Menningar- og tómstundastarf fatlaðra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 16:32:44 (1373)

1995-11-28 16:32:44# 120. lþ. 42.9 fundur 71. mál: #A menningar- og tómstundastarf fatlaðra# þál., Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[16:32]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls og lýst yfir stuðningi við tillöguna sem ég vonast til að fái afgreiðslu á þessu þingi. Hún var lögð fram á vorþingi en þá vannst ekki tími til þess að klára málið í nefnd. En ég get tekið undir mjög margt sem fram kom í máli þeirra þingmanna sem hér hafa talað, sérstaklega það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði er hún vitnaði í nauðsyn þess að viðhalda öflugu leiklistar- og íþróttastarfi, lista- menningarstarfi fyrir fatlaða og tók sem dæmi leikhúsið á Sólheimum og það öfluga starf og uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað á undanförnum árum. Ég get ekki látið hjá líða að nefna og þykir slæmt að hæstv. félmrh. er ekki á staðnum, að Sólheimar eru reknir þannig að til stóð að gera þjónustusamning við það heimili og eftir því sem ég best veit var sá þjónustusamningur tilbúinn til undirritunar þegar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fór úr ráðuneytinu. En hann hefur ekki verið undirritaður vegna þess að mönnum finnist rekstur heimilisins of kostnaðarsamur og það er einfaldlega vegna þess að inni í því dæmi er öflug uppbygging á menningar- og tómstundastarfi fyrir þá fötluðu sem þar búa.

Hv. þm. Gísli Einarsson nefndi að það væri nauðsyn á því, eins og ég skildi hann, að þessi málaflokkur færðist frá ríki yfir á sveitarfélög. Ég er sammála því, ekki vegna þess að sveitarstjórnarmenn geri sér ekki grein fyrir því að þessi málaflokkur er að töluverðu leyti nú þegar hjá sveitarfélögunum, heldur vegna þess að ég tel að vandamálin sem upp koma hverju sinni séu best leyst af þeim sem til þekkja og eru í návígi við þau. En til þess að svo megi verða þá verður kostnaður við þennan málaflokk að liggja fyrir, rétt eins og með grunnskólana. Ástandið er þannig núna í mjög mörgum sveitarfélögum vítt og breitt um landið að það er erfitt og í sumum tilvikum útilokað að veita fötluðum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum, varðandi aðstoð við heimili og aðbúnað í grunnskólunum. Þess vegna er nauðsynlegt að úttekt fari fram. Rétturinn er til staðar í gildandi lögum bæði um aðbúnað á heimilum og til dagvistunar og langtímavistunar. Það er sæmileg sátt í búsetumálum fatlaðra. En við þurfum fé til framkvæmda. Það þarf að sjá til þess að sveitarfélögin, ef þau eiga að taka þennan málaflokk, fái fjármagn sem til þarf og þá sé tekið tillit til þess að fatlaðir þurfa ekkert síður en þeir ófötluðu að njóta menningar, lista og íþróttastarfsemi.

Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa talað.