Úttekt á hávaða- og hljóðmengun

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 17:05:55 (1380)

1995-11-28 17:05:55# 120. lþ. 42.10 fundur 133. mál: #A úttekt á hávaða- og hljóðmengun# þál., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[17:05]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má rétt vera og ég er ekkert að draga í efa að það liggi fyrir upplýsingar um stöðu mála hjá einstökum heilbrigðisnefndum að vissu marki. En þó held ég af ummælum Hollustuverndar sem á að sjá um þetta og tekur eindregið undir að gera þurfi úttekt, að nokkuð skorti á. Og ég er sannfærður um að misjafnlega háttar til í sveitarfélögum, enda ólíku saman að jafna í 100 þúsund manna borginni Reykjavík og á Mjóafirði eystra, svo dæmi séu tekin. Ég vil ekki segja að vandamálin séu jafnrík á báðum stöðum í þessu sambandi, en aðstaða heilbrigðisnefnda á stöðunum er misjafnlega sterk. Hún er oft og tíðum erfið vegna nálægðar, vegna samþættingar hagsmuna. Mér er vel kunnugt um það í ýmsum efnum sem varða umhverfismál hversu þungt er undir fæti fyrir heilbrigðisnefndir sveitarfélaga í raun að nota þann rétt sem þær eiga lögum samkvæmt, jafnvel til að stöðva rekstur. Þær eiga ekki á vísan að róa með undirtektir kjörinna fulltrúa í þeim efnum. Oft er verið að tala um árekstur hagsmuna og alveg réttilega verið að lýsa inn í það samhengi. Ég held að það þyrfti að taka sveitarstjórnarvettvanginn þar aðeins til skoðunar líka. Ég er hræddur um að nálægðin á þeim vettvangi og hagsmunasamþættingin sé kannski meiri en víða annars staðar. Ég segi þetta ekki neinum til hnjóðs, heldur held ég að þetta sé staða mála.

Þar fyrir utan skortir á fyrirmæli. Mér er kunnugt um að það skortir á fyrirmæli varðandi vissa starfsemi þar sem ekki eru nein skráð fyrirmæli. Ég er ekki að segja að það skorti heimildir til að setja þau, en á þetta skortir. M.a. þar sem fólk kemur saman, á veitingastöðum t.d., þar sem menn eru aðallega komnir til þess að nærast en ekki til þess að láta hella yfir sig ómældum hávaða eða umfram það sem sæmilegt er.