Úttekt á hávaða- og hljóðmengun

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 17:01:39 (1378)

1995-11-28 17:01:39# 120. lþ. 42.10 fundur 133. mál: #A úttekt á hávaða- og hljóðmengun# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[17:01]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Í máli hv. síðasta ræðumanns komu ýmsar gagnlegar ábendingar fram sem snerta þetta mál. Hins vegar fannst mér að það hefði kannski farið fram hjá hv. þm. að tillagan fjallar ekki um að setja ný lög og reglur. Það er tekið tillit til þeirrar niðurstöðu framkvæmdarvaldsins sem hæstv. forsrh. túlkaði vorið 1992, að talið væri að það væru nóg úrræði lagalegs eðlis og í reglugerðum. Hins vegar fjallar tillagan um að það fari fram úttekt á stöðunni, eða í raun eftirlitsþáttinn, til þess að við gerum okkur grein fyrir og fáum það mælt og kortlagt, eins og nú er sagt þegar verið er að fara yfir mál, þ.e. fáum sem skýrast fram hvert ástandið er og hvar brýnast er að leita úrbóta. Ég held að þessi eftirlitsþáttur, eins og reyndar á öllum sviðum sem varðar að framfylgja samþykktum, sé mjög þýðingarmikill í þessu máli.

Undir það hefur verið tekið af Hollustuvernd ríkisins sem á að framfylgja ásamt fleirum ákvæðum settra fyrirmæla í þessum efnum. Talið er að heildarúttekt þurfi að gera á hávaða á Íslandi og það megi telja víst að hér búi margir við hávaða sem er langt yfir settum viðmiðunarmörkum. Það er að fá þetta leitt í ljós sem er efni málsins sem hér er flutt. Í fylgiskjali eru dregnar fram helstu reglur sem gilda um hávaðamengun samkvæmt íslenskum rétti og þar kemur fram að þessi ákvæði eru víða í lögum og reglum og að mínu viti væri til bóta að sett væri heildarlöggjöf sem drægi þetta fram. Hún þyrfti kannski ekki að fela í sér ný fyrirmæli í svo ríkum mæli, heldur að það yrði litið á þetta sem heildstætt mál og reynt að draga það fram í einni löggjöf sem nú er að finna í mörgum lögum og mörgum reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Slík endurvinnsla, ef svo má segja, á löggjöfinni gæti orðið til þess að auðvelda þeim sem við eiga að fást að átta sig á hvaða úrræði eru tiltæk, en það er ekki efni þessarar tillögu. Þó má vera, ef úttektin leiðir einnig í ljós að fyrirmæli skorti, að ástæða sé til þess að taka þann þráð upp á nýjan leik.