Menningar- og tómstundastarf fatlaðra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 16:30:38 (1372)

1995-11-28 16:30:38# 120. lþ. 42.9 fundur 71. mál: #A menningar- og tómstundastarf fatlaðra# þál., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[16:30]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þær upplýsingar sem komu fram í máli hv. síðasta ræðumanns. Ég vil vekja athygli á mismuninum á framlögum sem var útskýrður með mismunandi aðgerðum í málefnum fatlaðra eftir kjördæmum, því það kemur ekki alveg heim og saman að framlagið á Vesturlandi er u.þ.b. 4 millj. á hverja þús. íbúa á móti 5 millj. á hverja þús. íbúa á Vestfjörðum og 9 millj. á hverja þús. íbúa á Norðurlandi. Þetta er mismunur sem ég á erfitt með að finna skýringar á jafnvel þó ég bendi á að á Vesturlandi er verndaður vinnustaður, sambýli, sumardvalarheimili og dagvistun fyrir fatlaða, þannig að ég kem mismuninum í framlögunum ekki alveg heim og saman. Hann hlýtur að miðast við fjölda þeirra sem eru fatlaðir í kjördæmum. Það hlýtur að vera þannig. Það getur auðvitað verið mismunur á. Fatlaðir einstaklingar geta flust milli kjördæma en mér finnst það með ólíkindum ef að svona mikill munur er á fjölda fatlaðra milli kjördæmanna eins og tölurnar gefa til kynna. En ég þakka kærlega fyrir upplýsingarnar og ég veit að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir er vel heima í þessum málaflokki. En það er ýmislegt sem vekur athygli. Oft hefur verið sagt að miklir fjármunir hafi verið settir í þennan málaflokk en mér er mjög vel ljóst, þótt það hafi verið gert að mikil þörf er til viðbótar.