Kaup og rekstur skólabáts

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 19:03:50 (1403)

1995-11-28 19:03:50# 120. lþ. 42.15 fundur 169. mál: #A kaup og rekstur skólabáts# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[19:03]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég er meðflm. að þeirri þáltill. sem síðasti hv. þm. Kristján Pálsson var að kynna og vildi aðeins leggja orð í belg hvað áhrærir framtíðarsýn íslenskrar sjómannastéttar. Þegar rætt er um menntamál þjóðarinnar vill oft fara svo varðandi þau mál sem snúa að sjómannastéttinni, hvað menntun varðar í hvaða mynd sem það er, að það vill oft bresta að menn hugi að framtíðinni hvað það áhrærir því að nú eru svo að gerðar eru sífellt meiri kröfur til sjómannastéttarinnar. Hraðinn er þar meiri, tæknin er sífellt að aukast. Það er líka áhyggjuefni, eins og áðan var vikið að, að þeim fækkar alltaf sem gefst tækifæri til þess að læra undirstöðuatriði áður en haldið er til sjós og það er verulegt áhyggjuefni. Það hefur sýnt sig líka nú í gegnum árin að þrátt fyrir Slysavarnaskóla sjómanna eru enn allt of mörg slys til sjós sem segja má að séu handvömm, þ.e. sem stafa fyrst og fremst af því að menn kunna ekki þau réttu handbrögð sem til þarf til þess að vinna þau verk svo áhættusöm og erfið sem þau eru til sjós.

Það er því fagnaðarefni að þáltill. skuli vera komin fram og vonandi að hún gefi tilefni til þess og verði þess valdandi að fleiri ungmennum verði gefinn kostur á að læra hin réttu handbrögð í upphafi væntanlegs sjómannsferils. Það hefur líka sýnt sig að þeir sem hafa farið til sjós sem ungir menn hafa tekið þá stefnu í lífinu að halda því starfi áfram þótt áhættusamt sé og við Íslendingar eigum auðvitað að leggja meira fjármagn til menntunar sjómannastéttarinnar en gert hefur verið. Því miður ber á því að menn vilja gleyma undirstöðuatvinnuvegi okkar og undirstöðu efnahagslegs sjálfstæðis.

Því vona ég að þessi þáltill. fái skjóta afgreiðslu á hinu háa Alþingi og vænti þess að meira verði gert í þessum málum sem lúta að starfsfræðslu og öryggismálum sjómannastéttarinnar.