Lánsviðskipti, réttindi og skyldur ábyrgðarmanna o.fl.

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 18:40:58 (1400)

1995-11-28 18:40:58# 120. lþ. 42.14 fundur 172. mál: #A lánsviðskipti, réttindi og skyldur ábyrgðarmanna o.fl.# frv., Flm. KH
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[18:40]

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Hér er um að ræða eins konar framhaldsumræðu af því þingmáli sem var hér áðan. Ekki er þó um tillögu um frv. að ræða heldur frv. um hið sama mál. Vona ég nú að allir hinir mörgu áhugamenn um málið heyri vel og kynni sér frv. sem er á þskj. 215 og er 172. mál þessa þings. Þetta er frv. til laga um grundvöll lánsviðskipta, réttindi og skyldur ábyrgðarmanna o.fl. Auk mín flytja frv. hv. þingkonur Guðný Guðbjörnsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir og það er nú flutt eins og kemur fram í grg. í þriðja sinn á Alþingi þar sem það var ekki útrætt í hin tvö skiptin enda þótt flestir sem um það fjölluðu væru sammála um mikilvægi þess að taka á þeim vanda sem hér um ræðir. Þingkonur Kvennalistans fluttu þetta frv. undir forustu Önnu Ólafsdóttur Björnsson, þáv. þingkonu, og töldu sig hafa ástæðu til að ætla að á málinu yrði tekið með einhverjum hætti. Það álit byggðist á þeim viðtökum sem þingmálið fékk á sínum tíma. Svo virðist hins vegar sem þetta mál hafi gjörsamlega legið í láginni allar götur síðan skilið var við það árið 1992 en nú hefur það gerst að þrír hv. þm. Framsfl., Drífa Sigfúsdóttir, Magnús Stefánsson og Ísólfur Gylfi Pálmason, leggja til á þskj. 210 að Alþingi feli viðskrh. að skipa nefnd til að semja frv. til laga um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga. Fyrsti flm. hefur nú þegar mælt fyrir því.

Sú staðreynd að hv. þm. eru allir stjórnarþingmenn staðfestir kannski enn frekar að ekkert hafi verið unnið að málinu. Hitt er jafnaugljóst að hv. flm. hafa ekki vitað af frv. þingkvenna Kvennalistans, annars hlyti það að hafa verið nefnt í grg. En úr því að tillagan kom fram þótti okkur ástæða til að flytja frv. enn einu sinni svo að þær lausnir sem þar eru lagðar til kæmu til umfjöllunar og álita jafnhliða hinu þingmálinu.

Mörg okkar þekkja sjálfsagt persónulega eða af afspurn dæmi um slæma reynslu af ríkjandi fyrirkomulagi varðandi ábyrgðir vegna fjárskuldbindinga. Þau eru misjafnlega slæm en því miður mörg mjög alvarleg. Oftast er líklega um að ræða tilvik þar sem menn telja sig knúna til þeirrar greiðasemi að skrifa upp á víxla eða aðrar fjárskuldbindingar fyrir vini eða ættingja í þeirri trú og von að lántakandi sé borgunarmaður þegar að skuldadögum kemur. Það er ekkert einsdæmi að slík greiðasemi kosti ábyrgðarmann bæði fjármuni og eignir og jafnvel aleiguna. Ég ætla nú ekki að segja neinar hryllingssögur hér, flestir þekkja eina eða fleiri af slíku tagi, en eitt dæmi væri í raun alveg nægileg ástæða til að reyna með lagasetningu að girða fyrir fleiri slík. Það er afskaplega hryggilegt þegar lántakandi lendir í þeirri ógæfu að vera ekki, sjálfsagt af ýmsum ástæðum, borgunarmaður fyrir skuldum sínum en það er að mínu mati enn þá hryggilegra þegar annar en sá sem til skuldanna stofnaði geldur greiðvikni sinnar á afdrifaríkan hátt.

Það var meginniðurstaða okkar kvennalistakvenna, þegar við ákváðum að reyna að taka á málinu, að lánveitanda bæri að axla meiri ábyrgð en honum er nú ætlað. Lánveitandi, hvort sem um er að ræða banka, sparisjóði eða aðrar lánastofnanir, er miklu betur í stakk búinn að taka þá áhættu sem felst í viðskiptum af þessu tagi en einhver þriðji aðili sem hvorki hefur nándar nærri sambærilegt fjárhagslegt bolmagn né neitt svipaða stöðu til að kanna grundvöll lánsviðskipta eins og viðkomandi lánastofnun.

[18:45]

Í frv. leggjum við því áherslu á þá meginreglu að öll lánsviðskipti byggist á gagnkvæmu trausti lántakanda og lánveitanda. Við teljum eðlilegt að við lántöku sé greiðslugeta lántakanda metin og gerð greiðsluáætlun sem verði grundvöllur viðskiptatrausts hans. Eins og nú háttar er í flestum lánsviðskiptum tíðkað að krefjast trygginga fyrir skilvísum greiðslum lántakenda og algengt er að lántakandi leggi sjálfur fram tryggingu, t.d. með veði í fasteign sinni. Hitt er ekki síður algengt að krafist sé sjálfskuldarábyrgðar eins eða tveggja manna á greiðslum lántakanda sem hann verður að útvega sjálfur og leitar sjálfsagt oftar en ekki til ættingja. Einnig er algengt að lántakandi fái lánað veð í eigu annars manns til tryggingar fyrir greiðslum, sérstaklega í tengslum við fasteignakaup og margir sem þannig veita ábyrgð sína á endurgreiðslum af lánum annarra gera sér því miður engan veginn grein fyrir því hvert eðli og umfang slíkrar ábyrgðar er. Ef til hennar þarf síðan að taka ábyrgist sjálfskuldarábyrgðarmaður greiðslur lántakanda með öllum eigum sínum en sá sem hefur lánað fasteignaveð leggur viðkomandi fasteign undir. Ef lántakandi getur ekki staðið í skilum og ábyrgðarmaður getur ekki greitt skuldir hans missir ábyrgðarmaður eigur sínar í hlutfalli við skuldirnar, því miður oft allt sitt.

Gjaldþrot hafa verið mörg á undanförnum árum og eru enn og sífellt fleiri ábyrgðarmenn hafa orðið að standa við ábyrgðir sínar, oft með þeim afleiðingum að ábyrgðarmaður hefur líka orðið gjaldþrota. Við skulum ekki gleyma því að gjaldþrot hafa ekki aðeins viðskiptalega hlið heldur ekki síður tilfinningalega og félagslega því að oft gerist það að heimili gjaldþrota einstaklinga leysast hreinlega upp.

Með frv. er gengið út frá þeirri meginreglu að lántakandi ábyrgist sjálfur skilvísar endurgreiðslur sínar og geri sér grein fyrir lánshæfni með gerð greiðsluáætlunar. Frv. er einnig ætlað að vekja athygli á stöðu ábyrgðarmanna og tryggja lágmarksréttindi þeirra til upplýsinga um aðstæður í málinu. Frv. er óbreytt frá því að það var síðast lagt fram á 115. löggjafarþingi 1991--1992 þrátt fyrir athugasemdir og ábendingar, m.a. frá Seðlabanka Íslands, sem komu fram við umfjöllun í nefnd. Sú umsögn og reyndar fleiri eru vitanlega til í fórum nefndadeildar Alþingis og hægt að kynna sér þær þar. Í heildina litast umsögn Seðlabanka kannski skiljanlega af hagsmunum bankakerfisins þótt jafnframt sé þar fallist á að í frv. felist neytendavernd sem getur talist eðlileg eins og það er orðað. Reyndar má segja að sumar athugasemdir Seðlabankans séu nokkuð sérkennilegar. Mig langar til að vitna í einn stað umsagnarinnar þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Ætla má að nokkuð þætti tafsöm afgreiðsla lána í bönkum og sparisjóðum ef gera á að skyldu að gerð sé greiðsluáætlun fyrir hvern lántaka og greiðslugeta hans metin. Væntanlega þyrfti að ráða fjölda nýrra starfskrafta til þess að annast þessi störf sem leitt gætu til kröfu um rýmri vaxtamun og hærri vexti innlánsstofnana vegna aukins rekstrarkostnaðar. Einnig má benda á að mikilvæg þjónusta banka við almenning felst í lánum sem afgreiða þarf fljótt.``

Þarna finnst mér langt til seilst og t.d. hafa bankar áreiðanlega lagt út í annað eins til þess að bæta starfsemi sína og þjónustu við neytendur. Ég hefði raunar talið og tel slíkt greiðslumat einfaldlega sjálfsagðan þátt í starfsemi lánastofnana og finnst fráleitt að líta á þau sem aukinn rekstrarkostnað. Ég held þvert á móti að slíkt greiðslumat og áætlanagerð mundi leiða til meiri hagkvæmni og sparnaðar vegna þess fyrirbyggjandi þáttar sem felst í slíku.

Mig langar til að benda á eitt atriði í frv. sem felst í 6. gr. þess. Það er kvennapólitískt atriði þar sem segir í seinni mgr. að sé ábyrgðarmaður í hjúskap eða óvígðri sambúð geti hann ekki gengist undir ábyrgð án samþykkis maka eða sambýlings. Að öðru leyti ætla ég ekki að fara nánar í einstakar greinar þessa frv. né skýringar með þeim en vænti að það fái vandaða umfjöllun jafnhliða þeirri þáltill. sem mælt var fyrir áðan. Ég legg áherslu á að ekki einasta verði leitað umsagna hjá lánastofnunum heldur ekki síður hjá t.d. Neytendasamtökunum og fleiri aðilum sem hafa með að gera málefni þeirra sem eiga viðskipti við lánastofnanir því að þetta er fyrst og fremst neytendamál.

Herra forseti. Að lokinni umræðu um frv. legg ég til að því verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.