spurt var hvers vegna áhersla hefði verið lögð á að ljúka umfjöllun innan Schengen um samningsumboð þeirra áður en Belgar láta af formennsku í Schengen-ráðinu. Hugsanleg ástæða fyrir því er sú að ekki þurfi að koma til þess að menn gangi aftur í gegnum þær viðræður sem átt hafa sér stað þegar nýr formaður tekur við um áramótin. Það er mikilvægt að það skýrist sem allra fyrst hvaða umboð Schengen gefur formennskunni til samninga og vissulega höfðum við vænst þess að það lægi fyrir fyrr en orðið hefur. Það má með vissum hætti segja að það hafi orðið nokkur dráttur á því að sú niðurstaða fengist.

Það var vikið að hagsmunum Flugleiða í þessu efni og það er vissulega rétt að eitt af þeim atriðum sem við þurfum að gæta að eru hagsmunir þeirra. Þeir koma hingað með mjög marga farþega á tiltölulega stuttum tíma sem þeir eru að flytja milli Ameríku og Evrópu og við lausn á þessu máli verður að gæta að þeim hagsmunum. Það er útilokað að mínu áliti að niðurstaða geti fengist í þessu máli nema hún sé fullnægjandi fyrir þessa mikilvægu atvinnustarfsemi sem skapar svo miklar gjaldeyristekjur fyrir okkur Íslendinga.

Þá var að því spurt hvers vegna Bretar og Írar hefðu kosið að standa utan þessa samstarfs. Að sjálfsögðu kann ég ekki full skil á því en ég geri hins vegar fastlega ráð fyrir að þeir hafi einfaldlega kosið að hafa tækifæri til þess að hafa sitt eftirlit með fólki sem kemur og fer frá landinu og hafi ekki viljað taka þátt í því frelsi sem Schengen-reglurnar gera ráð fyrir.

Þá var að því spurt hvort það væri rétt skilið að í eftirliti á ytri landamærum fælist að hafa yrði eftirlit með þeim sem fara út af svæðinu. Það er svo að reglurnar gera ráð fyrir því.

Ég held þá, herra forseti, að ég hafi vikið að flestum beinum spurningum sem hafa komið fram. Auðvitað er þetta mikið álitaefni sem við stöndum frammi fyrir. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að verða samferða Norðurlandaþjóðunum í þessu efni ef þess er nokkur kostur. Við höfum átt samleið með þeim á þessu sviði um langt árabil og samstarf þessu tengt hefur skilað góðum árangri eins og í lögreglumálum og afbrotavörnum. Ég er alveg sannfærður um að samkomulag af því tagi sem við erum að fjalla um, sem yrði miklu víðtækara og næði til fleiri landa, myndi styrkja stöðu okkar. Ég held að við hljótum að vera um það sammála að barátta gegn glæpum og fíkniefnamisferli er eitt af því mikilvægasta sem við eigum við að glíma og við megum ekki, á sama tíma og við þurfum að leita allra leiða til að ná tökum á því verkefni, gera þær aðferðir tortryggilegar sem skila mestum árangri á því sviði eins og það sameiginlega upplýsingakerfi sem við gætum gerst aðilar að. Á það var bent að inn í þetta kerfi væru komnar 2 milljónir færslna og að sýnir einmitt hversu öflugt kerfið er. Með slíku samstarfi eigum við að öllum líkindum miklu meiri og betri möguleika á að verjast í þessum efnum en fram til þessa.

Ég skil sjónarmið þeirra sem eru pólitískt andvígir því að við tökum þátt í Evrópusamstarfi og því aukna frelsi sem þar hefur verið að myndast á undanförnum árum. Við höfum hins vegar kosið, þó að við höfum ekki ákveðið að gerast aðilar að Evrópusambandinu með öðrum Norðurlandaþjóðum, að taka þátt í innri markaði Evrópusambandsins. Og við erum í reynd aðilar að langsamlega stærsta hluta löggjafar Evrópusambandsins af því við viljum taka þátt í því frelsi og því samstarfi sem það gefur okkur. Það eru fyrst og fremst atriði sem lúta að mikilvægum efnahagslegum hagsmunum okkar eins og sjávarútvegi sem hafa gert það að verkum að við sóttum ekki um aðild ásamt Norðurlandaþjóðunum. En mikill meiri hluti Alþingis og þjóðarinnar hefur mótað þá stefnu að við verðum virkir þátttakendur í þessari þróun svo langt sem efnahagslegir hagsmunir okkar leyfa og þá höfum við að sjálfsögðu látið sitja í fyrirrúmi. Ég tel að samstarfið geti verið þáttur í að útvíkka þessa þróun og styrkja að öllu leyti og ég tel að það væri mjög óheppilegt svo ekki sé tekið dýpra í árinni ef svo færi að við yrðum viðskila við hin Norðurlöndin á þessu sviði, þar með að því er varðar samvinnu um lögreglumál og eftirlit með glæpum. Ég tel að það yrði mjög miður. En auðvitað geta menn haft mismunandi pólitískar skoðanir að þessu leyti og ég virði önnur pólitísk viðhorf sem menn hafa uppi að þessu leyti.

[16:00]

Síðan komum við að því að það kann vel að vera að kostnaður við þetta verði á endanum of mikill. Um það getum við ekkert sagt í dag. En við verðum líka að hafa það í huga að þróun samgangna og ferðalaga leiðir auðvitað til þess að við þurfum að þróa okkar samgöngumannvirki. Við munum taka við fleiri ferðamönnum á komandi árum en við höfum gert.

Það kom til að mynda fram í umræðunum spurning um það hversu mörg lönd það eru sem við höfum samkomulag um að þurfa ekki áritunarskyldu og þar sem breytingar þyrftu að koma til. Þetta er um 23 lönd. Þar af eru fjögur lönd þar sem frelsið á einungis við um diplómata, þannig að í reynd eru þetta um 19 lönd. Hingað komu á síðasta ári 50 ferðamenn frá þessum löndum þannig að af þessum tölum verður ekki ráðið að hér sé um meiri háttar vanda að etja. En aðalatriðið er að það er mikilvægt fyrir okkur ef við eigum þess kost og ef það rúmast innan skynsamlegra kostnaðarmarka við þær breytingar sem við þurfum að gera á okkar samgöngumannvirkjum að taka þátt í þessu samstarfi.