Réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 18:19:44 (1392)

1995-11-28 18:19:44# 120. lþ. 42.13 fundur 168. mál: #A réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[18:19]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu mál sem hefur áður komið fram í sölum þingsins og vakin hefur verið athygli á. Það verður einnig rætt hér á eftir í næsta máli þannig að ljóst er að þetta er nokkuð ofarlega á baugi. Þingmenn hafa veitt þessum málum athygli og talið þörf á að gera úrbætur frá því ástandi sem er. Ég vil ekki draga úr því sem er meginefni þessarar þáltill. að löggjöf um réttindi og skyldur þeirra sem gangast í ábyrgð fyrir aðra séu skýr, að það sé skýrt í lögum hver réttindi ábyrgðarmanna eru og til hvaða hluta þau réttindi ná, upplýsinga eða annarra hluta. Mestu máli skiptir þó að skýrt sé hver takmörk ábyrgðarinnar eru. Það virðist ekki ævinlega ljóst hvenær ábyrgðin endar.

Í meginatriðum hlýtur málið að vera þannig vaxið að ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð fyrir tiltekinni upphæð, að hún verði greidd samkvæmt tilteknum skilmálum sem settir eru í lánsskjali. Síðan geta hlutir breyst. Fjárhæð getur vaxið, henni kann að verða skuldbreytt o.s.frv. og breytingar á skilmálum skuldarinnar geta vakið spurningar um gildi ábyrgðarinnar.

Hins vegar vil ég ítreka, og mér finnst það kannski meginmál sem menn gefa of lítinn gaum, að sá sem gerist ábyrgðarmaður geri það vitandi vits og auðvitað á hann að bera ábyrgð á undirskrift sinni. Það er meginkjarninn í öllum þessum málum. Mér finnst menn oft ræða þessa hluti af nokkrum misskilningi. Umræðurnar ganga oft út á það að firra ábyrgðarmanninn ábyrgð á sinni eigin undirskrift og breyta löggjöf til að draga úr þeirri ábyrgð.

Í meginatriðum eru mál þannig vaxin að þegar menn gerast ábyrgðarmenn, vita þeir hvað því fylgir. Þeir hafa gert það fúsir og af frjálsum vilja, enginn hefur þvingað þá til þess. Þeim er í sjálfs vald sett að neita því að ganga í ábyrgð. Ég get því ekki tekið undir allt það sem ég hef heyrt um þessi mál sagt, bæði hér og annars staðar. Mér finnst það oft byggt á því að það eigi að stuðla að því að menn skrifi undir, en þeir geti síðan forðast ábyrgðina þegar á reynir.

Ég get t.d. ekki tekið undir það sem segir hér í greinargerð þessarar þáltill., að kvartanir í málum þar sem skuldari fær lán sem er hærra en skuldarinn er fær um að ráða við miðað við óbreyttar aðstæður, sé ástæða sem firrir ábyrgðarmanninn ábyrgð. Hann veit um hana þegar hann gerist ábyrgðarmaður. Viti hann ekki um hana, er það vegna þess að hann hefur ekki kært sig um það. Hann hefur ekki aðgætt slíkt áður en hann gerðist ábyrgðarmaður. Auðvitað ber honum að gera það. Hann velur það sjálfur hvort hann gerist ábyrgðarmaður eða ekki og setur þá skilmála fyrir sinni undirskrift sem honum sýnist. Hverjum og einum sem gerist ábyrgðarmaður er frjálst að gera kröfur til upplýsinga eða annarra skilmála sem hann telur sig þurfa á að halda svo hann treysti sér til þess að gerast ábyrgðarmaður. Ég lít því ekki á þessa athugasemd í greinargerð sem rök fyrir því að það þurfi að breyta lögum í þessu efni, nema lögin séu að einhverju leyti áberandi ósanngjörn. En það hefur ekki komið fram.

Annað atriði sem líka er umhugsunarefni er dæmi um mál þar sem aðstæður skuldara hafa breyst, svo sem vegna veikinda eða atvinnuleysis og ég spyr: Hvers vegna er þetta nefnt í greinargerð? Þýðir þetta af hálfu flm. að ábyrgðin falli úr gildi ef aðstæður skuldara breytast? Getur maður sem gerst hefur ábyrgðarmaður að skuld verið laus undan ábyrgðinni ef skuldarinn veikist? Er það meiningin á bak við að nefna þetta atriði? Eða hvert er samhengið við málið?

Allir sem gerast ábyrgðarmenn vita, svo ég komi nú aftur að því, að aðstæður þeirra sem eiga að borga skuldina geta breyst á lánstímanum. Hafi menn gengið að því og gerst ábyrgðarmenn þrátt fyrir þetta, þá hafa menn auðvitað gengið að þeim skilmálum.

Virðulegi forseti. Mér finnst áríðandi að þessar ábendingar komi fram. Þótt ég taki undir það að réttindi og skyldur eiga að vera skýr í löggjöf, finnst mér umræðan vera um of í þá áttina að draga úr því að sá sem gerist ábyrgðarmaður hljóti ævinlega að bera ábyrgð og á að gera það. Ef hann vill það ekki, þá á hann ekki að gerast ábyrgðarmaður og hann hefur valið.