Afnám mismununar gagnvart konum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 13:43:28 (1412)

1995-11-29 13:43:28# 120. lþ. 43.2 fundur 55. mál: #A afnám mismununar gagnvart konum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[13:43]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á málinu. Það kom fram í máli hæstv. utanrrh. að Ísland er efst á blaði þeirra ríkja sem tryggja konum hvað best formleg réttindi í heiminum en það má vara sig á því að skjóta sér ekki á bak við þá niðurstöðu því að lög eru eitt og raunveruleikinn annað. Það er alveg ljóst í mínum huga að við eigum mjög langt í land með það að uppfylla sáttmálann um afnám alls misréttis gegn konum. Við þurfum ekki annað en horfa á hlut kvenna hér á Alþingi og almennt í stjórnkerfinu, á launamisréttið, á ofbeldið sem tíðkast í samfélaginu o.fl. sem þessi samningur og reyndar samþykktir frá kvennaráðstefnunni í Peking kveða á um. Það er kannski aðalerindi mitt hingað í ræðustólinn að vekja athygli á þeirri nýju samþykkt sem þarf auðvitað að fylgja hér eftir og það hlýtur að vera næsta spurning til íslenskra stjórnvalda hvernig þau hyggist fylgja þeirri ítarlegu og miklu samþykkt eftir.