Réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 18:29:18 (1395)

1995-11-28 18:29:18# 120. lþ. 42.13 fundur 168. mál: #A réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga# þál., Flm. DSigf (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[18:29]

Flm. (Drífa Sigfúsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemd við orð hv. 5. þm. Vestf., þar virðist um einhvern misskilning að ræða. Í mínum huga er alls ekki verið að firra ábyrgðarmenn þeirri ábyrgð sem þeir hafa tekist á hendur. Ég tel þó að það komi í undantekningartilfellum til greina og tel rétt að löggjafinn skoði hvað gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndum. Þar sem löggjöf Norðurlandanna er allvel samræmanleg tel ég að ýmislegt sem framkvæmt er þar sé framkvæmanlegt hér.

[18:30]

Ég tel eðlilegt að sett verði skýr ákvæði í lög. Þau eru óskýr. Það eru sífellt að koma kvartanir. Þannig er mál með vexti að til mín sem bæjarfulltrúa leita margir sem eiga um sárt að binda. Þeir hafa skrifað upp á án þess að fá upplýsingar um það hve alvarleg staðan væri hjá þeim sem væru að biðja um uppáskrift. Þeir fengu rangar upplýsingar þrátt fyrir að hafa leitað eftir upplýsingum. Mér finnst líka sorglegt þegar börn koma til foreldra og biðja þau að skrifa upp á en foreldrarnir sem hafa stritað alla sína ævi til að eignast hús og missa það síðan vegna þess að þau hafa ekki fengið réttar upplýsingar. Þeir telja að málið hafi verið í góðum farvegi. Það er til þess að fyrirbyggja slíka hluti fyrst og fremst sem þetta er sett. Þannig er mál með vexti að ég hef einnig starfað í stjórn Neytendasamtakanna og sem formaður Neytendafélags Suðurnesja um alllangt skeið. Þar voru þessi mál alloft uppi á borðinu. En á þessu eru tvær hliðar. Ég þekki líka hina hliðina sem stjórnarmaður í sparisjóði þannig að ég er alveg sannfærð um að þegar upp er staðið eiga lánastofnanir eftir að njóta góðs af því að betri upplýsingar verði veittar. Ég tel að við séum að vernda rétt bæði þeirra sem eru að taka lánin og hinna sem veita þau. Við munum draga úr neyslulánum sem eru hvorki arðbær fyrir lánastofnanir né þá sem taka þau. En með núverandi löggjöf erum við að stuðla að því að fólk taki meiri lán en lánstraust þess býður upp á. Það er þessi krafa um upplýsingar og krafa um ábyrgð. Hér er talað um frv. til laga um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna. Ekki á annan veginn, ég endurtek, heldur í báðar áttir. Og síðan ætla ég að benda hv. 5. þm. Vestfjarða á að ekki er fjallað um veikindi í þessari grg. Það var í ræðu eftir að ég hafði kynnt greinargerðina og lýst því yfir að tilvitnun lyki.

(Forseti (GÁS): Ég vil enn og aftur minna hv. þm. á þau tímamörk sem hér gilda. Þegar rauða ljósið blikkar er tímanum lokið.)