Jarðalög

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 17:08:58 (1382)

1995-11-28 17:08:58# 120. lþ. 42.11 fundur 145. mál: #A jarðalög# (jarðasala, nýting jarða o.fl.) frv., Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[17:08]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Árið 1976 þegar gildandi jarðalög voru sett var ástandið í landbúnaðinum á Íslandi nokkuð öðruvísi en það er í dag. Það má segja að þá hafi landbúnaðurinn verið í talsvert miklum uppgangi og mikil aðsókn eftir jörðum, ekki síst eftir hlunnindajörðum. Þá voru sett jarðalög í því skyni að stemma stigu við frjálsum viðskiptum með bújarðir, torvelda það að jarðeignir gætu gengið kaupum og sölum eins og hverjar aðrar fasteignir og í því sambandi voru settar miklar girðingar við eðlilegum viðskiptum og m.a. komið á fót sérstökum nefndum, jarðanefndum, sem höfðu mikið um það að segja hvort eigandi jarðnæðis, bóndi, gæti selt eða jafnvel arfleitt börn sín að bújörðinni sem hann bjó á eða selt hana þeim sem hann helst kysi. Þó kastaði fyrst tólfunum þegar samþykkt var á Alþingi sl. vor sú breyting á lögunum að auk allra þeirra kvaða sem lagðar voru í veg fyrir frjáls viðskipti með bújarðir, þá var farið fram á að sá sem hygðist kaupa bújörð á Íslandi yrði að hafa búið á jörðinni sjálfri eða í næsta nágrenni hennar í heil tvö ár áður en kaupin gætu farið fram, jafnvel þótt öll önnur skilyrði í viðskiptunum yrðu uppfyllt. Þetta gerði það að verkum að bújarðir bænda hafa síðan verið nánast óseljanlegar. Allar þær kvaðir sem áður hafði verið búið að setja með jarðalögunum frá 1976 höfðu tvímælalaust rýrt geysimikið verðgildi bújarða og annarra fasteigna bænda, en með þessari samþykkt má segja að kastað hafi tólfunum því að eftir að þessi breyting var gerð á lögunum á sl. vori voru eignir bænda orðnar nánast óseljanlegar.

Það frv. sem hér er flutt er í þá veru að gera á þessu breytingar til bóta, þ.e. að fella niður þessi gríðarströngu skilyrði sem eru sett fyrir sölu bænda á bújörðum sínum og gera viðskiptin frjálsari, m.a. með því að takmarka verulega völd jarðanefnda sem hafa verið svo mikil í þessum viðskiptum að þeir hafa ekki einu sinni þurft að gera grein fyrir eða rökstyðja þá ákvörðun sína að heimila ekki bónda að selja jörð sína eða arfleiða börnin sín að henni eins og honum þóknast sjálfum. Jarðanefndir hafa getað komið í veg fyrir slík viðskipti með því einfaldlega að segja nei og hafa ekki einu sinni þurft að sinna þeirri eðlilegu skyldu, þessi þriggja manna nefnd með þetta mikla vald, að rökstyðja neitun sína þannig að sá aðili sem ekki sættir sig við þá afgreiðslu geti farið fyrir dómstóla og birt dómstólum hver voru rök þeirra aðila sem lögum samkvæmt hafa vald til þess að stöðva viðskipti af þessu tagi.

Frv. gengur sem sagt út á það að greiða fyrir viðskiptum með bújarðir og fasteignir bænda þannig að eðlileg markaðssjónarmið fái þar að ráða. Völd jarðanefndanna eru mjög takmörkuð frá því sem nú er, miðað við þær tillögur sem gerðar eru í frv., en þó geta sveitarfélög og jarðanefndir áfram hér eftir sem hingað til haft afskipti af sölu bújarða. Ef sveitarfélögin og jarðanefndirnar telja að áformuð sala sé í andstöðu við hagsmuni íbúa sveitarfélagsins, þá geta þessir aðilar komið í veg fyrir söluna, en geri þeir það þurfa þeir að rökstyðja ákvörðun sína og gera skriflega grein fyrir því af hverju sú ákvörðun er tekin. Og vissulega á þá sá aðili sem ákvörðunin bitnar á málskotsrétt til dómstóla.

Þá eru einnig ýmis ankannaleg atriði felld út úr gildandi lögum, svo sem það að jarðanefnd eða sveitarstjórn geti komið í veg fyrir að bóndi selji eign sína einhverjum aðila, A, sem nefndin eða sveitarstjórn samþykkir ekki og fellir sig ekki við. Samkvæmt gildandi lögum getur sveitarstjórn eða jarðanefnd fyrirskipað viðkomandi bónda að selja jarðeign sína einhverjum öðrum aðila, B, sem að áliti jarðanefndar og sveitarstjórnar uppfyllir öll tiltæk skilyrði. Sú breyting sem gerð er í þessu frv. er að leggja til að þetta sé afnumið þannig að sveitarstjórn eða jarðanefnd hafi ekki vald til þess, eins og í gildandi lögum, að skipa bónda sem á jörð eða fasteign og vill selja hana einhverjum tilteknum aðila að selja eign sína einhverjum öðrum tilteknum einstaklingi sem fellur þessum aðilum betur í geð. Sveitarstjórn og jarðanefnd verða þá að sýna fram á hvað það er, hvaða skilyrði það eru sem væntanlegur kaupandi uppfyllir ekki og gefa honum kost á að uppfylla þau skilyrði. Geti hann það ekki er það auðvitað í hendi eiganda bújarðarinnar að leita að nýjum kaupanda sem það gerir. Ég tel að jarðalögin eins og þau eru nú úr garði gerð brjóti í mörgum atriðum í bága við stjórnsýslulögin nýju, sem kveða m.a. svo á um að aðili sem á mál sitt undir opinberum úrskurðaraðilum eigi alltaf kröfu á því að fá skýrt og greinilega fram sett hver er afgreiðsla hins opinbera úrskurðaraðila og á hverju hún byggist. Jarðalögin gera ekki ráð fyrir því að aðili eigi svo einfaldan rétt sem hann á með stjórnsýslulögunum. Því er lagt til í frv. að tekin séu af öll tvímæli um að jarðalög falli undir stjórnarskipunarlögin nýju og þeir aðilar sem verða að sækja með sín mál til jarðanefnda eða sveitarstjórna samkvæmt jarðalögum eigi ávallt rétt á því að fá upplýsingar um ákvarðanir viðkomandi aðila og rökstuðning fyrir því.

[17:15]

Þá eru einnig ýmsar aðrar breytingar gerðar á gildandi lögum sem eru vægast sagt mjög undarleg. Ég er sannfærður um að ekki eru til margar lagasetningar af því tagi sem gildandi jarðalög eru því þar má segja að ríki einráður sá ,,kommúnismus marxismus`` sem ekki er lengur til í veröldinni. Og það er furðulegt að heil atvinnustétt á Íslandi skuli hafa sætt sig svona lengi við að gengið væri gegn hagsmunum hennar með jafn grimmilegum hætti af þeim sem með valdið fara á Íslandi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða tímanum í að rekja einstakar greinar eða skýra þær. Þær eru mjög vel skýrðar í athugasemdum. Meginefni málsins er að koma á eðlilegum samskiptareglum og viðskiptareglum um viðskipti, bújarðir og fasteignir bænda sem er langt í frá að núverandi jarðalög geri. Tilgangurinn er sá að auðvelda viðskipti með þessar eignir bænda og hækka þær í verði með því að gera viðskiptin eðlilegri og hindrunarlausari, en þær miklu hindranir sem verið hafa á þessum viðskiptum hafa gert bújarðir bænda nánast verðlausar. Þessi nýja stefna sem frv. boðar er að sjálfsögðu í samræmi við þær aðstæður sem nú ríkja í íslenskum landbúnaði. Það á að gera tilraun til þess að draga úr framleiðslu og fá bændur til að snúa sér í auknum mæli að annarri atvinnustarfsemi en hefðbundnum búskap með því að verja ærnu fé úr ríkissjóði til uppkaupa. En jafnvel þar eru jarðalögin þröskuldur í vegi, því að t.d. bóndi sem hyggst snúa sér að öðrum viðfangsefnum en hefðbundnum landbúnaði á bújörð sinni hefur ekki heimild til þess að gera það nema að fengnu leyfi sveitarstjórnar og jarðanefndar, en báðir þessir aðilar geta samkvæmt gildandi lögum bannað viðkomandi bónda slíka starfsemi án þess að þurfa að rökstyðja það bann með nokkrum hætti. Það er einfaldlega nóg að þessir aðilar segi nei til að koma í veg fyrir að bóndinn geti tekið upp aðra atvinnustarfsemi á búi sínu en hefðbundinn landbúnað.

Í gildandi jarðalögum er líka ákvæði um að allar jarðir sem nytjaðar voru til hefðbundins búskapar árið 1976 þegar lögin voru upphaflega sett skuli nýttar þannig til eilífðarnóns. Það þarf að fara margar og langar leiðir til að fá leyfi fyrir því að taka bújörð sem nýtt var til hefðbundins búskapar árið 1976 til annarra nota. Það er ekki nægilegt að eigandi jarðarinnar vilji það og hafi áhuga á því sjálfur heldur þarf hann að fá leyfi margra aðila til þess að svo verði gert. Þetta stangast að sjálfsögðu algerlega á við það sem stjórnvöld eru að gera nú þegar þau eru að reyna að fá þessa hina sömu bændur með umtalsverðum fjármunum úr ríkissjóði til að draga úr hefðbundnum landbúnaði, jafnvel leggja hann niður og snúa sér að öðrum viðfangsefnum. En samkvæmt jarðalögum, nr. 65 frá 31. maí 1976, er bændum raunverulega bannað þetta nema að fengnu leyfi fjölmargra opinberra aðila.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. en ítreka að með því er stefnt að því að viðskipti með bújarðir á Íslandi eða fasteignir bænda geti orðið eðlilegar og sem frjálsastar án þess þó að það sé með nokkrum hætti gengið á svig við hagsmuni íbúa sveitarfélaganna. Slík eðlileg viðskipti með bújarðir og fasteignir bænda gera það eitt að verkum að líklegra er að þeir fái eðlilegt verð fyrir eignir sínar. Það fá þeir ekki nú. Ég vænti þess að frv. sem er í fullri samhljóman við þá stefnu í landbúnaði sem menn eru nú a.m.k. að þykjast móta, fái framgang á hinu háa Alþingi.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.