Afnám mismununar gagnvart konum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 13:42:00 (1411)

1995-11-29 13:42:00# 120. lþ. 43.2 fundur 55. mál: #A afnám mismununar gagnvart konum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[13:42]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Svar hæstv. ráðherra var býsna almennt eins og kannski mátti vænta. Ég vil nefna það í sambandi við fyrirspurnina að á Alþingi 1986 flutti ég ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur sérstaka þáltill. sem tengist því máli sem hér er spurt um og var um úttekt á mismunun gagnvart konum hérlendis. Þar var gert ráð fyrir að félmrh. og jafnréttisráðherra væri falið að gera nákvæma úttekt á einstökum atriðum samningsins og til hvaða aðgerða þyrfti að grípa til þess að standa við þær samþykktir sem þarna höfðu verið staðfestar af Alþingi. Ef ég man rétt var tillaga okkar ekki samþykkt á Alþingi. Hún fékk úr óvæntri átt andstöðu frá einum þingmanni Kvennalistans sem reyndar er kominn nú í annað húsnæði á vegum sjálfstæðra kvenna og taldi enga ástæðu til að taka á málinu með þessum hætti. En þessi tillaga var flutt og lá þá fyrir og betur að efni hennar hefði verið samþykkt og unnið að málinu í samræmi við það.