Endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 17:34:23 (1384)

1995-11-28 17:34:23# 120. lþ. 42.12 fundur 167. mál: #A endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[17:34]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. flutningsmönnum fyrir að flytja þessa tillögu og koma þessu máli hér á dagskrá. Það hefur reyndar oft verið á dagskrá áður. Við alþýðubandalagsmenn höfum flutt tillögur um endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni á hverju einasta þingi núna um árabil. Og reyndar varð okkur talsvert ágengt á síðasta þingi þegar við fengum breytt vissum ákvæðum varðandi sérstaka æruvernd opinberra starfsmanna í framhaldi af málarekstri Þorgeirs Þorgeirssonar. Og sömuleiðis tókst að lokum á síðasta þingi ágæt samstaða um breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, m.a. því ákvæði sem fjallar um tjáningarfrelsi og málfrelsi. Ég tel ástæðu til að rifja það upp að um þetta mál urðu ansi miklar umræður og m.a. var fjöldinn allur af rithöfundum og öðrum aðilum í þjóðfélaginu sem töldu að upphaflegar hugmyndir stjórnarskrárnefndar væru of tæpar, þrengjandi fyrir málfrelsið og þar með lýðræðið í landinu. Að lokum má segja að það hafi verið tekið tillit til þeirra sjónarmiða með því að þessari grein stjórnarskrárfrv. var breytt frá upphaflegri mynd og niðurstaðan birtist í stjórnarskránni eins og menn þekkja hana núna.

Þar segir, með leyfi forseta, í 73. gr.:

,,Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum``.

Þessi stjórnarskrárbreyting var samþykkt hér samhljóða á Alþingi eftir mjög miklar umræður og þær voru mjög gagnlegar vegna þess að lokum vissu menn, svona nokkurn veginn held ég, hvað þeir voru að samþykkja eða hverju þeir vildu breyta. Það sem er hins vegar nauðsynlegt að líta á í þessu sambandi er að það er alltaf hætta á því þegar fólk flytur mál af því tagi sem hér er uppi að menn lendi í því að tala fyrir málinu með þeim hætti að maður gæti ímyndað sér að fólk vildi þrengja málfrelsið, tjáningarfrelsið og þar með lýðræðið. Ég er sannfærður um að hv. 1. flm. hefur engan áhuga á því en ég nefni þetta af marggefnu tilefni vegna þess að aftur og aftur hefur það í raun og veru verið þannig að þeir sem hafa verið að flytja mál hér af þessu tagi í þinginu, hafa komið þeim megin að málinu. Sem sagt þeim megin að þeir vilji vernda tiltekna aðila fyrir tiltekinni umræðu, árásum eða t.d. börn fyrir ofbeldiskvikmyndum sem er skyldur málaflokkur. Þetta er auðvitað hlutur sem við höfum aftur og aftur velt fyrir okkur hér í þessari stofnun, hvernig það geti í raun og veru samrýmst að tryggja eðlilegt tjáningar- og málfrelsi og þar með lýðræðið í landinu án þess að það verði til þess að meiða æru fólks eða með öðrum hætti að valda því erfiðleikum umfram það sem brýnasta nauðsyn krefst.

Í því sambandi minnist ég umræðu sem var í menntmn. á síðasta þingi um breytingar á lögum um bann við ofbeldiskvikmyndum. Þá komu upp hugmyndir um það að hér væri mikið af tölvuleikjum, börn væru að leika sér með tölvuleiki sem grundvallast á ofbeldi og ég geri ráð fyrir því að einhverjir hér í salnum hafi jafnvel séð slíka tölvuleiki sem eru hræðilegir. Niðurstaða okkar var sú að við réðum ekki við þetta. Við hefðum ekki tækni til að taka á þessu. Ég held að það sé veruleikinn sem við þurfum að gera okkur grein fyrir t.d. í sambandi við Alnetið, veraldarvefinn. Við ráðum ekki yfir því máli vegna þess að hver einasti maður getur keypt sér heimasíðu. Það kostar 60--70 þús. ef menn versla við Miðheima, sem hæstv. menntmrh. gerir eins og heimsfrægt er orðið. Frá þessari heimasíðu geta menn svo sem sent allt milli himins og jarðar eins og menn þekkja líka sem hafa lesið sendingarnar frá hæstv. menntmrh. sem eru afskaplega athyglisverðir textar svo ekki sé meira sagt og sýna hvað er lítið að gera í menntmrn. En látum það nú vera.

Þessi veruleiki er með öðrum orðum svona. Það er mjög erfitt að taka á þessu máli. Hvað á þá að gera? Ég tel að það eigi ekki að fara í málið út frá bannhliðinni. Ég held að það borgi sig ekki. Það endar alltaf með því að það verður einhver maður sem getur tekið geðþóttaákvörðun um þetta eða hitt, birtingu efnis í blaði eða á Alnetinu eða í ljósvakamiðli eða hvar það nú er. Við eigum ekki að fara þeim megin í málið. Ég held að við eigum hins vegar að reyna að stuðla að almennri ábyrgð í þessu efni. Það mætti t.d. hugsa sér að það yrðu settar einhverjar almennar reglur, t.d. á grundvelli alþjóðasamninga um Alnetið og ábyrgð þeirra sem þar stýra einhverju, hvort sem það er ein lítil heimasíða eða hvort að það er eitt fyrirtæki sem situr uppi með mikið af upplýsingum. Það er augljóst mál að ef eitthvert fyrirtæki gerist sekt um að senda frá sér sóðaefni af einhverju tagi, þá dæmir það sig sjálft þar með úr leik. Þannig held ég að það séu einhverjar slíkar almennar nálganir sem við eigum að velta fyrir okkur í þessu sambandi. Við eigum að hvetja til varkárni með öðrum orðum, hæstv. forseti, en ekki til ritskoðunar.

Þá ætla ég að koma að stjórnarskránni aftur og segja það: Það sem liggur eftir hér í þessari stofnun er að setja lög um tjáningarfrelsi, um prentfrelsi og um málfrelsi. Það stendur í stjórnarskránni. En það eru engin lög til um það hvernig er eðlilegt að taka á þessum hlutum. Það á Alþingi að gera. Dómsmrn. hefur hins vegar vanrækt þessi mál um árabil, áratuga skeið, og frá nefnd sem á að vera að endurskoða hegningarlögin kemur í raun og veru ekki neitt í þessu efni. Við sum þekkjum það að hafa verið borin þungum sökum á grundvelli meiðyrðalaganna, m.a. sá sem hér stendur, sennilega dæmdari en flestir aðrir núlifandi menn fyrir þá hluti, í Hæstarétti. Auðvitað má nefna menn frá fyrri tíð með miklu fleiri og glæsilegri dóma í þeim efnum, eins og Björn Jónsson. Ég held að hann sé methafi sögunnar. En allt um það, þá eru þessi ákvæði vitlaus og ég er sammála hv. flm. um það. En ég vil ekki fara þannig í hlutina að það megi líta á það sem tilhneigingu til ritskoðunar eða þess að yfirvöld séu svo að segja með alsjáandi auga yfir hverjum mannanna hræringum í þessu sambandi.