Réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 18:26:17 (1393)

1995-11-28 18:26:17# 120. lþ. 42.13 fundur 168. mál: #A réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga# þál., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[18:26]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að víkja að því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði. Að sjálfsögðu ber þeim manni sem skrifar undir ábyrgð og tekur á sig sjálfskuldarábyrgð að vita hvað hann er að gera. Ég er alveg sammála því og það var ekki það sem ég var að taka undir varðandi þessa tillögu. Ég er fyrst og fremst að ræða um að herða á ábyrgð banka til að upplýsa ábyrgðaraðila um skyldur þær sem ábyrgð fylgja, þótt honum eigi að vera þær ljósar. Fyrst og fremst verður ábyrgðaraðila að vera vel kunnugt um fjárhag þess sem bankinn er að lána. Það er það sem málið snýst um. Ég held að ærið oft sé það svo að ábyrgðarmanni er ekki ljós fjárhagsstaða þess sem hann gengur í ábyrgð fyrir. Þess vegna ber kannski að herða upplýsingaskyldu banka þannig að ábyrgðarmönnum sé betur ljóst um hvað málið snýst.

Ég endurtek að ég held að oft og tíðum hafi bankar haft meiri áhuga á ábyrgðarmanni en lántakanda.