Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 16:08:16 (1367)

1995-11-28 16:08:16# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[16:08]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins nánar varðandi stöðuna gagnvart ákvörðunum Schengen. Mér sýnist miðað við að við erum ekki þátttakendur í ákvörðunum, ég hafði svo sem ekki búist við að það væri í sjónmáli, að þá standi eftir að varðandi ákvarðanir um önnur atriði, breytingar á Schengen og öðru sem því tengist, þá væru Íslendingar orðnir þolendur þess ef þeir ekki segja sig frá og fá engu um ráðið. Þetta er hliðstætt því sem varðar Evrópusambandið og við þekkjum úr samstarfinu innan EES-svæðisins. Og ég held að við þurfum að horfa á þessa stöðu, sem sagt réttarstöðu okkar gagnvart þróun þessara mála. Við værum að hengja okkur aftan í vagn að þessu leyti sem varðar það sem hafa verið innanríkismál okkar m.a., og fáum engu ráðið um hvert vagninn er dreginn miðað við þá stöðu sem þarna er uppi.

Virðulegur forseti. Fram kom hjá hæstv. ráðherra að hann hefði skilning á þeim pólitísku sjónarmiðum sem vísuðu í það að við ættum að gæta okkar í sambandi við það hversu langt er gengið í samstarf gagnvart Evrópusambandinu. Það finnst mér vera mjög skynsamlegt hjá hæstv. ráðherra, ekki síst í ljósi þeirra varnaðarorða sem fallið hafa frá formanni flokks hæstv. ráðherra undanfarið. Þar er vissulega stungið við fæti með mjög ákveðnum hætti svo að það er gott að hæstv. dómsmrh. hefur umburðarlyndi gagnvart slíkum sjónarmiðum.