Úttekt á hávaða- og hljóðmengun

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 16:45:35 (1376)

1995-11-28 16:45:35# 120. lþ. 42.10 fundur 133. mál: #A úttekt á hávaða- og hljóðmengun# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[16:45]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um úttekt á hávaða- og hljóðmengun en flm. ásamt mér fyrir máli þessu er hv. þm. Ragnar Arnalds. Tillagan er stutt, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram víðtæka úttekt á hávaða- og hljóðmengun hérlendis og leggja fyrir næsta þing niðurstöður hennar og tillögur til úrbóta.``

Þess ber að geta, virðulegur forseti, að þann 11. maí 1988 samþykkti Alþingi þáltill. um hávaðamengun og sú ályktun þingsins var svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta semja frumvarp til laga um varnir gegn hávaða- og hljóðmengun.``

Ég spurðist fyrir um afdrif þessarar samþykktar þingsins þann 14. maí 1995. Fyrirspurnin kom til umræðu og hæstv. forsrh. svaraði fyrir hönd ríkisstjórnar og greindi frá því að niðurstaða athugana hjá ráðuneytum hafi verið sú að ekki hafi verið talin þörf á nýrri löggjöf á þessu sviði. Hann færði fyrir því ákveðin rök að það væri stoð í lögum, nefndi til lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og fleiri lög raunar, ásamt mengunarvarnareglugerð með breytingum þar sem sett hefðu verið ákveðin mörk og útfærði það nánar og gat þess einnig að reyndust hávaðavarnir ekki nægar, þá skuli heilbrrn. gera tillögur til sveitarstjórnar um takmörkun umferðar eða starfsemi á ákveðnum tímum og svæðum o.fl. sem hægt er að lesa sér til um í svari hæstv. ráðherra á þessum tíma.

Það nægir ekki að mati okkar flm. að segja að það séu þarna ákvæði í lögum og það hafi verið settar reglugerðir. Sannleikurinn er sá að það skortir afar mikið á að þessi mál séu í viðhlítandi horfi hjá okkur og það eru alltaf að koma fram réttmætar ábendingar um það að um sé að ræða hjá fyrirtækjum og í ýmsu samhengi óeðlilegan og truflandi hávaða sem æskilegt væri að stemma stigu við.

Hávaði og hljóðmengun fer vaxandi í okkar samfélagi sem annars staðar. Þar er ekki aðeins um að ræða hávaða frá umferð og atvinnurekstri, heldur einnig tónlist og talað orð magnað upp á almannafæri, í almenningsfarartækjum, verslunum, veitingahúsum og samkomuhúsum, svo dæmi séu tekin, og á útivistarsvæðum sem ætluð eru almenningi og jafnvel í leikfimisölum, þar sem fólk kaupir sig inn til að þjálfa líkama sinn, búa menn við þetta og svo mætti lengi telja. Hljóðmengun yfir ákveðnum mörkum getur verið heilsuspillandi og valdið skemmdum á heyrn auk truflunar og margvíslegra sálrænna áhrifa sem valdið geta andlegri vanlíðan. Því er brýnt að af opinberri hálfu sé unnið skipulega gegn óþörfum og truflandi hávaða til verndar heilsu manna og til að tryggja rétt einstaklingsins til ómengaðs umhverfis. Hávaði frá tólum og tækjum er röskun sem halda ber í lágmarki og enginn á að þurfa að þola síbylju úr hátölurum í formi talaðs orðs eða hljómflutnings sem hann kærir sig ekki um. Þar sem margir koma saman á réttur minni hluta gagnvart hljóðmengun að vera jafnríkur og meiri hluta, jafnt á vinnustað sem á almannafæri.

Þetta eru nokkur almenn viðhorf sem koma fram í greinargerð okkar flutningsmanna og ég vildi nefna við þessa umræðu og það jafnframt, sem er efni þessarar tillögu, að við þurfum að fá sem gleggsta mynd af stöðu þessara mála hér á landi til þess að leiða í ljós hvort ástæður þessara umkvartana sem koma víða fram séu óþarfar og hvort ekkert sé hægt að gera í málinu.

Ég fékk nýlega í hendur grein eftir Þórð Tómasson efnaverkfræðing sem skrifaði um þetta efni undir fyrirsögninni ,,Hávaðamengun, stærsta umhverfisvandamálið?`` Í greininni er vikið að þessu máli. Ég vil aðeins nefna það vegna þess að það er ákveðið mat sem þar kemur fram, með leyfi forseta. Þar segir:

,,Hvað má líta á sem stærsta mengunarvandamál margra þjóða? Hávaðamengun, þ.e. hávaði sem menn orsaka, er í dag viðurkennd sem sú mengun sem flest fólk býr við yfir viðmiðunarmörkum. Hin almennu viðmiðunarmörk fyrir íbúðarhús eru 55 desíbel fyrir utan glugga. Hér er átt við jafngildishljóðstig yfir heilan dag. Í Noregi er t.d. talið að um 1,1 milljón manna búi við hljóðstig yfir þessum mörkum og í Svíþjóð er talið að um 1,6 millj. manna búi við hljóðstig sem er yfir 55 desíbel.``

,,Hér á landi`` segir í greininni ,,hefur ekki verið metið hve margir búa við hávaðamengun yfir mörkum. Gera má ráð fyrir að hlutfall íbúafjölda sem býr við hávaðamengun yfir mörkum sé heldur lægra hérlendis vegna þess hversu landið er strjálbýlt, en þar sem menn hafa oft ekki litið á hávaða sem vandamál og ekki nýtt sér stærð landsins, þá er hlutfallið e.t.v. ekki miklu lægra. Ef við gerum ráð fyrir að 15% þjóðarinnar búi við hljóðstig við 55 desíbel, þá eru það um 35 þúsund manns. Flestir eru auðvitað í Reykjavík og nágrenni.``

Síðan er fjallað um þessi mál nánar í einstökum atriðum og eftir einstökum svæðum og vikið að því hversu mikilvægt það er að skipuleggja byggð út frá líklegum hávaða og þeim mörkum sem menn ætla sér að leyfa til þess að draga úr þeim óþægindum og truflunum sem hávaða fylgja.

Það er hægt að hafa, virðulegur forseti, um þetta efni mörg orð. Hér voru, ef ég man rétt, stofnuð samtök til þess að verjast eða knýja á um úrbætur á þessu sviði og í nefndri þáltill. hv. þm. Ragnars Arnalds á sínum tíma, sem varð að ályktun Alþingis, fylgdi ágætt yfirlit frá lögmanni sem hafði skrifað um þetta í Morgunblaðið, Steingrími Gauti Kristjánssyni. Og það kemur margt fram til stuðnings þessum málum almennt og þeim eðlilegu kröfum sem rétt er að setja í þessu efni.

Ég vil einnig nefna myndarlegar undirtektir við þessi sjónarmið sem komu fram í DV á sínum tíma, 11. apríl 1992 í ritstjórnargrein, þar sem sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Fólk þarf að átta sig á að eðlilegt og upprunalegt ástand felst í þögn og ýmsum óhjákvæmilegum hljóðum, svo sem brimgný, goluþyt og lækjarnið, en hinn áreitni og skipulagði hávaði úr útvarps- og hljómflutningstækjum er mengun á hinu eðlilega og upprunalega ástandi.`` Og það segir þarna einnig: ,,Í fyrirtækjum og stofnunum þar sem sumir starfsmenn og viðskiptamenn vilja áreitinn og skipulagðan hávaða ættu þeir að geta öðlast hann með hjálp slíkra tækja, þ.e. sérbúnaði tækja fyrir einstaklinga og án þess að trufla hina. Fráleitt er að telja rétt hávaðafíkla meiri í samfélaginu en hinna.``

Undir þessi orð er hægt að taka, virðulegur forseti. Ég tel að hér sé í rauninni um að ræða afar brýnt úrlausnarefni sem hins vegar borgararnir nauðugir viljugir þurfa að láta oft yfir sig ganga og þá á ég við að sjálfsögðu starfsemi eða hávaða sem menn verða fyrir og sem þeir ekki kjósa að njóta. Ég á ekki við það að menn kaupi sig inn á hljómleika þar sem þeir vita við hverju má búast. En þó er það vissulega svo að magnaður hávaði sem æskufólk er alið upp við leiðir ekki aðeins til heilsutjóns heldur líka vanabundins ástands og eftirsóknar. Fólk getur því orðið fíklar í þessu samhengi og fer þá á mis við þau gæði sem þögnin er og þau hljóð náttúrunnar sem hægt er að njóta ef ekki er um að ræða truflun og röskun og eru kannski sú fegursta sinfónía sem völ er á þegar allt er saman lagt.