Réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 18:28:06 (1394)

1995-11-28 18:28:06# 120. lþ. 42.13 fundur 168. mál: #A réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[18:28]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki verið sammála því sjónarmiði að það eigi að færa ábyrgðina á því að ábyrgðarmaður viti að hverju hann gengur yfir á bankann. Við getum ekki sett í löggjöf að bankinn eigi að bera ábyrgð á því að ég fái upplýsingar sem ég á að hafa rænu á að biðja um. Það er ekki hægt. Ábyrgðarmaðurinn verður að bera þá ábyrgð sjálfur. Löggjöf hlýtur að eiga að vera til þess að tryggja að hann geti fengið þær upplýsingar sem hann telur sig þörf á að vita, ef menn á annað borð vilja setja eitthvað í löggjöf um samskipti ábyrgðarmanna og þeirra sem biðja um ábyrgð. Ég er hins vegar ekki einu sinni viss um að það þurfi löggjöf um það, auðvitað ræður ábyrgðarmaðurinn því hvað hann gerir. Ef honum líst ekki á skuldarann eða líkar ekki upplýsingarnar sem hann fær, samþykkir hann ekki að gerast ábyrgðarmaður.