Afnám mismununar gagnvart konum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 13:35:32 (1409)

1995-11-29 13:35:32# 120. lþ. 43.2 fundur 55. mál: #A afnám mismununar gagnvart konum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi BH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[13:35]

Fyrirspyrjandi (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Með ályktun Alþingis frá 13. júní 1985 var fullgiltur hér á landi alþjóðasamningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum og öðlast hann gildi í júlí 1985. Með samningi þessum taka aðildarríkin á sig víðtæka skyldu til þess að bæta stöðu kvenna, m.a. að tryggja fyrir lögbærum dómstólum landsins og öðrum opinberum stofnunum raunverulega vernd til handa konum gegn misrétti, rétt til sömu launa og karlar svo eitthvað sé talið. Þrátt fyrir þetta viðgengst mikið launamisrétti gagnvart konum hér á landi og dómstólar kveða enn upp dóma er byggja á kynferði og dæma ungum stúlkum misréttið út ævina. Eru þeir dómar byggðir á ófremdarástandi fortíðar og því miður líka nútíðar í launamálum kvenna.

Samkvæmt 18. gr. samningsins hvílir skylda til skýrslugerðar á aðildarríkjum samningsins. Svo samningurinn geti náð tilgangi sínum er brýnt að félagasamtök sem vinna að félagasamtök er vinna að hagsmunum kvenna sjái skýrslur vegna samningsins og geti komið athugasemdum vegna þeirra á framfæri.

Herra forseti. Með tilliti til þess sem hér hefur verið sagt spyr ég hæstv. utanrrh. um eftirfarandi:

1. Hvaða aðgerðir hafa þegar verið framkvæmdar hér á landi vegna aðildar Íslands að samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum?

2. Hvaða aðgerðir hefur ríkisstjórnin í hyggju til að framfylgja samningnum?

3. Hve mörgum skýrslum hefur verið skilað samkvæmt samningnum frá gildistöku hans og hvenær?

4. Hvernig er staðið að undirbúningi skýrslugjafar samkvæmt samningnum?

5. Hvernig koma frjáls félagasamtök að skýrslugerðinni?

6. Hvernig er staðið að kynningu samningsins hér á landi?