Endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 17:21:08 (1383)

1995-11-28 17:21:08# 120. lþ. 42.12 fundur 167. mál: #A endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni# þál., Flm. DSigf
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[17:21]

Flm. (Drífa Sigfúsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni, en hv. alþm. Jón Kristjánsson og Siv Friðleifsdóttir eru meðflm. mínir. Með leyfi hæstv. forseta vil ég fá að lesa upp tillöguna ásamt greinargerð:

,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að láta endurskoða 234.--242. gr. í XXV. kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs.

Greinargerð. Gott mannorð er hverjum manni mikilvægt. Þeir sem hafa unnið sér virðingu samfélagsins geta þó án tilefnis verið sviptir henni. Höfundur Hávamála trúði því að sá sem ætti góðan orðstír gæti ekki glatað honum en í nútímasamfélagi er staðreyndin önnur. Á undanförnum árum hafa komið upp ýmis mál þar sem menn telja sig hafa verið sviptir ærunni að ósekju. Einkum er í þessu sambandi rætt um fjölmiðla og ekki síst svokallaða ,,slúðurdálka`` þeirra. Fjölmiðlar verða sífellt öflugri og ná til fleiri notenda. Með margmiðlun hafa opnast nýjar leiðir til tjáskipta sem nota má til góðra hluta og einnig til hins verra. Með einföldum hætti má t.d. koma upplýsingum um menn og málefni á framfæri við óteljandi aðila um allan heim. Upplýsingar, sem sendar eru t.d. sem fréttir, verða tæplega afturkallaðar. Veraldarvefurinn hefur opnað nýja möguleika sem hægt er að misnota eins og nýleg dæmi sanna. Að gefnu tilefni telja flm. því rétt að endurskoða meiðyrðalöggjöfina sem sett var fyrir 55 árum.

Fleiri hliðar eru á málinu og hafa fréttamenn oft vakið athygli á að lögin þurfi að endurskoða. Flutningsmenn telja rétt að virða einnig sjónarmið þeirra.``

Mat mitt er að ekki sé rétt að gefa sér fyrir fram niðurstöðu í langri greinargerð um það hvernig eigi að standa að þessari skoðun. Það eru rök með og á móti. Ég held að rétt sé að þeir sem málið varðar komi að þessari endurskoðun og vonast til að svo verði. Ég veit að áður hafa verið fluttar tillögur um endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni en ekki hefur orðið af því nema að hluta til, að því er ég best veit.

Herra forseti. Við eigum marga góða og vel upplýsta fréttamenn sem kjósa að segja hlutlaust frá mönnum og málefnum. Fjölmiðlar nútímans eru opnir fyrir almenningi til tjáskipta sem er af hinu góða. Beinar útsendingar hafa aukist og hægt er að fylgjast með atburðum um leið og þeir gerast. Prentfrelsi, rétturinn til að tjá sig, er einn mikilvægasti réttur íbúanna og grundvallarréttur í lýðræðissamfélagi. En frelsi er vandmeðfarið og það gildir einnig um völd.

Viljir þú kynnast innræti manns, þá fáðu honum völd, sagði gamall spekingur. En hvar eru mörkin milli tjáningarfrelsis og brots á friðhelgi einkalífs eða þegar vegið er að æru manns? Því er erfitt að svara. Hver og einn getur lent í því að eignast óvildarmenn sem misnota aðstöðu sína þannig að sannleikurinn standi á höfði. Með Internetinu hafa opnast nýir möguleikar fyrir almenning til tjáskipta. Við lifum á upplýsingaöld þar sem hraðinn er slíkur við upplýsingamiðlunina að hver sem er getur sent fréttir til tugi þúsunda fréttamiðla samtímis um allan heim á Internetinu. Þar hefur almenningur greiðan aðgang að miðli sem ekki nýtur leiðsagnar ritstjóra eða fréttastjóra sem þekkir þá ábyrgð sem felst í því að miðla upplýsingum.

Að undanförnu hefur sýnt sig að ekki eru allir meðvitaðir um þá ábyrgð. Í stjórnarskránni, 73. gr., með leyfi forseta, stendur:

,,Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.``

Þetta er meginhugsunin á bak við þá hugmynd sem ég set fram varðandi þessa endurskoðun. Ég tel að sjálfsögðu að allir eigi að bera ábyrgð á því sem þeir segja og finnst það eðlilegt, enda eru lögin ekki sett nema sem varnagli sem ætti ekki að þurfa að grípa til. Þó koma upp slík tilvik. Mig langar aðeins að nefna lagaákvæði sem fjalla um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Í 229. gr. er rætt um þann sem skýrir frá einkamálefnum annars manns án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi. Þetta orðalag er vissulega talsvert loðið og teygjanlegt. Hvenær telst vera næg ástæða? Auðvitað er það matsatriði og dómstólar skera úr slíku, en það er spurning hvort ekki megi e.t.v. hafa þetta skýrara.

Í 232. gr. er minnst á ásóknir eða röskun á friði manna og ofsóknir með bréfum og símhringingum. Þarna er ekki komin til tölvutæknin og margmiðlunin sem nú er. Það er e.t.v. ástæða til að skoða greinina með tilliti til þessarar nýju tækni og hvort það sem stendur í lögunum nái utan um hana. Ég er sjálf í vafa um það.

Síðar í 232. gr. er rætt um þá sem leggja aðra í einelti með vísvitandi ósönnum skýrslum. Mér finnst að e.t.v. mætti skoða það að til eru fleiri tegundir af einelti en eingöngu þær sem eru með skýrslum. Ýmsar greinar eru þarna góðar og að mörgu leyti er þessi löggjöf góð. Ekki ætla ég að halda öðru fram.

Greinar 234, 235 o.fl. eru mjög almennt orðaðar og ná sjálfsagt utan um flest sem upp kemur. Grein 237 vekur athygli og ef ég má, með leyfi forseta, vitna. Þar stendur:

,,Ef maður bregður manni brigslum án nokkurs tilefnis, þá varðar það sektum, þótt hann segi satt.``

Ég velti því fyrir mér hvort þarna sé um að ræða hömlur á rannsóknarfréttamenn og vek athygli á því að nýleg myndbirting á Internetinu sem fræg hefur orðið vekur líka upp spurningar. Þarna er sjálfsagt vandrataður meðalvegurinn.

Ýmsir aðrir hlutir eru þarna sem ég vil skoða. Sumt er mjög gott. Það er stundum mjög erfitt að koma við vörnum í ærumeiðingarmálum, t.d. þegar ráðist er á þá sem eru látnir. En löggjafinn tekur á því. Í 242. gr. er minnst á að opinberir starfsmenn eigi rétt á að höfðað sé mál fyrir þá ef að þeim er vegið vegna vinnu þeirra. Ekki ætla ég að segja til um hvort þeir eigi endilega að njóta þess umfram aðra, en ætla verður þó að þessar reglur gildi almennt á vinnumarkaðinum. Ekki veit ég hvort menn telja að dómar séu réttir, mildir eða strangir, en mér hefur heyrst að það fari eftir því hvoru megin borðs menn sitja. Hins vegar hefur ekki síst vakið athygli mína og annarra það sem hefur verið að gerast á Internetinu og sumir fjölmiðlar hafa fjallað um, t.d. Vikublaðið 24. nóvember. ,,Framsókn vill ritskoða`` segir í fyrirsögn. Það er rangt. Að endurskoða lög er ekki það sama og að ritskoða fréttir.

En það er athyglisvert að þegar sendar eru út á Internetið upplýsingar um stórfelldan fjárdrátt eins og segir í fyrirsögn fréttar í DV 18. nóvember, þá er raunverulega búið að dæma fólk áður en málið er komið til dómstóla. Ég er ekki að segja að það sé ekki hægt öðruvísi en á Internetinu. Það kann vel að vera að svo sé gert jafnvel í blöðum. En ég held samt sem áður að svolítill misskilningur sé í gangi í það minnsta ef maður skoðar málflutning þeirra sem fjalla um þetta mál á Internetinu síðustu daga. Þar virðist sú hugsun ríkja að lagt sé til að leysa tæknileg vandamál sem uppi eru á Internetinu. Svo er ekki. Internetið er mjög skemmtilegur miðill og býður upp á óþrjótandi möguleika. Þar getur maður leitað upplýsinga og fengið þær næstum samstundis. Ég held að í framtíðinni verði munurinn á þeim sem kunna að notfæra sér Internetið jafnvel sá hinn sami og var áður á þeim sem voru læsir og ólæsir. Þetta er mjög mikilvægt tjáningarform, upplýsingamiðill og getur hjálpað fólki um ákaflega marga þætti.

Tæknilega eru miklir örðugleikar við að halda utan um þessi mál. Mér skilst að allir eða flestallir í Háskóla Íslands hafi aðgang að Internetinu. Þar eru að vísu kerfisstjórar sem reyna að fylgjast með ef eitthvað sérstakt kemur upp og taka á þeim vandamálum. Eftir því sem ég best veit fá nemendur upplýsingar um að þeim beri að gæta sín og viðhafa ákveðið rétt siðferði en það er sjálfsagt erfitt að fylgjast með því.

[17:30]

Í sumum löndum bera þeir ábyrgðina sem veita aðgang að Internetinu. Það er nokkuð sem ekki hefur verið skoðað hér á landi, en þó veit ég að verið er að semja einhverjar siðareglur. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvernig við getum náð utan um það, til dæmis er kaffistofa hér í borg þar sem menn geta sest niður og unnið á Internetinu eða komið þar á framfæri hinu og þessu. Auk þess veit ég um fyrirtæki erlendis sem taka við upplýsingum. Maður getur látið geyma þær í nokkra klukkutíma. Þetta sama fyrirtæki strokar út úr skrám nafn sendanda og hvaðan upplýsingarnar eru komnar og sendir þær nokkrum klukkutímum síðar á annan áfangastað. Miðað við þessi fyrirtæki úti í heimi sýnist mér að það geti verið næsta erfitt fyrir nokkurn mann að ná utan um þetta. Engu að síður tel ég að það þurfi að ná utan um þetta þegar vitað er hver skaðanum veldur. Hvað löggjafann varðar ætti ekki að vera síður saknæmt að brjóta þannig af sér á Internetinu, ef upp kemst. Það held ég að sé meginatriði. Ég veit þó að tæknilegir örðugleikar eru allmiklir og það verður að gæta þess að rangur aðili verði ekki sakfelldur. Ætlunin með þessari umræðu og þessari tillögu var ekki að leysa nein slík mál og auðvitað veit ég að lög breyta því ekki að alltaf má brjóta þau. En þau eru hins vegar ekki sett vegna góðu þegnanna heldur frekar hinna sem ekki fara rétt að. Spurningin um opinbera persónu eða ekki er kannski mikilvægt atriði. Það má líta hana ýmsum augum. Þingmenn eða þeir sem eru í pólitík eru t.d. opinberar persónur og verða e.t.v. að þola harðari umfjöllun en aðrir. Það hefur verið rætt hér um það hvort sönnunarbyrðin eigi að vera sú sama og hún er hér eða hvort hún eigi að vera á hinn veginn, eins og mér skilst að hún sé í Bandaríkjunum. Þetta er spurningin. Það eru ýmis grá svæði varðandi einkalíf fólks og friðhelgi þess. Hvenær er t.d. komið inn á friðhelgi einkalífs? Æra fólks er mjög mikilvæg. Ef við vinnum okkur inn peninga og einhver stelur þeim frá okkur er það saknæmt og fyrir það er refsað. Á sama hátt vinnum við okkur inn æru og mannvirðingu og auðvitað verður að vera hægt að bregðast við árás á slíkt. Í verstu tilvikum má jafnvel tala um mannorðsþjófnað eða mannorðsmorð.

Þann 23 sl. var skýrt frá því í Financial Times að samgönguráðuneytið í Bandaríkjunum hafi sektað flugfélag fyrir að gefa upp rangar upplýsingar á Internetinu. Umfjöllun um Internetið eykst stöðugt og á þessum málum hlýtur að verða tekið, þó svo að mín ætlun hafi ekki verið að við tækjum á þessum tæknilegu málum. Engu að síður tel ég mikilvægt vegna þeirrar umræðu sem hefur orðið hér að undanförnu reynt sé að skoða hvort það sé möguleiki að ná utan um hluta af þessu, þótt ég viti að tæknilegi hlutinn er allverulegur.

Að lokum, herra forseti, legg ég til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn.