Lánsviðskipti, réttindi og skyldur ábyrgðarmanna o.fl.

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 18:53:26 (1401)

1995-11-28 18:53:26# 120. lþ. 42.14 fundur 172. mál: #A lánsviðskipti, réttindi og skyldur ábyrgðarmanna o.fl.# frv., DSigf
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[18:53]

Drífa Sigfúsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það frv. til laga sem hér er flutt. Ég sé að allmikil vinna hefur verið lögð í að skoða þessi mál. Hér eru settar fram mjög margar góðar hugmyndir og ég get tekið undir efni frv. enda ber það saman við þá þáltill. sem ég kynnti áðan. Hv. 5. þm. Vesturl. kynnti einnig að hann hafi flutt á sínum tíma þáltill. um sama efni þannig að ljóst er að þingmenn hafa verulega mikinn áhuga á því að sett verði ítarlegri og betri löggjöf í þessum efnum. Ég vona svo sannarlega að það verði niðurstaðan fyrir neytendur og fyrir fjölskyldur landsins og ég ætla að taka undir það sem 1. flm., hv. 12. þm. Reykn., sagði um greiðslumat. Ég tel að það hafi náðst áfangasigur, m.a. með láni hjá Húsnæðisstofnun þar sem greiðslumat fer fram og í félagslega íbúðakerfinu, en mér hefur fundist að bæði hjá bönkum og hjá hinu opinbera séu þessar greiðsluáætlanir alls ekki nógu nákvæmar. Í sumum tilfellum er ekki gert ráð fyrir því að sá einstaklingur, sem greiðslumatið er gert fyrir, þurfi að lifa, að hann þurfi að kaupa mat, hann þurfi að kaupa föt, hann þurfi að borga í strætó o.s.frv. Núna er verið að vinna að því í samstarfsnefnd á vegum mjög margra aðila að lagfæra þá annmarka sem eru á greiðslumati og þar eru bankar og neytendasamtök og ráðuneytin og fleiri saman. Ég held að greiðslumatið verði þá betra, það verður traustari grunnur og þá vonast ég til þess að lántakendur viti betur hvað þeir eru með í höndunum. Raunverulega er alls ekki nóg að gert sé greiðslumat vegna þess að sá sem fær greiðslumatið heldur jafnvel að nú sé hann kominn með uppskriftina að því hvernig hann geti hagað fjármálum sínum. Ef það er gallað felst talsvert mikil eyðilegging í því. Það er mjög mikilvægt að það gefi góða vísbendingu á stöðunni og ég tek þess vegna undir með hv. 1. flm. að gott greiðslumat er mjög mikilvægt stjórnunartæki. Það er mjög mikilvægt.

Ég ætla líka að taka undir þau orð hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur varðandi lánveitingar. Sá aðili sem veitir lán á að bera ríkari ábyrgð á því að veita réttar upplýsingar. Númer eitt fær maður ekki möguleika á því að taka réttar ákvarðanir ef maður fær ekki upplýsingarnar í hendur. Hvernig á maður að geta metið stöðu ef upplýsingarnar eru ekki veittar?

Í sjálfu sér segir ekkert að það sé ætíð bankinn sem gerir þessa greiðsluáætlun. Það getur þess vegna verið einkafyrirtæki. Það getur verið hver sem er. Í sumum tilfellum gætu það eins verið Neytendasamtökin eða hver annar. En það er stundum þannig ef neytendur eru með lán í fleiri en einni lánastofnun að þeir eru ekkert endilega vissir um að þeir vilji segja banka A frá banka B. Því getur stundum þriðji aðili verið bestur til að gera greiðslumat en hins vegar er mjög mikilvægt að sá sem á að skrifa upp á ábyrgð fái allar upplýsingar.

Ég vonast til þess að málið fái góða meðferð og það verði að lokum sett lög, og það vonandi fljótlega, um það efni sem þetta frv. og fleiri þáltill. sem fluttar hafa verið um sama efni kynna. Varðandi þetta frv., sem ég tel að ýmsu leyti mjög gott, hefði ég viljað sjá fleiri atriði inni sem hafa verið að gerast í nágrannalöndum okkar þar sem tekið er á málum sem við þekkjum ekki hér á landi. Þetta finnast mér samt að mörgu leyti mjög góðar hugmyndir en ég vil hafa svolítið meira efni og taka á fleiri þáttum. Kannski er rétt að vekja athygli á því að í þáltill., sem hér var til umræðu næst á undan, var varaþingmaður 1. flm. og síðan tveir nýir þingmenn og það má kannski virða það okkur til vorkunnar þó að við höfum ekki vitað af þeim þáltill. eða frv. til laga sem ekki náðu fram að ganga því að það er ekki svo að fjölmiðlar geri alltaf góða grein fyrir þeim málum sem ekki hljóta samþykki þannig að það er e.t.v. ástæðan að mér var ókunnugt um það. Hins vegar erum við öll sammála um að það sé mikilvægt að setja ítarlegri löggöf um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna.