Réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 16:36:34 (1374)

1995-11-28 16:36:34# 120. lþ. 42.8 fundur 13. mál: #A réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra# (breyting ýmissa laga) frv., SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[16:36]

Frsm. heilbr.- og trn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 245 um frv. til laga um réttarstöðu kjörbarna og foreldra þeirra frá heilbr.- og trn.

,,Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir um það frá Íslenskri ættleiðingu, Tryggingastofnun ríkisins, umboðsmanni barna, Barnaheillum, heilbr.- og trmrn. og Lífeyrissjóði bænda.

Nefndarmenn eru sammála um að nauðsynlegt sé að staða kjörbarna og kjörforeldra sé hin sama og staða annarra barna og foreldra þeirra. Hvað varðar fæðingarorlof, fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga þarf þó að gera greinarmun á frumættleiðingum, þar sem algjörlega ný fjölskyldusambönd eru mynduð, og ættleiðingum barna sem búa á sama heimili og ættleiðandi, t.d. ættleiðingum stjúpbarna. Miða eftirfarandi breytingartillögur að því að skerpa þennan mun.

Mælir nefndin með samþykki frumvarpsins með eftirfarandi breytingum:

1. Í stað orðsins ,,ættleiðingar`` í 1. gr. komi: frumættleiðingar.

2. Í stað orðsins ,,ættleiðingu`` í b-lið 6. gr. komi: frumættleiðingu.``

Heilbr.- og trn. var einróma í áliti sínu.

Frv. það sem hér er til umræðu er lagt fram til að lagfæra lagalega stöðu kjörbarna og kjörforeldra svo hún verði að öllu leyti hin sama og annarra barna og foreldra. Þess ber að geta í því sambandi að andi gildandi ættleiðingarlaga frá 8. maí 1978 hnígur ótvírætt í þessa átt en þar segir í 15. gr.:

,,Nú ættleiðir aðili barn maka síns eða kjörbarn, og fær barnið þá réttarstöðu sem væri það skilgetið barn þeirra hjóna.``

Hér er afdráttarlaust að orði kveðið og vilji löggjafans skýr. Þrátt fyrir þetta eru í lögum um fæðingarorlof og lögum um almannatryggingar ákvæði sem takmarka rétt kjörforeldra miðað við kynforeldra. Einnig er að finna takmarkandi ákvæði um réttindi kjörbarna í lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og Lífeyrissjóð bænda.

Í frv. er eins og áður sagði lagt til að lagaleg staða kjörbarna og kjörforeldra verði söm og annarra barna og foreldra. Gerðar eru tillögur um breytingar á þeim fernum lögum sem ég nefndi áðan. Ljóst er að ættleiðingum á börnum erlendis frá hefur fjölgað talsvert á síðustu áratugum. Ég vek sérstaka athygli á 2. og 4. gr. frv. en þar er að finna ákaflega mikilvæg ákvæði um að fæðingarorlof og greiðsla fæðingarstyrks geti hafist við upphaf ferðar til fæðingarlands barnsins. Þá strax byrjar aðlögun og samvera barns og foreldra. Það er mikilvægt fyrir foreldrana að finna að þjóðfélagið styður við bakið á þeim eins og öðrum nýbökuðum foreldrum í landinu. Traust tengsl foreldra og barna í frumbernsku eru nauðsynleg og mikilvægi þessa fyrir velferð hvers einasta einstaklings verður æ ljósara.

Umsagnir sem hv. heilbr.- og trn. bárust um frv. voru allar afar jákvæðar. Ég vil, með leyfi forseta, vitna sérstaklega í umsögn Tryggingastofnunar ríkisins en þar segir um I. kafla og breytingu á lögum um fæðingarorlof:

,,Lífeyrisdeild telur réttarbót að því, að gera réttarstöðu ættleiðandi foreldra og kjörbarna, sem líkasta stöðu barna og kynforeldra en leggur þó áherslu á það, að staðfesting yfirvalda eða stofnunar liggi fyrir áður en taka fæðingarorlofs hefst. Slíkt skapar festu í ættleiðingarferlinum og auðveldar framkvæmd fæðingarorlofslaga og almannatryggingalaga.``

Um II. kafla segir í umsögn Tryggingastofnunar ríkisins þar sem er fjallað um breytingu á lögum um almannatryggingar:

,,Um 4. gr. Fagna ber breytingu á 2. mgr. 14. gr. laganna en þar er réttarstaða ættleidds barns bætt við fráfall eða örorku ættleiðenda. Tveggja ára reglan í núgildandi grein er í reynd leifar af gamalli löggjöf með úreltum viðhorfum. Sjálfsagt er, að jafna rétt kjörbarna og kynbarna í þessu efni.

Um 5. gr. Fallist er á það sanngirnissjónarmið að greiðsla fæðingarstyrks framlengist um einn mánuð fyrir hvert barn, þegar fleiri en eitt barn eru ættleidd samtímis.

Um 6. gr. Eðlilegt er, að ættleiðandi faðir njóti sömu réttinda og um kynföður væri að ræða.

Lífeyrisdeildin telur, að frv. þetta miði að því lokamarkmiði, að jafna réttarstöðu kynbarna, fósturbarna, kjörbarna og stjúpbarna og réttindi allra barna séu varin á þessu sviði sifjaréttarins og almannatrygginga.``

Hér koma fram flest mikilvæg rök í þessu máli og tekið er í öllum aðalatriðum undir málflutning flm. frv. Það þarf ekki að orðlengja það að hér er um sjálfsagt sanngirnis- og réttlætismál að ræða og ég vil nota tækifærið til að þakka nefndarmönnum í hv. heilbr.- og trn. fyrir góðar undirtektir og skjóta og greiða afgreiðslu þess í þingnefnd.