Úttekt á hávaða- og hljóðmengun

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 16:55:32 (1377)

1995-11-28 16:55:32# 120. lþ. 42.10 fundur 133. mál: #A úttekt á hávaða- og hljóðmengun# þál., KF
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[16:55]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist, mig langar að blanda mér í þessa umræðu um úttekt á hávaða- og hljóðmengun. Ég virði það mjög við flutningsmenn að þeir skuli ræða þessi mál á þinginu því að það er alveg rétt, eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns, að þarna eru mörg brýn úrlausnarefni.

Ég er líka sammála ræðumanninum um það að þögnin og hljóð náttúrunnar eru æskilegri heldur en hávaði. Og heyrnarskaði er heilsufarsvandamál í þjóðfélaginu sem mætti að stórum hluta koma í veg fyrir með forvörnum. Með lögum og reglugerðum er hægt að hindra þetta upp að vissu marki.

Ég er hins vegar ekki sannfærð um að það vanti upp á í okkar löggjöf eða reglugerðum hvað þetta varðar. Ég held að það sé frekar spurning um að fylgja því eftir sem þar er. Í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit er, eins og vitnað var til hérna, kveðið á um að það skuli setja mengunarvarnareglugerð til að verjast hávaða og þar komi fram viðmiðunarreglur. Þetta hefur verið gert og þessi mengunarvarnareglugerð er því grundvallarreglugerð fyrir þá sem eiga að fylgja þessu eftir. Og hverjir eru það? Það eru heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna.

Nú vill svo til að ég var formaður heilbrigðisnefndar Reykjavíkur í þrjú kjörtímabil. Sú heilbrigðisnefnd hefur unnið að mörgum verkefnum á þessu sviði. Ég tel að það sem stendur í mengunarvarnareglugerð og í heilbrigðisreglugerð og síðan þau þvingunarúrræði sem fyrir hendi eru ættu í rauninni að nægja. Við leysum ekki vandamálið um hávaða sem fylgir líkamsræktarstöðvum og hátölurum á almannafæri með því að setja frekari lög um málið, það þarf að fylgja þeim eftir. Almenningur er til allrar hamingju nokkuð árvökull í þessu efni. Hann þarf að beina kvörtunum sínum til heilbrigðisnefnda og heilbrigðiseftirlita sveitarfélaganna sem eiga síðan að taka á málum. Þau hafa til þess úrræði. Í fyrsta lagi viðvaranir, í öðru lagi ítrekaðar viðvaranir og í þriðja lagi er hægt að stöðva starfsemi þeirra fyrirtækja eða aðila sem brjóta í bága við þessar reglugerð.

Það er líka mjög mikilvægt að hávaði sé hafður í huga við skipulag byggðar. Þar á ég fyrst og fremst við umferðarhávaða, þ.e. fjarlægð íbúðabyggðar frá miklum umferðaræðum. Hávaði frá umferð kemur auðvitað fyrst og fremst fram í þéttbýlinu. Við því hefur verið brugðist með því að hafa útivistarsvæði, hljóðmanir og ýmislegt slíkt til þess að reyna að tryggja friðsæld í íbúðarhverfum. En auðvitað er þetta ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk og sums staðar koma upp vandamál sem segja má að séu óleysanleg. Ég man eftir umræðu um það í borgarstjórninni og á vettvangi borgarmálanna að íbúar við Suðurgötu, hérna rétt hjá okkur, kvörtuðu mikið undan hávaða frá umferð. Og maður sér þetta oft í gömlum borgarhlutum, ekki bara hér á landi heldur víðast hvar þar sem götur voru hannaðar fyrir tíma mikillar umferðar. Umferð miðborgar er til mikils óhagræðis fyrir íbúana og það er reynt að leysa þetta með því að setja tvöfalt eða þrefalt gler í glugga o.s.frv. En það dugar ekki alltaf til og þetta er ekki alltaf leysanlegt í miðborgum.

[17:00]

Annað mál sem kom upp ekki fyrir svo löngu var umræða um hávaða í íbúðarhúsum við Miklubraut. Á síðasta kjörtímabili borgarstjórnar var þetta talsvert athugað á vegum okkar í heilbrigðisnefndinni. Úrræðin í slíkum málum geta verið gríðarlega dýr. Það er talað um að grafa niður Miklubrautina og hafa hana neða njarðar eða leggja niður byggð og kaupa upp hús meðfram götunni, þau sem næst standa. Það er sennilega ódýrara heldur en grafa hana niður. Svona eru menn að reyna að taka á þessum málum, en þau eru erfið. Þau eru sérstaklega erfið í miðborgum.

Herra forseti. Ég vildi að þetta kæmi fram. Ég tel að lög og reglugerðir sem til eru hér á landi ættu að nægja okkur fullkomlega ásamt þeim þvingunarúrræðum sem fyrir hendi eru. En það er aldrei nóg að gert og við vitum að heyrnarskaði er í langflestum tilfellum ólæknanlegur, þannig að þetta er dæmi um forvarnir sem eru mjög mikilvægar. En ég held að við höfum tækin og tólin í höndunum nú þegar með núverandi lögum og reglugerðum.