Verndun jarðhitasvæðisins við Geysi í Haukadal

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 19:12:38 (1406)

1995-11-28 19:12:38# 120. lþ. 42.16 fundur 179. mál: #A verndun jarðhitasvæðisins við Geysi í Haukadal# þál., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[19:12]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 223 er till. til þál. um verndun jarðhitasvæðis við Geysi í Haukadal sem ég er 1. flm. að og flutningsmaður með mér er Árni Johnsen. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að:

a. stefna að því að allt að sjö ferkílómetra jarðhitasvæði við Geysi í Haukadal verði óskiptur eignarhluti ríkisins,

b. skipuleggja rannsókn á jarðhitasvæði Geysis undir umsjón Náttúruverndarráðs og veita sérstaka fjárveitingu til þessa verkefnis,

c. veitt verði sérstök fjárveiting til lagfæringar og uppbyggingar svæðisins með tilliti til ferðamanna,

d. nú þegar verði lagt bann við frekari borunum eða öðru jarðraski á Geysissvæðinu eða í námunda við það nema að undangengnum rannsóknum og þá í samráði við Náttúruverndarráð.``

Í greinargerð segir m.a. svo:

Jarðhitasvæðið sem kennt er við Geysi í Haukadal er án efa eitt frægasta jarðhitasvæði veraldar, þótt ekki sé það stórt. Bæði fyrr og síðar hefur verið mikill ferðamannastraumur að svæðinu allan ársins hring, einkum þó yfir sumarmánuðina. Geysir er einn margra hvera á svæðinu en nú er það einkum goshverinn Strokkur sem dregur ferðamenn að því.

Geysissvæðið er eitt af minni háhitasvæðum landsins en jarðhitasvæðið er mun stærra en skiki sá sem girtur var er það komst í umsjá íslenska ríkisins.

Mjög margir ferðamenn og vísindamenn hafa komið að svæðinu í gegnum aldirnar og lýst gosum hveranna, einkum þó Geysi. Hann var í árhundruð eitt af mestu undrum landsins og bar hróður þess víða. Árið 1935 eignaðist íslenska ríkið Geysi og skika sem að honum liggur. Síðar var svæðið girt og gefinn út um það bæklingur eftir Trausta Einarsson (Geysir í Haukadal, 1964) en allt frá þeim tíma hafa rannsóknir þar verið litlar.

Geysissvæðið er í eigu ríkisins að hluta og að hluta í einkaeign. Mun auðveldara væri að vinna að endurbótum, viðhaldi og rannsóknum á svæðinu ef það væri allt ríkiseign. Geysissvæðið er ekki friðlýst með sérstökum lögum en um það gilda ákveðnar umgengnisreglur. Þetta kemur mörgum undarlega fyrir sjónir en verður skiljanlegra þegar hugað er að nýtingu á svæðinu, slík nýting mundi ekki samrýmast neinum náttúruverndar- eða friðunarlögum. Nýting heits vatns af svæðinu á sér hins vegar langa sögu og þarf að taka á því máli sérstaklega. Svæðið var í umsjá Geysisnefndar frá 1935 til ársins 1991 en síðan þá hefur það verið undir umsjón Náttúruverndarráðs. Fé hefur mjög skort til framkvæmda og rannsókna á svæðinu. Árið 1992 var jarðhiti innan girðingar kortlagður og 1994 var rennsli úr hverunum mælt tvisvar. Ekki hefur fengist fé til annarra rannsókna og er það mjög miður.

[19:15]

Nýting hitans er talsverð, í fimm íbúðarhúsum, hóteli, gistiheimili og sundlaug. Sé hins vegar litið til jarðhitakerfisins í heild, en það nær yfir mun stærra svæði, er nýtingin talsvert meiri. Á undanförnum áratug hafa verið boraðar nokkrar holur í landi Helludals og Neðridals. Þessar holur ná flestar niður í jarðhitakerfið og taka vatn úr því. Af Geysissvæðinu mældist rennsli um 9 l/s árið 1994, en úr borholum sunnan og vestan við Geysi komu milli 12--15 l/s en rennsli þar er ekki þekkt nákvæmlega. Lítill þrýstingur er í framangreindum holum.

Árið 1967 mældist rennsli frá Geysissvæðinu um 14 l/s en það hefur nú minnkað niður í um 9 l/s. Síðan 1963 hafa verið boraðar níu borholur í jarðhitakerfið, sú síðasta í september 1995. Þá reisti aðili sér þar sumarbústað ekki langt frá og til að ná hita í sumarbústaðinn var borað eftir heitu vatni. Þar sem ekki hafa verið gerðar stöðugar mælingar á rennsli og hita í svæðinu er erfitt að gera sér grein fyrir hvort boranir þessar hafa haft áhrif á svæðið. Mælingar á heildarrennsli frá Geysissvæðinu hafa aðeins verið gerðar þrisvar sinnum, 1967 og tvisvar 1994. Til að kanna slík áhrif þarf að fylgjast mun betur með svæðinu en gert er nú. Þó verður að telja líklegt að áhrif borhola í Neðridal séu einhver en þær eru talsvert lægra í landi en hverasvæðið og vatnskerfið þar og við Geysi er með lágan þrýsting.

Borað var í Strokk árið 1963 og hreinsað burtu rusl sem kastað hafði verið í hverinn. Fyrir borun var ekkert rennsli frá honum en 2 l/s eftir borun og þá byrjaði hann að gjósa.

Mælingar á rennsli hvera og lauga gefa til kynna hve mikil orka er til staðar á staðnum. Jarðhitavatn sem er undir 50°C er vart talið nothæft til upphitunar en rennslismagn skiptir þar miklu máli. Þannig innihalda 2 l/s af 50°C heitu vatni álíka mikla orku og í 1 l/s af 100°C en nýting hitans er þó öllu lakari. Rennsli hvera og lauga er oft breytilegt, eftir úrkomu, árstíma, loftþrýstingi eða af öðrum orsökum. Eina leiðin til að kanna hegðun jarðhitasvæðis með tilliti til rennslis er að gera þar margar mælingar. Ef nýting hefst úr borholum í nágrenni við jarðhitastað er algengast að jarðhiti hverfi af yfirborði. Við dælingu úr borholum hverfur jarðhiti nánast undantekningarlaust af yfirborði en það getur tekið marga mánuði. Í stórum og kraftmiklum jarðhitakerfum geta hverir og laugar þó lifað boranir af, einnig ef rásir jarðhitans eru mjög vel aðskildar. Mestar líkur eru á að þeir hverir hverfi sem eru á sömu brotalínum og borað er í. Slíkar aðstæður eru fyrir hendi í Neðridal en borholur þar eru í sprungustefnu frá Geysi. Því er hættara við að boranir þar hafi áhrif á hverina við Geysi en boranir í Helludal þótt ekki sé það heldur hættulaust. Fjarlægð frá Geysi að borsvæðum er lítil, þau eru lægra í landinu og kerfin eru með lágan þrýsting.

Heildarrennsli af Geysissvæðinu hefur aðeins verið mælt þrisvar, fyrst er Þorvaldur Ólafsson var fenginn af jarðhitadeild Orkustofnunar til að mæla rennsli hvera og lauga á Suðurlandi sumarið 1967 og 1994 vann Helgi Torfason skýrslu fyrir Náttúruverndarráð um mælingar á Geysissvæðinu en Helgi Torfason, sem starfar hjá Jarðhitadeild Orkustofnunar, vann einmitt að þessari greinargerð. Það má heita undarlegt að þetta séu einu, góðu mælingarnar sem gerðar eru á svæði sem er jafn frægt og Geysissvæðið. Að vísu hafa verið gerðar mælingar á rennsli úr Geysi og nokkrum hinna hveranna en fáar mælingar eru það góðar að þær séu nothæfar.

Herra forseti. Með þessari grg. fylgja enn fremur nokkrar töflur sem segja til um hvernig rennsli er háttað og hvaða breytingar hafa orðið þar. Að lokum vil ég koma inn á atriði sem eru í grg.

Samkvæmt þeim athugunum sem gerðar hafa verið á jarðhitasvæðinu við Geysi hefur heildarafrennsli af svæðinu minnkað úr 14 l/s 1967 niður í 9 l/s 1994 sem er 5 l/s eða 36%. Íbúar á svæðinu telja sig hafa orðið vara við minnkandi rennsli og er það staðfest með mælingum. Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á volgrum vestan við Laugarfjall, laugum við Haukadal né í Rotum sunnan við Geysissvæðið.

Af heildarrennsli 9 l/s eru um 4,5 l/s notaðir af íbúum á svæðinu. Nýting á orku vatnsins er léleg og mætti bæta til muna.

Að lokum tek ég saman eftirfarandi: Geysir og hverasvæðið, sem við hann er kennt, er að hluta til í eigu ríkisins en aðrir hlutar þess eru í einkaeign. Geysir og hverasvæðið í kring eru ekki friðlýst með sérstökum lögum. Um það gilda ákveðnar umgengnisreglur. Af þeim 180 þús. erlendu ferðamönnum sem koma til landsins árlega má áætla að um helmingur fari að skoða Geysi eða um 250 manns á dag. Við þetta bætast Íslendingar svo heildartalan er ekki undir 300 manns á dag til jafnaðar. Efnahagsleg þýðing svæðisins er því mjög mikil að ekki sé minnst á verndargildi og álit landsins út á við. Rennsli jarðhitavatns á hverasvæðinu mældist 14 l/s árið 1967 en var komið niður í 9 l/s árið 1994. Aðrar mælingar eru ekki til. Rennslið og þar með orkan hefur því minnkað mikið á þessu tímabili. Minnkandi rennsli hefur í för með sér minnkandi útfellingar og hætt er við að gos í hverum geti minnkað eða horfið. Vatn á hverasvæðinu er nýtt til upphitunar á staðnum, alls 4,5 l/s eða um 50% hveravatnsins. Nýting á afrennsli svæðisins hefur lítil áhrif á það. Þó ætti að skila vatninu inn á svæðið aftur og nýtinguna má bæta.

Boraðar hafa verið 9 holur í jarðhitakerfið sem Geysir tengist, sú næsta í um 850 m fjarlægð frá Geysi. Úr þessum holum renna 12--14 l/s af vatni sem nýtt er til upphitunar. Vegna lítilla rannsókna eru áhrif þessara borana á jarðhitasvæðið óþekkt. Boranir í jarðhitasvæðið hafa yfirleitt í för með sér minnkandi náttúrulegt rennsli úr hverum og laugum því borholur veita jarðhitavatninu greiðari leið til yfirborðs. Brýnt er að veitt sé meira fjármagn til rannsókna og uppbygginga á svæðinu, útvíkka það og vernda með sérstökum lögum.

Herra forseti. Það kann kannski að hljóma einkennilega fyrir þá sem hlýða á mál mitt að þingmaður Reykvíkinga skuli flytja þessa þáltill. en ég flyt hana vegna áhuga míns á ferðamálum almennt og ekki hvað síst þeirrar staðreyndar að flestallir þeir sem fara á Geysissvæðið hafa viðdvöl í Reykjavík. Ég verð satt að segja, herra forseti, að lýsa áhyggjum mínum yfir því ef svo heldur fram sem horfir með hið fræga jarðhitasvæði við Geysi í Haukadal að menn séu þar að bora, jafnvel á því herrans ári 1995, af því að þá vantar vatn í sumarbústaðinn sinn án þess að nokkrar rannsóknir eða athuganir hafi farið fram. Ég hef miklar áhyggjur af því, herra forseti, ef svo færi að ekki yrði lengur gos á jarðhitasvæðinu við Geysi. Það mundi þýða að færri ferðamenn mundu leggja leið sína hingað til Íslands og ferðamönnum mundi fækka í Reykjavík og þá að sjálfsögðu beina sjónum sínum á aðra landshluta en hér á suðvesturhornið. Þetta mál snertir ferðaþjónustuna mjög mikið og snertir auðvitað líka þá ferðaþjónustu sem veitt er hér á suðvesturhorninu. Geysismálið er ekkert smámál. Það mætti líkja því við að menn ætluðu að virkja Gullfoss og þar yrði ekki lengur neitt vatnsrennsli. Við sjáum hver afleiðingin yrði af því. Svo samtengd eru þessi mál bæði, Geysir og Gullfoss, að allt verður að gera til að vernda það svæði og ekki má renna blint af augum í frekari boranir né frekari skemmdir á svæðinu.

Það kom fram í viðtali við einn ferðafrömuð ekki fyrir löngu sem lýsti því yfir að þær náttúruperlur Íslendinga ættu ekki að vera til sölu, þ.e. það ætti ekki að vera seldur aðgangur að náttúruperlum okkar. Ég tel að þarna sé röng hugsun. Hvar sem Íslendingar koma erlendis og skoða náttúruperlur þeirra staða sem þeir eru á þykir sjálfsagt og eðlilegt að hver og einn greiði fyrir aðgang þar að. Vissulega eigum við Íslendingar að taka upp sama háttinn. Ekki mun það hafa áhrif til þess að ferðamannastraumur muni minnka og ekki er ég að hugsa um að það sé í sérstöku ábataskyni sem ég segi þessi orð hér heldur fyrst og fremst til þess að þeir sem njóti greiði fyrir það sem þeir fá að sjá og jafnframt sé það fjármagn sem inn komi nýtt til þess að búa betur að stað eins og Geysi, og gera hann aðgengilegri og þar verði mjög bætt úr aðgengi á svæðinu sem vissulega er full þörf á.

Herra forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og umhvn.